Listeria monocytogenes greindist í sýnum af reyktum laxi og reyktum regnboga sem framleiddur var undir nafni Ísfirðings.
Dreifing og sala afurðanna hefur verið stöðvuð. Reykti laxinn ætti því ekki að vera í dreifingu í verslunum en neytendur gætu átt vöruna í frysti eða kæli.
Fiskvinnslan Hrefna hefur tilkynnt Matvælastofnun að vegna varúðarsjónarmiða sé varað við neyslu og innkalla vöruna frá neytendum. Innköllunin nær til dagsetningarinnar „Síðasti notkunardagur“ 14.02.2022. Þessi framleiðslulota var framleidd í desember, fryst hjá framleiðenda og sett á markað í janúar. Lotan var fyrst sett á markað í desember með síðasta notkunardegi 14.01.2022 og því er einnig varað við neyslu hennar.
- Vöruheiti: Ísfirðingur – REYKTUR LAX
- Framleiðandi: Fiskvinnslan Hrefna
- Síðasti notkunardagur: 14.1.02022; 14.02.2022; 08.03.2022
- Geymsluskilyrði: Kælivara við 0-4 °C
- Dreifing: Til verslana Nettó, Kjörbúðanna, Krambúðanna, Iceland, Melabúðarinnar, Me og Mu, Heimkaup.is og Hraðbúðarinnar Hellissandi
Listeria monocytogenes greindist einnig í litlu magni í reyktum laxi og reyktum regnboga með síðasta notkunardegi 08.03.2022.
- Vöruheiti: Ísfirðingur – REYKTUR REGNBOGI
- Framleiðandi: Fiskvinnslan Hrefna
- Síðasti notkunardagur: 08.03.2022
- Geymsluskilyrði: Kælivara við 0-4 °C
- Dreifing: Til verslana Nettó, Kjörbúðanna, Krambúðanna, Iceland, Melabúðarinnar, Me og Mu og Heimkaup.is
Neytendur sem hafa í fórum sínum, í kæli eða frysti, pakkningar með ofangreindum dagsetningum eru beðnir farga vörunni eða skila henni með því að hafa samband við Fiskvinnsluna Hrefnu ehf, s. 8943653 eða netfang fiskvinnslanhrefna@gmail.com.
Vörur, með ofangreindum dagsetningum, hafa verið teknar af markaði.
Listeria monocytogenes getur orsakað sjúkdóm bæði hjá mönnum og dýrum og kallast þessi sjúkdómur listeriosis. Einkenni sjúkdómsins eru mild flensueinkenni, vöðvaverkir, hiti og stundum ógleði og niðurgangur. Alvarlegri einkenni eru heilahimnubólga í ungbörnum, blóðeitrun og getur sjúkdómurinn einnig valdið fósturláti. Í einstaka tilfellum getur bakterían valdið dauða, þá er yfirleitt um að ræða einstaklinga sem eru með skert ónæmiskerfi.
Í flestum heilbrigðum einstaklingum veldur neysla á listeríumenguðum matvælum ekki sjúkdómi. Áhættuhópar eru barnshafandi konur, ófædd og nýfædd börn, aldraðir og einstaklingar með skert ónæmiskerfi. Hópsýkingar af völdum listeríu eru mjög sjaldgæfar, oftast er um að ræða einstaklingssýkingar.
Matvælastofnun vekur einnig athygli á að ekki á að neyta matvæla sem eru merkt með „síðasta notkunardegi“ eftir að sá dagur er liðinn þar sem ekki er víst að þau séu örugg. Matvæli sem merkt eru með „best fyrir“ geta hins vegar verið örugg og til að minnka matarsóun er um að gera að nota nefið til að meta gæði þeirra.
Mikilvægt er að aðstandendur aldraðra eða aðrir sem sinna öldruðum fylgist með matvælum í ísskáp þeirra og fargi matvælum sé „síðasti notkunardagur“ liðinn.