Þann 15. febrúar tilkynnti Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu um valið á Stofnun ársins 2023 en titlana Stofnun ársins og Fyrirmyndarstofnun hljóta þær stofnanir sem þykja skara fram úr að mati starfsfólks á sviði mannauðsmála. Ár frá ári hefur þátttaka í könnuninni aukist og aldrei hefur verið betri þátttaka í Stofnun ársins en nú. Í ár tóku nærri 17.000 þátt í könnuninni sem var framkvæmd í október og nóvember 2023.

Tilgangur með vali á Stofnun ársins er að taka eftir og verðlauna vinnustaði sem ná framúrskarandi árangri við stjórnun mannauðs. Þá nýtist könnunin stjórnendum til að vinna að umbótum í stjórnun og starfsumhverfi. Að lokum veitir könnunin aðhald til hagsbóta fyrir starfsfólk, skjólstæðinga, viðskiptavini og aðra hagsmunaaðila.

Fimmta árið í röð er Menntaskólinn á Tröllaskaga valin sem Fyrirmyndarstofnun, hafnaði í öðru sæti í sínum flokki. Er þetta tíunda árið í röð sem skólinn er í efstu þremur sætunum í Stofnun ársins. Elsa Guðrún Jónsdóttir og Sæbjörg Ágústsdóttir tóku við viðurkenningunni fyrir hönd skólans.

Val á stofnun ársins er samstarfsverkefni margra aðila; Sameykis, Kjara- og mannauðssýslu ríkisins, Mannauðs- og starfsumhverfissviðs borgarinnar og svo að sjálfsögðu stofnananna og starfsstaðanna. Niðurstöður könnunarinnar veita bæði afar mikilvægar upplýsingar um starfsumhverfi vinnustaða og samanburð við aðrar stofnanir.

Mynd/af vefsíðu MTR