Fjöllin stóðu skínandi blá í tunglsljósinu umhverfis stóran dal. Það var hætt að snjóa. Stjörnurnar depluðu augum hver í kapp við aðra og norðurljósin liðuðust um hvollfið eins og grænir kristalsborðar. Þögnin var svo djúp að það mátti heyra lausamjöllina skríða eftir melunum með frostköldum andvaranum.
Jólakötturinn flaug á stökki í gegnum loftið og drap ekki niður fæti nema annað slagið. Lilja hékk í kjaftinum stjörf úr kulda og var hætt að geta brotist um. Henni var of kalt til að vera hrædd eða gráta. Óliver var líka orðinn dofinn af kulda þar sem hann hékk í skottinu með loppnar hendur. Hann var við það missa takið í hverju stökki. Frostið beit hann í eldrauðar kinnarnar og horinn var frosinn á efri vörinni.
Innst í dalnum blasti við hamraborg flekkótt af klaka og snjó. Lilja sá þar glitta í daufan reyk sem liðaðist til himins eins og snákur og þar neðan við flökti heitur bjarmi í einni gjótunni. Það eina sem komst að í huga hennar var að þarna væri hlýja sem hún þráði að komast í. Það hvarflaði ekki að henni að þarna væri hellir Grýlu og hennar hyskis, þar sem enga hlýju var að finna í bitrum tröllahjörtum.
Kötturinn stöðvaði í miðju stökki og hlammaðist jafnfætis til jarðar framan við skútann, svo snjórinn gusaðist í allar áttir. Óliver missti takið á skottinu og kútveltist niður hlíðina. Hann sá köttinn og Lilju fjarlægjast við hvern kollhnís og fylltist örvæntingu við hverja byltu. Nú var hann búinn að missa systur sína frá sér og gæti ekki bjargað henni frá að lenda í klóm mannætunnar.
Kötturinn fikraði sig að heljarstórri hurðinni fyrir skútanum og reyndi að gægjast inn um gluggann, en hrímið byrgði honum sýn. Hann krafsað með loppunni í hurðina og beið. Fyrir innan heyrðist rám og drynjandi rödd.
„Hver er að krafsa í dyrnar núna! Drengirnir eiga ekki að byrja að koma heim fyrr en á annan. Leiðindaskjóða! Farðu til dyra!“
Þessu fylgdi ámátlegt mögl frá Leiðindaskjóðu. „Af hverju þarf ég alltaf að gera allt?“
Óliver hafði nú stöðvast við klett, neðar í hlíðinni. Aðeins höfuðið stóð upp úr snjónum, sem hafði komist innum allar glufur á fötunum hans; upp í ermar og ofan í hálsmál. Honum var svo kalt að hann gat varla hreyft sig. Uppgjöfin lagðist yfir hann eins og ískalt teppi þar sem hann starði til himins í vonleysi. Norðurljósin hlykkjuðust dáleiðandi um himininn. Hann fann syfjuna þrengja sér inn í hugann og honum byrjaði að hitna að innan. Undarlegur friður fyllti hann og augun lyngdust aftur. Úr húminu barst fjarlægur söngur sem var svo sætur og ljúfur að sælustraumar fóru um hann þarna í brennandi frostinu. Snjóinn skóf að vitum hans og söngurinn varð hærri og hærri og umlukti loks allt.
