Nutella semifreddo (fyrir 10 manns)

  • 2 marangebottnar (keyptir eða heimagerðir, uppskrift fyrir neðan)
  • 4 egg
  • 2 msk sykur
  • 5 dl rjómi
  • 1 dós Nutella (um 400 g)

Skiljið eggjahvítur og -gulur og setjið í sitthvora skálina. Setjið 1 msk af sykri í hvora skál. Stífþeytið eggjahvíturnar og þeytið eggjarauðurnar þar til þær verða léttar og ljósar.  Þeytið rjómann í þriðju skálinni.

Setjið annan marangebotninn í botn á smelluformi. Brjótið hinn botninn og leggið til hliðar.

Hærið eggjahvítum, eggjarauðum og rjóma varlega saman og hrærið síðan mulda marangebotninum saman við. Látið Nutella renna úr skeið yfir og blandið því þannig í til að það myndi rendur í deiginu (hitið Nutelladósina aðeins í örbylgjuofninum áður til að það sé betra að eiga við það).  Setjið deigið yfir marangebotninn í forminu, ef það er of hátt þá er hægt að útbúa kannt með álpappír til að hækka formið eða hreinlega leggja hringinn (kantinn) af öðru formi ofan á. Gott er að set smá af Nutella yfir kökuna sem skraut áður en hún fer í frystinn.

Frystið tertuna í að minnsta kosti 4 klukkustundir áður en hún er borin fram. Berið hana fram með ferskum jarðaberjum.

Marangebotnar

  • 4 eggjahvítur
  • 3 dl sykur

Stífþeytt saman, sett í tvö form og bakað við 110° í 2 klst.

Uppskrift: Ljúfmeti og lekkerheit