Hér fyrir neðan fáið þið að sjá dæmi um fordóma og særandi óþarfa grín sem oft sést á samfélagsmiðlum þegar ”SUMUM” finnst vegið að sér og sínum mannréttindum sem ”höfuðborgarbúi / Suðvesturhornsbúi” þegar mikilvæg réttlætismálefni fyrir ”Landsbyggðarbúa” eins og t.d. Loftbrú eru kynnt i fjölmiðlum.

Erum við ekki öll Íslendingar eða erum við tvær ólíkar þjóðir í sama landi?
Þar sem “Stórborgarsvæðið” er ein þjóð með aðrar þarfir og réttindi en hin “Landsbyggðarþjóðin.”

Þurfum við kannski að ræða þessa “Íslensku innanlands fordóma” þar sem fólk er sett í flokka, á sama máta sem nú er gert með mörg önnur mannréttindamálefni út um allan heim.

Og..tja, þrátt fyrir að þetta kannski byrji með gríni þá er það augljóst í seinni svörum að undir gríninu liggja skoðanir sem ég kalla landsbyggðarfordóma. En það er eins með alla fordóma að það er alltaf óviljinn til að kynna sér staðreyndir sem liggja á bak við svona skoðanir.

Í huga mínum koma upp spurningar eins og:

Er Facebook áráðanlegur fjölmiðill eða fréttasíða?

Þar sem hverjum og einum er leyfilegt að rangtúlka og snúa út úr fréttum eins og t.d. þessari frétt um Loftbrú og með sínum túlkunum fara með fleipur sem kannski særa aðra?

Hvernig er það hreinlega hægt að lesa úr orðum Samgöngumálaráðherra að Loftbrú sé bara Lúxus-skemmtistyrkur fyrir menningarsveltandi dreifbýlisbúa?

Á maður ekki bara að segja sumt í hljóði við vini sína yfir kaffibolla og hlæja að minnihlutahópum (dreifbýlisfrekjum) í einrúmi ef maður hefur svo mikla þörf fyrir svoleiðis hluti?

Og já, mér sárnaði það verulega að ég ætti svona “Vin” með svona skoðanir á réttlætismálum fyrir hans eigin landsmenn og ég svara honum fullum hálsi því honum er dauðans alvara og hann er alls ekki að grínast og mér og mörgum öðrum er ekki skemmt og “VIД erum orðin mjög svo langþreytt á þessum Landsbyggðarfordómum og “lákúrugríni.”

Einu sinni fyrir langa löngu, þá voru íbúar í Vestmannaeyjum orðnir svo þreyttir á að alltaf vera skyldir út undan í samgöngumálum o.fl. að þeir voru á því að besta lausnin fyrir þá, væri að stofna aðskilnaðarstjórnmálaflokk og segja sig úr öllu samstarfi við lýðveldið Ísland.

Margir hlógu nú að þessu þá… en Vestmannaeyja fólkinu var reyndar flestum dauðans alvara.

Það er einnig viðeigandi að minna á þessa greinar:
FLUGSAMGÖNGU FRAMFARA SAGAN SEM HVARF ! “LANDIÐ ÞAR SEM ALLT ER Í HÁALOFT – INU”
eða
Tvær þjóðir í einu landi ?
og
GUÐ ER FÍFL !……… og hann býr greinilega í REYKJAVÍK ! Sunnudagspistill.

Svona einkennilegar landsbyggðarskoðanir koma líka mjög oft upp í sambandi við kynningar á áætlunum um t.d. vegagerð og jarðgöng úti á landsbyggðinni….
… fyrir einhverjar örfáar hræður.

Eða í sambandi við umræðu um að flytja sameiginlegar ríkisstofnanir (allra) Íslendinga út á land.

En við skulum muna að allt “grín og skop” sem er notað sem saklaus framhlið (pakkað inn í t.d. grín -salgætisumbúðir) á duldum fordómum og skoðunum er hættulegt.

Því það skapar bara ósætti og sundrung og þá sérstaklega “grín” sem skiptir fólki í flokka þar sem t.d. einum, oftast minnihlutahópi er stillt upp sem t.d. heimskum eða frekum þjóðfélagshóp.

Ég bið lesendur um að fara varlega í að dæma Facebook vin minn fyrir hans skoðanir/grín, hann á fullan rétt á að hafa þær.
Eða að dæma mig fyrir að segja á móti í mínum svars rökum og í þessari grein.