„ Sestu hérna sonur, sestu mér hjá, meðan þungt ymur þorrinn þekjunni á. Þungt ymur Þorrinn og þrengir að með snjó…“
Hurðinni að hellinum hvar hrundið upp og í gættinni birtist ólundarleg og tötraleg stelpa. Lilju fannst hún minni en hún bjóst við af tröllabarni en hún var þó á hæð við lítið hús. Ylurinn að innan faðmaði hverja taug í Lilju og hún fann fyrir feginleik þrátt fyrir augljósa hættuna. Það kom henni á óvart hve hlýlegt var þarna inni. Kyndlar á veggjum köstuðu flöktandi birtu á hrjúfa steinveggi. Það var matarilmur í lofti og risastór pottur fyrir miðju gólfi. Undir blakti hægur eldur. Sjö önnur tröllabörn, hvert öðru rytjulega, voru þarna að bisa við eitt og annað og gutu augum forvitnislega til kattarins. Í horni sat alvöru tröllkarl í ruggustól, sem líklega var Leppalúði sjálfur, og lét sér fátt um finnast. Hann hélt á bók fyrir andlitinu svo aðeins sást í hlemmstórar hendurnar. Mest áberandi var hálf rosaleg kerling með tætingslegt hár og í mörgum lögum af pilsum og sjölum. Hún stóð frísandi við borð og barði deig svo undir tók í hellinum. Leiðindaskjóða virtist ekki sjá Lilju hangandi í kjafti kattarins og snéri sér strax inn og hrópaði. „Haldiði ekki að það sé Jólakötturinn! Mamma það er til þín!“
„Jólakötturinn?!“ gargaði Grýla. „Ég hélt að hann væri lögnu dauður. Hann hefur ekki sést síðan ég henti honum út fyrir hundrað árum eða svo, þessi ónytjungur.“ Hún kjagaði í átt til dyra og klóraði sér í loðinni vörtu á hökunni. „Hvar hefur þú haldið þig óbermið þitt?“
Kötturinn lagði Lilju á gólfið og var auðmjúkur í röddinni. „ Ég kom til að færa þér þetta óþekka barn í von um að þú fyrirgefir mér fyrir að hafa fært svo lítið til búsins og leyfir mér að koma heim aftur.“
Grýla fussaði: „Hvaða vitleysa er þetta. Mér er löngu rokin reiðin. Hér hefur margt breyst ræfillinn þinn.“ Hún hafði ekki áttað sig á gjöfinni sem kötturinn færði, en þegar hún sá loks Lilju, glennti hún upp augun, æpti uppyfir sig og fórnaði höndum. „Barn! Við alla svartálfa og svínarí!“ Hún stökk uppá stól, greip með sér sóp og bandaði honum frá sér. „Leppur, Skreppur, Langleggur, Völstakkur og Bóla! Komið þessu út! Hjálpi mér. Látið þetta ekki komast hér inn! Kattarfjandi! Hvað hefurðu gert?!“
„Leppalúða snöggbrá. Hann henti frá sér bókinni og klifraði upp í ruggustólinn, sem valt með hann aftur fyrir sig. Grýlubörnin skræktu og ultu þvert um hvert annað og gripu sópa og prik til að verjast. Völstakkur sló vendi að Lilju, sem rétt náði að hlaupa undan og inn í hellinn. Höggin frá hinum og þessum bareflum dundu í kring um hana og hún rétt náði að smeygja sér undan með að hlaupa í hlykkjum um gólfið. Skrækir og óp fylltu hellinn og rödd Lilju drukknaði í fyrirganginum.
„Nei! Eruð þið brjáluð!“ gargaði Lilja og stökk undan vendi sem skall við hæla henni. Hún náði með naumindum að velta sér undir rúmfleti innst í hellinum.
Í hlíðinni neðan við hellinn lá Óliver og svefninn var að sigra hann. Hann fann ekki fyrir líkamanum lengur og leið eins og svífandi neista inni í kollinum. Tárfull augun bjöguðu sýn hans. Söngurinn umlék allt og hann sá bjarma lifna fyrir framan sig. Yfir honum svifu lýsandi bláklæddar verur. Aldrei hafði hann séð neitt fegurra og blíðara. Góðleg bros og hlý eins og þegar mamma knúsaði hann til að segja hvað hún elskaði hann. Hann rétti faðminn móti þeim og faðmlag þeirra mætti honum. Hann sveif með þeim þyngdarlaus upp í loftið við huggandi og fagran söng. „…komdu og sestu hérna sonur, þey, þey og ró..“
Lilja var komin á bakvið rúmfót og varðist tröllabarni sem reyndi að klóra hana til sín með risastórum göngustaf. Hin börnin lágu á fjórum fótum og störðu undir rúmið. „Náðu þessu kvikindi Lápur!“ hrópaði Grýla af stólkollinum. „Kremdu það eða komdu því út eins og skot!“
Lilju var farið að hitna í hamaganginum og var meira hissa en hrædd. „Eruð þið alveg orðin brjáluð?“ Ég hélt að þið væruð ekki hrædd við börn. Hvenær hættum við að vera uppáhaldsmaturinn hennar Grýlu?“
Tröllabörnin horfðu hvert á annað. „ Hún er löngu hætt að éta börn. Þau eru ekki einusinni munnbiti fyrir hana og henni þykir þau mesti óþverri. Hún óttast mest að þau skríði upp eftir leggjunum á henni eða nagi allt í sundur hér í hellinum.“ sagði Langleggur.
