Margt er um manninn á tjaldsvæðinu á Siglufirði þessa sólríku og blíðu daga. Tjaldsvæðið er staðsett í miðbænum við torgið og smábátabryggjuna og öll þjónusta, afþreying og söfn eru í 5-10 mínútna göngufæri. Stutt er á skólalóðina í leiktækin og hoppubelgurinn er rétt handan við torgið.

Þjóðlagahátíðin á Siglufirði er á næsta leiti eða 5. – 9. júlí nk. og má reikna með að gestum fjölgi á tjaldsvæðunum.

Í dag er verið að undirbúa opnun tjaldsvæðisins á Rammalóðinni á Siglufirði en Fjallabyggð hefur síðustu ár fengið að nýta það svæði fyrir gesti þegar stórhátíðir eru fram undan.

Tjaldsvæði Sunnan við snjóflóðavarnagarðinn (Stóra bola) er annað svæði fyrir þá sem kjósa ró og frið og þaðan er stutt á golfvöllinn, í hesthúsabyggð og fuglavarp. Um 10 mínútna gangur er niður í miðbæ frá Stóra Bola.

Tjaldsvæðið í Ólafsfirði hefur verið mikið sótt það sem af er sumri og aðstaða það öll til fyrirmyndar. Tjaldsvæðið er við sundlaugina, hoppubelginn og nýlagðan frisbígolfvöll. Þar er lítil tjörn með miklu fuglalífi og smásílum sem vinsælt er að veiða hjá yngri krökkunum.

Umsjónarmaður tjaldsvæðanna er hann Gummi og hægt að ná í hann í síma 663-5560 allan sólarhringinn.

Facebooksíða Tjaldsvæða Fjallabyggðar