Neytendastofa hefur sektað þrjú fyrirtæki vegna auglýsinga fyrirtækjanna á nikótínvörum, rafrettum og áfyllingum fyrir rafrettur.

Fyrirtækin eru Samkaup, Zolo og dætur og Skýjaborgir. Samkaup og Zolo og dætur voru sektuð um 300 þúsund krónur en Skýjaborgir um 200 þúsund. Öllum fyrirtækjunum hefur verið bannað að auglýsa sig með þeim hætti sem fjallað er um í ákvörðununum.

Í tilkynningu frá Neytendastofu um ákvarðanir þeirra kemur fram að Neytendastofa hafi haft til skoðunar auglýsingar á nikótínvörum, rafrettum og áfyllingum fyrir rafrettur. Stofnunin hafi í þessari skoðun lagt sérstaka áherslu á auglýsingar á samfélagsmiðlum, vefsíðum og utan á verslunum.

Í öllum þremur ákvörðunum kemur fram að óheimilt sé að auglýsa vörurnar og það eigi við um samfélagsmiðla líka. Þá bendir Neytendastofa á að túlka beri hugtakið auglýsing rúmt og undir það falli til dæmis myndbirtingar þar sem með beinum eða óbeinum hætti eru sýndar nikótínvörur, rafrettur eða áfyllingar. Það eigi auk þess við óháð því hvort fyrirtækið hafi greitt fyrir aukna dreifingu myndanna á samfélagsmiðlum eða ekki.

Sjá nánar: HÉR

Mund/Snubie.com