„Þið látið eins og þið hafið séð mús? Ég skal fara út ef þið bara leyfið mér það. Hvenær breyttist allt svona eiginlega?“
„Það er langt síðan að börn urðu svo þæg að mamma var að svelta í hel.“ Sagði tröllastelpan Bóla.
„Við neyddumst til að fara að borða eftirlegukindur og hross sem dóu í stormum og vöndumst því.“ sagði Lápur. „Svo koma Jólasveinarnir með ýmislegt úr byggð. Þeir hafa sagt okkur allskonar sögur úr mannheimum og við höfum smátt og smátt viljað líkjast mannfólkinu til að lifa í friði.“
„Þegiðu Lápur! Gargaði Grýla. „Henni kemur ekkert við um okkar prívatlíf. Komdu þessu kvikindi út eins og skot.“
„Æ bíttu í bonnið á þér kerling.“ svaraði Lápur ruddalega.
„Ég flengi þig ræfill ef þú talar svona við móður þína!“ gelti Leppalúði úr horninu sem hann hafði oltið í. Tröllabörnin hlógu hrossahlátri.
„Hættiði!“ hrópaði Lilja. „Þið eruð nú ekki mikið lík mannfólkinu eins og þið talið hvert við annað.“
Það sló stuttri þögn á tröllabörnin. „Við erum nú að halda Jól og kerlikarálkan er að klessa piparkökur og sjóða rjúpur og allt. Það er alveg nákvæmlega eins og hjá mannfólkinu.“ sagði Bóla góð með sig.
„Þið verðið ekkert lík okkur nema að vera góð við hvort annað og talið fallega við hvert annað.“ sagði Lilja og var nú orðin huguð í hita leiksins.
„Við tölum eins og við höfum alltaf gert og lokaðu á þér þerrifuninni! Gargaði Grýla. „Komdu þér út eða þú verður kramin í fjalakettinum!“
„Ég fer út ef þið segið eitthvað fallegt við hvert annað.“ sagði Lilja til að reyna að róa þessa trylltu fjölskyldu. Hún þorði ekki að hreyfa sig fyrr en þau höfðu hamið sig.
„Og hvernig er svo sem hægt að tala eitthvað betur við hvert annað en við gerum?“ sagði Skrápur háðslega og lét eins og hann hefði aldrei heyrt aðra eins vitleysu. Systkini hans flissuðu með.
„Þið getið til dæmis prófað að segja: „Mér þykir vænt um þig.“ og meinað það.“ sagði Lilja. „Grýla gæti sagt: „Elsku Leppalúði minn.“ Það sakar ekki að prófa.“
„Nei hættu nú alveg! hrein í Grýlu.
Tröllabörnin horfðu hvert á annað og ranghvolfdu í sér augunum.
„Allt í lagi. Ef hún lofar því að fara út í staðinn, þá sakar kannski ekki að láta þetta eftir henni.“ sagði Leppur. Hann horfði vandræðalega á Leiðindaskjóðu og stundi svo hikandi: „Eh…Mér þykir vænt um þig Leiðindaskjóða mín.“
Leiðindaskjóða stirðnaði upp í fyrstu, en svo færðist mærðarlegt bros yfir andlit hennar. „Úúú, mér hlýnar allri inni í mér.“ sagði hún undrandi. „Mér líka.“ sagði Leppur og virtist ekki alveg standa á sama. „Bara að segja þetta lætur manni líða svo skringilega og þægilega.“
Hin börnin voru efins og hikandi. Eitt af öðru byrjuðu þau þó að tuldra hvert við annað: „Mér þykir vænt um þig..“ og fleira í þeim dúr.
