Síðan við fjölskyldan tókum við Kaffi Klöru fyrir 2 árum síðan höfum við unnið hörðum höndum við að þjónusta fjölbreyttan hóp heimamanna og erlendra gesta. Við settum okkur það markmið að vera með persónulega þjónustu, skifta með okkur verkum og leyfa hverju og einu okkar að njóta krafta okkar og þekkingar eins og við erum enda er enginn okkar með reynslu né menntun í ferðaþjónustu. Einnig ákváðum við að nýta okkur sem mest þekkingu og þjónustu heimamanna því hér í byggðarlaginu er fullt af fínu fagfólki. Við leituðum til matvælaframleiðenda hér á Norðurlandi og í heimabyggð með það fyrir augum að geta tengd veitingar okkar við nærumhverfið. Markmiðið var að elda mat frá grunni, leggja rækt við að eiga persónulegt samtal við gesti okkar og fræða þá um séreinkenni svæðisins.
Á þeim 2 árum hefur ferðamannastraumurinn verið sívaxandi og ferðamannatímabilið hefur lengst frá því snemma að vori fram í október. Vaxandi hópur fjallaskíðamanna koma núna á ári hverju og margir eru farnir að koma í 2. og 3. skiftið og sumir hafa þegar tilkynnt komu sína að ári. Ólafsfjörður er líka spennandi kostur fyrir brimbrettafólk sem er sífellt að leita að nýjum sérstökum stöðum, þeir koma ekki síst á veturnar og staldra m.a. við hjá okkur á Kaffi Klöru meðan þeir bíða eftir góðum öldum.
Kvikmyndatökulið hefur komið við til að taka upp kvikmyndir og heimildamyndir um jaðaríþróttir.
Einnig er töluverður straumur af fólki sem leggur leið sína um Fjallabyggð á leið sinni til eða frá Reykjavík á öðrum tíma ársins en þessu hefðbundna ferðamannatímabili sem nýtur þess að staldra hér við og upplifa. Það er okkur afar mikilvægt að geta speglað okkur í upplifun gesta af komu sinni hér á svæðinu, fá frá þeim hugmyndir og vangaveltur um hvernig þeir sjái fyrir sér að svæðið eigi að þróast. Að sama skapi er mikilvægt að geta veitt þeim upplýsingar og tengt þá við fagfólk hér á svæðinu þegar þörf er á. Það eru einmitt séreinkenni Fjallabyggðar sem laða að ferðamenn og gerir það að verkum að þeir vilja koma aftur.
Flestir þeir ferðamenn sem við höfum rætt við fara fögrum orðum um dvöl sína hér og upplifun af svæðinu en um leið hafa margir lýst áhyggjum sínum af vaxandi fjölda ferðamanna með tilheyrandi ánýðslu á náttúruna. Þessir hópar ferðamanna hafa gjarnan ferðast víða um heim, t.d. menntaðir fjallaleiðsögumenn sem hafa verið að miðla af þekkingu sinni og reynslu, eitthvað sem vel er hægt að læra af. Þetta er einnig sá hópur sem fer með með orðspor svæðisins með sér heim, þá er mikilvægt að þeir fái jákvæða upplifun af svæðinu og samfélaginu.
Ýmislegt má þó bæta, svo sem að auka upplýsingarflæði til ferðamanna, bæta aðstöðu á tjaldsvæðinu í Ólafsfirði, gróðursetja meira, fjölga sorptunnum og gámum fyrir ferðafólk ásamt því að fjölga grænum svæðum með bekkjum og borðum. Við getum eflt og styrkt menningarsögu Ólafsfjarðar og lengt opnunartíma sundlauga svo dæmi sé tekið. Allt væri þetta til hagsbóta fyrir bæði heimamenn og ferðamenn.
Það er nefnilega þannig að ef við teljum mikilvægt að efla komu ferðamanna til Fjallabyggðar á ábyrgan hátt, bjóða uppá góða þjónustu og efla aðra atvinnustarfsemi sem tengist ferðaþjónustu þá er mikilvægt að velta því fyrir sér hvað heimamenn vilja. Það þarf nefnilega að mæta þeirra þörfum jafnt og ferðamanna og um leið er afar mikilvægt að vernda náttúru, umhverfi og auðlindir okkar til langs tíma.
Fjallabyggð er heilsueflandi sveitarfélag sem hefur allt til alls til að skapa sér sérstöðu í heilsueflandi ferðaþjónustu fyrir alla og fyrsta skref er þess vegna að móta sjálfbæra og heilsueflandi stefnu í ferðaþjónustu til framtíðar. Það mun tryggja hag allra íbúa auka lífsánægju þeirra og um leið tryggja ánægju ferðamanna ásamt því að efla heilbrigðan vöxt í greininni.
Ida Semey
frambjóðandi á I- lista fyrir Betri Fjallabyggð