Heilbrigð sál í hraustum líkama…

… var gamalt og gott markmið leikfimiskennslu skólayfirvalda á síðustu öld og pistlahöfundur vill með þessari myndasyrpusögu sýna ykkur skemmtilegar ljósmyndir úr Ljósmyndasafni Siglufjarðar og minna á liðina tíð, þar sem við blessuð börnin tókum þátt í stórbrotnum leikfimissýningum, innanhúss jafnt sem utandyra og á leikfimisgólfi ofan á 25 m. sundlaug.

Þar fyrir utan var þvingaður í okkur lýsisskammtur á hverjum skólamorgni og ofan á allt vorum við send í ljósatíma líka.

ATH. Hér er ekki ætlun greinarhöfundar að segja neina heildarsögu um fimleika og leikfimi, heldur aðeins að rifja upp þetta merkilega tímabil í íþróttasögu Íslands/Siglufjarðar.

Ef þið smellið á mynd í greininni er hægt að fletta stækkuðum ljósmyndunum fram og til baka. En auðvitað er skemmtilegast að skoða alla myndatexta og söguna í heild sinni.

Forsíðuljósmyndin sýnir okkur frægan Siglfirskan fimleikahóp karla og var það árlegur viðburður á hátíðisdögum í áratugi að fá að sjá þessa fimu stráka, sýna kúnstir sínar og hæfni undir stjórn Helga Sveins leikfimiskennara. Mín upplifun og barnaleg undrun af þessu var ekki ósvipuð því að seinna sjá loftfimleikafólk í “Sirkus Geira Smart” sýna hæfileika sína í svarthvítu sjónvarpi á nýársdag.

Helgi og Regína voru leikfimiskennarar í bæði Barna og Gagnfræðaskóla Siglufjarðar í áratugi, þau voru einnig miklir frumkvöðlar og unnu mikið í uppbyggingu margskonar íþróttamála.

Æfingaaðstaða fyrir leikfimi og fimleika var lengi vel léleg, í litlum leikfimissal með lágt til lofts, sem var áfastur gamla Barnaskólanum á Eyrinni.

Skemmtilegar æfinga ljósmyndir og glæsilegar líkamshreyfingar hjá körlum og konum

Ling-leikfimi: Hugmyndafræðin á bakvið mikið af þeim hópæfingum sem við sjáum á myndunum hér neðar eru sóttar úr leikfimisheimspeki svíans  Per Henrik Ling. Þar er mikil áhersla lögð á jafnvægi milli heilbrigðar sálar í hraustum líkama, sem og jafnvægi á milli vinstri og hægri hluta kroppsins. Keppni í íþróttum er ekki æskileg, en ef t.d. maður verður endilega að keppa í knattspyrnu væri best að skilda leikmenn til að sparka í boltann í annaðhvort skipti með vinstri eða hægri fæti.

Ling-leikfimis-hugmyndafræðin var allsráðandi í skólaleikfimi Norðurlanda á 19 öld og langt fram á 20 öldina. Mörgum þótti þessar hópæfingar líkjast heræfingum og fannst þetta leiðigjarnt til lengdar. En þetta lítur vel út eins og sjá má á mörgum ljósmyndum hér neðar.

Karlar

Konur

Fimleikastúlkur úr Gagnfræðiskóla Siglufjarðar, Hjördís Stefánsdóttir, Svava Gunnlaugsdóttir, Steinunn Rögnvaldsdóttir, Regína Guðlaugsdóttir. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.

Fimleikasýningahópur Helga Sveins

Áðurnefndur fimleikahópur Helga Sveins sem er forsíðumynd á þessari samantekt, var landsfrægur og fór víða um land og sýndi fimleika með miklum tilþrifum um allt Ísland á allskyns útihátíðum og samkomum. Þessi hópur sem var breytilegur á milli ára var einnig ómissandi skemmtiatriði á Siglfirskum hátíðisdögum í áratugi.

Fimleikasýning á 17. júní við Barnaskólann. Helgi Sveinsson íþróttakennari í loftinu, en hjá trambolíninu standa þér Hjálmar Jóhannesson, Valur Johansen, Jóhann Steinsson, Skarphéðinn Guðmundsson og Jón Jónasson. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Að lokum…
… hóp leikfimissýningar barna og unglinga, á Barnaskólabalanum og ofan á sundlaug

Pabbar, mömmur, afar og ömmur komu og dáðust að því hvað við blessuð börnin vorum hraust og dugleg í leikfimi og að sjálfssögu mætti Steingrímur Kristins og tók myndir af þessu öllu saman fyrir okkur.