Það lifnaði smátt og smátt yfir þeim í gleðilegri undrun og þau byrjuðu að endurtaka þetta í sífellu hvert við annað, brosandi út að eyrum. „Mér þykir vænt um þig. Ég elska þig. Ég elska þig líka…“
„Vá hvað þetta er gott! Prófaðu mamma.“ sagði Völustakkur. „Ég elska þig mamma mín.“
Grýla hrökk við eins og hún væri slegin, en svo lyftist brúnin á henni. „Umm. Þetta er ekki sem verst.“ sagði hún. „Mér þykir svo vænt um þig elsku Leppalúði minn.“ sagði hún hálf flissandi. Leppalúði stundi og augu hans gljáðu af geðshræringu. „Hvað er eiginlega að ske?“
Fjölskyldan hafði nú gleymt að eltast við að veiða Lilju og var algerlega upptekin af því að skiptast á notalegheitum. Lilja fikraði sig undan rúminu og læddist í átt að dyrunum á meðan fjölskyldan var við það að fallast í faðmlög. Hún læddist fram hjá jólakettinum sem lá fram á loppurnar við eldinn og malaði vært.
Óliver hafði svifið í gegnum kristaltært vetrarloftið í faðmi bláklæddra vera sem umluktu hann hlýjum bjarma. Fyrir töfra leið hann með þeim inn í klettinn sem hann hafði legið við. Inni í klettinum blasti við hallarsalur sem virtist miklu stærri en kletturinn sjálfur. Allt glitraði af kristöllum og silfruðum borðum í lofti og á veggjum. Glitagnir svifu um loftið. Verurnar höfðu lagt hann í mjúkt rúm og brostu friðsælar yfir honum. Söngurinn ómaði enn og var mikilfenglegri í bergmáli salarins. „Máninn hátt á himni skín, hrímfölur og grár..“
Óliver kannaðist við lagið. Verurnar dönsuð áhyggjulaust um salinn. Undurfögur stúlka með glampandi kórónu á höfði laut yfir Óliver. Hann var fullur sælu og óttinn var jafn fjarlægur og hann væri ekki til. „Hvar er ég?“ spurði hann stúlkuna.
Stúlkan brosti og strauk honum blíðlega um vangann. „Þú ert í álfheimum kæri minn. Ég er Álfadrottingin og þetta eru ljósálfarnir mínir sem passa upp á elskuna í heiminum.“
„Þeir syngja svo fallega“ sagði Óliver. „Ég hef oft heyrt þetta lag.“
„Þeir eru að æfa fyrir þrettándakvöldið. Þá komum við og dönsum í mannabyggð. Þannig höldum við burtu kvíða og ósátt svo svartálfarnir hafa ekki erindi til manna.“
„Hvernig vissir þú af mér í snjónum?“ spurði Óliver.
„Við sjáum allt í skuggsjánni okkar og pössum upp á að ekkert illt hendi börnin. Þau viðhalda elskunni í heiminum. Án þeirra mundi fólkið gleyma henni. Ef elskan fær ekki að flæða um æðar manna þá staðnar hjartað í bitra og fúla tjörn, fulla af gremju, öfund og illsku. Núna ert þú öruggur og heimurinn betri vegna þess. Reyndu nú að ná orku og svo hjálpum við þér heim til mömmu og pabba.“
Óliver fann að angist læddist inn í brjóstið. „Jólakötturinn tók Lilju systur mína. Ég get ekki farið heim án hennar. Hann ætlaði að gefa Grýlu hana að borða.“ Hann kjökraði eilítið og litlar táraperlur spruttu fram í augnkrókana.
Lilja hafði lætt sér út um hellisdyrnar. Úti við var biturt frost og myrkur. Innanvið hljómaði kærleikshjal Grýlu, Leppalúða og barnanna. Sumir höfðu jafnvel brostið í söng.
