Fengum fyrirspurn frá lesenda varðandi Listaverkasafn Fjallabyggðar og sendi Trölli.is eftirfarandi spurningar til sveitarfélagsins.

Spurt var:
1. Getum við fengið lista yfir listaverk í eigu Fjallabyggðar?
2. Hverjir voru gefendur?
3. Hvar og hvernig þau eru geymd og hvernig varðveislu þeirra er háttað?
4. Hvert er áætlað verðmæti safnsins?

Erindið var langt fyrir 57. fund Markaðs- og menningarnefndar Fjallabyggðar 2. október 2019. og var gerð eftirfarandi bókun.
Markaðs- og menningarfulltrúi hefur þegar bent forsvarsmönnum Trölla.is á heimasíðu Listaverkasafns Fjallabyggðar http://listasafn.fjallabyggd.is/ en þar er að finna lista yfir skráð listaverk í eigu Fjallabyggðar, listamenn, staðsetningu og hverjir eru gefendur.
Markaðs- og menningarnefnd felur markaðs- og menningarfulltrúa að svara erindi Trölla.is í samræmi við niðurstöðu fundarins.

Á sama fundi var gerð eftirfarandi bókun.
4. 1909073 – Listaverkasafn Fjallabyggðar
Rætt um Listaverkasafn Fjallabyggðar og geymsluaðstaða safnsins skoðuð. Nauðsynlegt er að gera söfnunar- og útlánastefnu fyrir safnið.

Svar markaðs- og menningarfulltrúa Fjallabyggðar barst Trölla.is 8. október síðastliðinn og var á eftirfarandi leið.

  1. Meðfylgjandi í pósti þessum er listaverkaskrá Listasafns Fjallabyggðar (Sjá hér). Safnið hefur eignast um 20 verk annarra listamanna á síðustu árum og er unnið að skráningu þeirra.
  2. Gefendur listaverkasafnsins eru, eins og fram kemur í listaverkaskránni, hjónin Arngrímur og Bergþóra og gáfu þau Siglufjarðarkaupstað þessa gjöf árið 1980 sem var vísir að Listasafni Siglufjarðar og síðar Fjallabyggðar.
  3. Listaverkin eru varðveitt í eldtraustri geymslu í Ráðhúsi Fjallabyggðar. Einnig eru verk á skrifstofum bæjarskrifstofa Fjallabyggðar, bæði í Ólafsfirði og á Siglufirði.  Nokkur verkanna hanga á veggjum annarra stofnana Fjallabyggðar.

Unnið var að forvörslu verkanna frá árinu 2009 og fram til 2016, enda voru nokkur verkanna komin vel til ára sinna og eðlilegt að það sjáist á listaverkum eftir marga áratugi. Ekki var mikið af skemmdum vegna utanaðkomandi þátta, svo sem eftir högg eða illa meðhöndlun. Ólafur Ingi Jónsson forvörður frá Listaverkasafni Íslands annaðist forvörsluna með aðstoð Sigríðar Gunnarsdóttur listfræðings. Árið 2010 festi Fjallabyggð kaup á hugbúnaði til gerðar heimasíðu Listaverkasafns Fjallabyggðar og er síðan með vefslóðina http://listasafn.fjallabyggd.is/forsida/. Þar verður hægt að sjá ljósmyndir af listaverkunum auk upplýsinga um verkin og listamennina. Unnið hefur verið að því að skrá öll listaverkin inn á Sarpinn.is.

  1. Verðmat á verkum Listaverkasafns Fjallabyggðar lá frammi í júní árið 2009. Það ár var safnið metið á kr. 45.080.000. Ekki hefur farið fram verðmat síðan 2009.


Þegar svar barst sendi Trölli.is Lindu Leu Bogadóttir markaðs- og menningarfulltrúa fleiri spurningar varðandi listaverkasafnið.
Hefur ekkert verið unnið með síðuna frá 2010 og hvenær verður hægt að skoða listaverk Fjallabyggðar rafrænt á síðunni?

Svar markaðs- og menningarfulltrúa Fjallabyggðar.
Lítil hreyfing að nýju efni er á síðuna. Síðan  er líka orðin úrelt og vefumsjónarkerfið erfitt viðureignar og komið að uppfærslu. Ég er komin með verð í nýja síðu sem fer í ferli strax á nýju ári og horfir þetta þá allt til betri vegar.
Ég reikna með að nýja vefumsjónarkerfið, sem kemur til með að halda utan um listaverkin, verði þannig að hægt sé að draga fram myndirnar og stækka þær. Kerfið sem er á bak við síðuna núna bíður ekki upp á slíkt. Einnig er verið að vinna í því að taka ljósmyndir af þeim verkum sem ekki þegar eru komnar á vefinn.

 

Mynd: Listasafn Fjallabyggðar