Kúrbítsbrauð með valhnetum og súkkulaði
- 110 gr smjör
- 2 bollar og 2 msk hveiti
- 1 stór kúrbítur (ca 330 gr)
- 3/4 bolli + 2 msk sykur
- 1/3 bolli sterkt uppáhellt kaffi, kalt eða við stofuhita
- 1/3 bolli jógúrt
- 2 stór egg
- 1/3 bolli fínhakkað suðusúkkulaði
- 1/2 bolli hakkaðar valhnetur
- 1 tsk lyftiduft
- 1/2 tsk matarsódi
- 1/2 tsk salt
- 1/2 tsk kanil
Hitið ofninn í 190°. Smyrjið brauðform og dustið með hveiti.
Skerið endana af kúrbítnum frá og rífið kúrbítinn með grófa rifjárninu á matvinnsluvél (eða venjulegu rifjárni). Hendið frá því sem verður eftir á rifjárninu. Setjið rifinn kúrbítinn í sigti og stráið 1 msk af sykri yfir og hristið vel. Stráið annarri msk af sykri yfir og hristið aftur. Látið standa í sigtinu í 20 mínútur.
Bræðið smjörið í potti við miðlungs hita. Hellið smjörinu í skál og látið kólna aðeins. Hrærið 3/4 bolla af sykri, kaffi, jógúrt og eggjum saman við smjörið.
Setjið hveiti, súkkulaði, valhnetur, lyftiduft, matarsóda, salt og kanil í skál og blandið saman.
Kreistið safann úr kúrbítnum og blandið kúrbítnum saman við smjörblönduna. Hellið blöndunni yfir þurrefnin og hrærið öllu saman með trésleif.
Setjið deigið í brauðform og bakið í ca klukkustund, eða þar til bökunarprjóni stungið í mitt brauðið kemur hreinn upp.
Uppskrift: Ljúfmeti og lekkerheit