Fyrir neðan blasti snævi þakið klungur og svartir klettar sem sumir minntu á tröllsandlit í rökkrinu. Lilja þurfti að fikra sig á rassinum niður brattann þar til hún kom niður á jafnsléttu. Skafrenningur lék um leggi hennar og snjóauðnin blasti ósigrandi við. Hún klofaði í gegnum snjóinn og eftir skamvinnan feginleik yfir að hafa sloppið úr prísund Grýlu læddust áhyggjurnar að henni aftur. Hún vissi ekkert hvar hún var né hvernig hún ætti að rata heim. Hún vissi heldur ekki hvar Óliver væri. Það var engin leið að hún færi heim án hans. Henni féllust hendur og hún hlammaði sér niður kjökrandi í uppgjöf. Endalaus stjörnuhimininn yfir henni gerði einmanaleikann enn dýpri.
Henni fannst þögnin vera að gleypa sig þegar hún heyrði daufa rödd hvísla. „Lilja.“
Hún stóð upp og leit í kringum sig. Rödd Ólivers var auðþekkjanleg, en hún gat ekki komið auga á hann, hvað sem hún skimaði. Hún hugsaði með sér að þetta væri bara ímyndun.
„Hérna Lilja.“ sagði röddin aftur, ögn hærri. „Fyrir ofan þig.“
Hún leit upp og trúði varla sínum eigin augum. Þarna sveif Óliver í lausu lofti og hélt í höndina á veru sem líktist engli.
„Óliver! Af hverju ertu þarna uppi?“
Óliver rétti henni höndina. „Komdu bara með.“ sagði hann. „Álfkonan fer með okkur heim.“
Lilja hikaði eilítið en tók svo í hönd bróður síns. Í sömu mund varð hún þyngdarlaus og sveif til himins með Óliver og álfkonunni. Í dalnum sáu þau ljós á sveitabæjum sem húktu í fannbreiðunni. Golan lék um hár þeirra í djúpri kyrrðinni og loks sáu þau litla þorpið þeirra blasa við með marglitum Jólaljósum. Álfkonan setti þau niður í götunni þeirra og faðmaði þau svo blíðlega.
„Farið nú að sofa. Á morgun rætast óskir ykkar og þið hafði gleymt öllum ævintýrum. Reynslan mun þó búa í hjartanu. Við heilsumst svo á þrettándabrennunni.„
Með þetta leystist álfkonan upp í glitrandi agnir og systkinin stóðu ein í kyrrlátri götunni.
Óliver vaknaði við koss á ennið og mjúka stroku á vangann. Það var mamma. Hún hafði fært þeim kakó með rjóma og brúna lagköku á diski sem hún setti á náttborðið. Lilja var vöknuð og stóð við gluggann. Óliver flýtti sér þangað til að skoða í skóinn sinn. Í báðum skóm var röndóttur brjóstsykursstafur. Í Lilju skó var líka lítil prinsessubrúða eða álfkona með silfraða kórónu. Í skó Ólivers var lítil eftirmynd af Ketkrók með krókstafinn og hangiketslærið í höndum. Þau settust á rúmin með gjafirnar og glitrandi agnir hrundu af brúðu Lilju.
„Dreymdi ykkur vel í nótt?“ spurði mamma.
Systkinin litu hvort á annað. „Mig dreymdi skrítinn draum.“ sagði Lilja.“ Ég man hann samt ekki lengur.“
Óliver ætlaði að taka undir þetta en þagði svo. Hann hafði líka dreymt skrýtinn draum sem hann mundi ekki.
„Jæja.“ sagði mamma. „Hann hefur þá verið góður, því góðir draumar gleymast gjarnan.“ Hún gekk til dyra en hnerraði skyndilega hátt og snjallt. „Jesús minn góður!“ sagði hún forviða og hnerraði aftur. „Hvað er þetta með mig? Það er eins og það hafi sloppið köttur inn í húsið.“
Börnin veittu þessu enga athygli og voru þegar upptekinn við að narta í Jólakökuna og sötra kakóið sitt.
Ef þú misstir af fyrsta hluta má finna hann hér.
og annar hluti hér.