“Grín eða ekki ?
Fyrirsögn vinar á Facebook:

Ætli maður fái að fljúga eina ferð frá Hveragerði á styrk frá ríkinu?

RVK grínisti 1:

Nei þú ert ekki ráðherra…………………. á réttum stað

RVK grínisti 2:

Í svifdróna

Facebook vinur:

Það á að fara að styrkja landsbyggðina til að fara ” í bæinn” og skoða svokallaða menningu. Spurnig hvar byrjar landsbyggðin??

RVK grínisti 3:

Hún byrjar við Laugaveg 70 ca…. þar má enn keyra

Ég, Jón Ólafur Björgvinsson svar 1:

Greinilega byrjar “landsbyggðin” ekki í Hveragerði sem er bara ca 39 mín bílferð frá RVK eða viltu meina að þú hafi rétt á afslætti á flugferð fyrir þessa greiðu og stuttu leið? Þetta snýst ekki um svona lágkúru útúrsnúninga XXXX .
Eða bara skemmtiferðir.

Facebook vinur:

Enn eiga ekki borgarbúar rétt á afslætti útá land. Ég væri alveg til í að skreppa á Græna Hattinn . Mun betri staður enn Harpa.
Ég er bara á móti svona (öllum ) niðurgreiðslum.

Fólk velur að búa ” út á landi” og þá bara missir það af einhverju í Rvík enn það fær líka helling í staðinn.

Ég, Jón Ólafur Björgvinsson svar 2:

Ef þú bara vissir hvað það kostaði pabba heitinn og ættingja í tíma og peningum að sækja sér sérfræði þjónustu. Þú ert stundum hreinlega fordómafullur í garð Íslendinga sem búa úti á landi eða er Íslands RVK og næsta nágrenni í þínum huga. Hér er ekki á ferðinni einhver LÚXUS styrkur…. reyndu að setja þig betur inní málefnið og daglegt líf landsmanna þinna og hættu að tala eins og þú viljir refsa fólki fyrir það eitt að vera svo “vitlaust” að velja að búa ekki í höfuðborginni.
Þú ert stundum svo ótrúlega gamaldags í hugsun að maður gæti haldið að þú sért yfir 90 ára og heitir Skúli Fúli…. bara hreinlega á móti öllu… meira að segja réttlætis málum sem bætir hag þúsunda Íslendinga

Facebook vinur:

Ertu búinn að læra þessa ókurteysi í Svíþjóð.? Þökk fyrir “góða” umræðu.

Ég, Jón Ólafur Björgvinsson svar 3:

Ég þoli ekki þröngsýni og fordóma og þú verður að vera viðbúinn því að sumir þori að svara þér og segja á móti og já mér sem er fæddur og uppalin úti á landi sárnar það að heyra svona skoðanir frá fólki sem ég tel vini mína en nú setjum við punkt hér, því ég finn að þú ert ekki móttækilegur fyrir rökum nema þínum eigin og ef þú villt þá setjum við punkt á vináttuna líka og mín skoðun eða orðaval hefur ekkert samband við langvarandi búsetu mína í Svíþjóð og er líka móðgandi ábending frá þér um að kannski ég hafi ekki rétt á því að hafa skoðanir á neinum af því að ég bý ekki á þessari eyju akkúrat núna.

En ég er fæddur og uppalin á Siglufirði og ég veit hvernig það er að búa þar bæði í denn og í dag..

Punktur BASTA og bæ

HÖFUNDUR OG LJÓSMYNDARI:
JÓN ÓLAFUR BJÖRGVINSSON

Nýlegar birtar greinar og sögur eftir sama höfund:

SUNNUDAGSPISTILL: HORFT YFIR FJÖRÐINN Í GALDRALOGNI

KÓRÓNU-SMÁSAGA FYRIR FULLORÐIN BÖRN: SJÁLFUR DAUÐINN SENDUR Í FRÍ!

SÍÐASTI BÓNDINN Í HÉÐINSFIRÐI

ÞJÓÐSÖGU-SMÁSAGA. HAFIÐ GEFUR HAFIÐ TEKUR 1. HLUTI

ÞJÓÐSÖGU-SMÁSAGA. HAFIÐ GEFUR HAFIÐ TEKUR 2. HLUTI

AÐRAR SÖGUR OG GREINAR EFTIR 

JÓN ÓLAF BJÖRGVINSSON Á TROLLI.IS.