Það var dásamlegt að alast upp á Siglufirði og þátttaka í íþrótta- og félagslífinu í bænum gaf mér og mörgum öðrum gott fararnesti út í lífið. Maður átti sér margar fyrirmyndir í kennurum og þjálfurum, enginn nefndur og þar með enginn gleymdur. En þegar kemur að knáum fimleikaköppum, bar ég mikla virðingu fyrir og dáðist mikið af Einari Hermannssyni, vörubílstjóra.

Fimleikaflokkur Ármanns árið 1955 – Vigfús Guðbrandsson stjórnaði hópnum, en hann er í aftari röð lengst til hægri á myndinni. Þá eru þarna á myndinni, Siglfirðingarnir, talið frá hægri í fremri röð: Einar Hermannsson og Hreinn Steinsson. Ljósmyndari óþekktur.

Hót um falleinkunn í leikfimi

Mér sjálfum fannst alltaf gaman í leikfimi hjá Helga Sveins, en um viku fyrir skólaslit þegar ég var í 7 eða 8 bekk grunnskólans, kallaði Gunnar Rafn Sigurbjörnsson skólastjóri mig til sín inná skrifstofu hjá sér uppí Gagga og tilkynnti mér að hann væri að setja lokaeinunnir nemenda og Helgi hafði víst sett 0 með stóru gati sem mína lokaeinkunn í leikfimi þetta árið. Ég var svolítið kaldur kall og kjaftstór á þessum gelgjuárum og það kom mér oft vandræði.

Ha… ég vissi ekki að ég væri svona lélegur í leikfimi…

Tja.. þetta snýst kannski ekki um það vinur, miklu meira um að þú hefur ekki mætt í sundkennslu hjá Helga í heilan mánuð eða svo.

Heyrðu Gunnar Rafn, sko, ég er búinn að vera að æfa sund 6 sinnum í viku síðan þeir rifu þetta andskotans gólf ofan af sundlauginni strax eftir páska og ég nenni bara ekki að fara í þetta sundkennslu-busl hjá honum Helga Sveins…

Jón Ólafur, andaðu rólega… kennarar geta ekki bara sent þér einkunnir heim í pósti án þess að sjá og dæma getu og kunnáttu nemandans…

Andskotinn sjálfur hafi það, getur hann ekki bara spurt Regínu kollega sinn og sundþjálfarann minn hvort ég kunni að synda????

Jón Ólafur… nú ferð þú bara út í sundhöll strax í dag og reynir að semja við Helga um þessa leikfimiseinkun á góðan og kurteisilegan máta.

Ég mætti síðan í næsta sundkennslutíma, en tók ekki með mér sundskýlu eða handklæði og Helgi lét mig bíða skömmustulega í stjórnendaklefanum við sundlaugarbakkann.

Síðan ræddum við þetta fram og til baka og ég kom með allskonar afsakanir um æfingarálag í sundinu 6 sinnum í viku og ofan á það 3 fótboltaæfingar sem voru nýbyrjaðar á rennblautum malarvellinum…

Höfrunga sundafreksmerkið mitt og nokkur önnur sundmerki frá samnorrænum keppnum á síðustu öld.

Við komust ekkert áfram, en svo mundi ég að Helgi hafði boðið nokkrum bekkjarfélögum mínum að taka Höfrungamerkið í síðasta sundkennslutíma vorsins… og heldur þú að þú getir tekið þetta afreksmerki algjörlega óundirbúinn?
Já, ekkert mál, svara ég og er bara nokkuð góður með mig.

Svo mætti ég í flottri Speedo sundskýlu og með sundgleraugu og alles… Þarna máttum við synda 1000 m. bringusund á einhverjum fáránlega löngum tíma og svo troða marvaða í 10 mín, kafa eftir dúkku og svo að lokum synda með félaga í eftirdragi 50 metra. Ég stóðst þetta með glæsibrag og á enn þá þetta flotta Höfrungamerki og fékk 9 í leikfimiseinkun hjá Helga.

Helgi Sveins virtist ekki vita að við í sundfélaginu SS byrjuðum allar sundæfingar hjá Regínu Guðlaugs með 1000 m. upphitun, 500 m. bara hendur og svo strax á eftir 500 m. bara fætur og svo syntum við kannski 2 km í viðbót í allskyns sprettsundsæfingum.

Þetta voru dásamlegir tímar og gaman að minnast á, í máli og myndum.

Höfundur samantektar og endurvinnsla ljósmynda:
Jón Ólafur Björgvinsson .

Sjá meira söguefni eftir sama höfund hér:
https://trolli.is/author/nonni/

Forsíðu ljósmynd:
Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Allar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar.

Heimildir:
Vísað er í ýmsar heimildir í greinartexta.