Þann 23. apríl síðastliðinn fór Nefnd um varðveislu Norðurbrautar í að tæma þessa elstu vegasjoppu landsins. Öllu nýtilegu var komið í góða geymslu og rusli hent. Sjoppan hefur staðið uppi á Ásnum fyrir ofan Hvammstanga undanfarin ár en var upphaflega á Hvammstangavegamótum inn á Norðurbraut frá um 1930 og fram yfir miðja síðustu öld.
Þann 12. ágúst var sjoppan flutt niður á hafnarsvæði í aðstöðu fyrirtækisins Tveggja smiða á Hvammstanga þar sem hafin verður endurgerð sjoppunnar undir stjórn Daníels Karlssonar.


“Húsafriðunarsjóður hefur samþykkt að styrkja endurgerð Norðurbrautar og nú þarf að finna henni verðugan stað og nýtt framtíðarverkefni. Ekkert hefur en verið ákveðið um framhaldið en hugmyndin sem unnið er með er að koma húsinu fyrir á lóð norðan Verslunarminjasafnsins og jafnvel koma Bangsabát þar fyrir í tengibyggingu. Allt er þetta í vinnslu og við leyfum fólki að fylgjast með framvindu mála” segir á Facebooksíðu Guðmundar Hauks Sigurðssonar á Hvammstanga.“Nú eftir hádegið (12. ágúst 2022) brá elsta vegasjoppa landsins undir sig betri fætinum og flutti sig um set af Ásnum fyrir ofan Hvammstanga á athafnarsvæði Tveggja smiða niður við höfn. Þar verður gengið í að endurnýja og gera húsið upp á næstunni. Ingibjörn Pálmar Gunnarsson sá um flutning sem var undirbúinn af Þorvaldi Böðvarssyni, Daníel Karlssyni og Eðvaldi Magnússyni” segir enn fremur á síðu Guðmundar Hauks.

Myndir: Guðmundur Haukur Sigurðsson.