Mundi – Guðmundur Helgason – sem búsettur er í Noregi var að ljúka við upptökur og frágang á nýju lagi sem verður frumflutt á FM Trölla, föstudaginn 17. júlí n.k. kl. 10. Lagið heitir Journey.
Mundi segir sjálfur:
Lagið samdi ég sennilega snemma á síðasta ári, var í nettu þunglyndiskasti og ákvað að gera úr því eitthvað krassandi, og gerði demó-upptöku.
Datt þó ekkert nógu niðurdrepandi í hug til að segja og lagði það ofan í skúffu í bili. Tók það síðan upp úr skúffunni síðasta sumar, og prófaði að máta það við tvö stutt ljóð sem kær vinkona mín hafði ort nokkrum árum áður. Lag og ljóð reyndust smellpassa saman, þannig að eftirleikurinn reyndist auðveldur. Það er að segja: þegar ég tók það aftur upp úr skúffunni í vor og fór að föndra af alvöru við það (það hafði nefnilega hafnað aftur ofan í skúffu semsagt).
Allt var tekið upp að nýju í “Bakki Studios” á Laugarbakka í Miðfirði, allt nema muldrið í mér, ásamt kassa- og rafgítar, það tók ég upp heima hjá mér í Noregi. Gítarsólóið tók ég upp í fyrra og þorði ekkert að eiga meira við það.
Þetta sóló er sérstakt að því leytinu að það er bara ein nóta, tæplega mínútulöng.
Ég var viss um að ég myndi aldrei ná sömu tilfinningu í þessa einu nótu, svo einkennilega sem það kann að hljóma.
Upptökustjóri er Sigurvald Ívar Helgason, hann leikur einnig á trommur og sömuleiðis bjó hann til sérstaka hljóðrás með drungalegum bakgrunnshljóðum sem eru undir öllu laginu, meðal annars heyrist í sellói, sem leikur í höndunum á Sigurvald, eins og hvaðeina sem hann snertir á.
Aðrir tónlistarmenn koma einnig úr Húnaþingi vestra: Haraldur Friðrik Arason spilar á bassa og keyrir lagið áfram með snilldarlegum hætti. Ólafur E. Rúnarsson leikur þunga tóna á flygil og gæðir lagið þannig extra drunga.
Í bakröddum eru síðan Aldís Olga Jóhannesdóttir og Kristín Guðmundsdóttir.
Lagið verður frumflutt á FM Trölla föstudagsmorguninn 17.júlí klukkan 10.
Klukkan 12 á hádegi verður það síðan aðgengilegt á Spotify og öllum helstu streymisveitum. Leitið bara að náunga með listamannsnafnið “Mundih” og sláið inn “Journey” til að létta leitina.
Góða skemmtun!