Á Frétta- og fræðslusíðu UÍF segir að Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands langar að vekja athygli á því Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ hefur verið fært fram í september og verður haldið víðs vegar um landið laugardaginn 18. september 2021. Að þessu sinni markar hlaupið upphafið að Íþróttaviku Evrópu, sem haldin verður í fimmta sinn á Íslandi í ár.

Markmið Kvennahlaupsins hefur frá upphafi verið að vekja áhuga kvenna á reglulegri hreyfingu. Allt frá því fyrsta Kvennahlaupið var haldið árið 1990 í Garðabæ hafa þúsundir kvenna um land allt notið þess að hreyfa sig saman og þannig sameinað tvo mikilvæga þætti lífsins, hreyfingu og samveru.

Í Kvennahlaupinu koma saman konur á öllum aldri og algengt er að margir ættliðir, vinkonur eða systur hlaupi saman. Hver kona tekur þátt í hlaupinu á sínum forsendum og áhersla er lögð á að allir fari á sínum hraða og með bros á vör.

Eftir að 30 ára afmæli Kvennahlaupsins var fagnað með pompi og prakt árið 2019 var ákveðið að gera breytingar á framkvæmd þess. Þær eru fyrst og fremst gerðar með tilliti til umhverfissjónarmiða, samhliða því að reyna að höfða til yngri kynslóða. ÍSÍ taldi ekki lengur ásættanlegt að bjóða upp á mörg þúsund boli sem hver og einn er pakkaður í plast og ekki með umhverfisvottaða framleiðsluhætti.

Þá var einnig tekin ákvörðun um að sleppa verðlaunapeningunum þar sem mikið magn af þeim var afgangs ár hvert. Þessar breytingar eru gerðar með það í huga að gera hlaupið sem umhverfis vænast.

Kvennahlaup nútímans snýst um hreyfingu sem hentar hverjum og einum, samveru kynslóðanna, líkamsvirðingu, sanngirni, umhverfismeðvitund og valdeflingu. Einkunnarorð Sjóvá Kvennahlaups ÍSÍ 2021 eru líkt og áður „Hlaupum saman“.

Nánari upplýsingar um Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ 2021, m.a. um alla hlaupastaði og tímasetningar, verður hægt að nálgast á www.kvennahlaup.is þegar nær dregur.

Mynd/UÍF