Tímamót urðu í vikunni þegar Alþingi samþykkti stjórnarfrumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, til laga um íslensk landshöfuðlén. Um er að ræða fyrstu heildarlögin um umgjörð og umsýslu á íslenskum landshöfuðslénum og öðrum lénum með beina skírskotun til Íslands, en er þar einkum átt við landshöfuðlénið .is. 

Markmið laganna er að stuðla að öruggum, hagkvæmum og skilvirkum aðgangi að íslenskum landshöfuðlénum og styrkja tengsl þeirra við Ísland með því að kveða á um örugga, gagnsæja og skilvirka umsýslu þeirra.

Með lögunum er settur sanngjarn rammi utan um starfsemi skráningarstofa, sem hafa umsjón með landshöfuðlénum með beinni skírskotun til Íslands, tryggja að starfsemin sé innan íslenskrar lögsögu og að hún samrýmist íslenskum lögum. Þá eru í lögunum m.a. lögð til úrræði fyrir stjórnvöld til að loka eða haldleggja skráð lén undir íslensku landshöfuðléni. Landshöfuðlénum er útdeilt til allra ríkja og beina skírskotun til viðkomandi ríkja.

„Miðað við mikilvægi netsins í nútímasamfélagi var ærið tilefni til að setja lagalega umgjörð um landshöfuðlén sem hafa beina skírskotun til Íslands. Við samningu laganna var einkum litið til öryggissjónarmiða og var það haft að markmiði að setja lágmarksreglur til að stuðla að auknu öryggi,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Ríkið fær forkaupsrétt í ISNIC

Í lögunum er ákvæði um forkaupsrétt ríkisins í fyrirtækinu ISNIC, sem er mikilvægur þáttur til að standa vörð um þá mikilvægu innviði sem felast í þeim stafrænu grunnvirkjum sem ISNIC heldur utan um, enda gegna þessir þættir lykilhlutverki í hinum íslenska hluta internetsins. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði laganna mun ríkissjóður eignast forkaupsrétt að öllum hlutum í félaginu Internet á Íslandi hf. (sk. ISNIC) og skulu eigendur félasins tilkynna ríkisskattstjóra og Póst- og fjarskiptastofnun um beint og óbeint eignarhald í félaginu.

Mynd/ aðsend