Það er ekki haldið upp á sjómannadaginn hér úti í Svíþjóð, en í tilefni dagsins er það vel þess virði að minnast á nokkra aldraða sænska síldveiðisjómenn, sem kölluðu Siglufjörð fyrir sína heimahöfn, þegar þeir voru í sínum þriggja mánaða löngum reknetatúrum við Íslandsstrendur á síðustu öld. Þetta eru alvöru sjómenn sem muna tímana tvenna.

Á forsíðumyndinni hér fyrir ofan má sjá ljósmynd af Jarl Arne Gustavsson í blaðagrein um heimkomu sænskra síldveiðimanna frá Íslandsmiðum, en hann hélt uppá 16 ára afmæli sitt úti á Grímseyjarsundi sumarið 1958. Titillinn á blaðagreininni hljómar nokkurn veiginn svona á Íslensku: “Íslands síldveiðimennirnir frá Tjörn eru komnir heim með góðan afla og flott úfin sjómannaskegg.”

Í blaðagreininni kemur einnig fram að Jarl Arne var háseti á þriggja mastra frakskútinni Regina sem var yfir sumarið breytt í síldveiði reknetabát með 10 manna áhöfn. Faðir hans Gustav Edvardsson var þá skipstjóri. Þeir komu í land í Skärhamn eftir þriggja mánaða útilegu við norðurströnd Íslands með 1000 tunnur af síld. Heildarafla verðmætið var þá 1958, um 95.000 sænskar krónur.

Sjá meira hér um Regina LL 549 og aðrar sögufrægu skútu sem voru á snurpunóta og reknetaveiðum við Ísland:

HEIMSFRÆGAR SKÚTUR OG MYNDAALBÚM SÆNSKRA SÍLDVEIÐIMANNA. 50 MYNDIR

Greinarhöfundur sem er ritari félagsins „Bohusläns Islandsfiskares ekonomiska förening“ sem er gamalt samvinnufélag sem var stofnað 1933, fyrir fraktskipa eigendur o.fl. sem stunduðu snurpunóta og einna helst reknetaveiðar við norðurströnd Íslands í áratugi.
Stjórn félagsins í dag situr á dágóðum sjóði sem skapaðist þegar eignir félagsins í Lysekil voru seldar nokkru eftir að stóra feita „Íslandssillen“ hvarf i lok sjöunda áratug síðustu aldar.  Stjórnin styrkir árlega ýmsa aðila sem viðhalda þessari merkilegu sjómannasögu um síldveiðar Svía við Ísland.

Þegar ég kem á fundarstaðinn, sem er lítil síldarsögufræg eyja, sem heitir Klädersholmen, þá verð ég Gauta-stórborgarbúinn strax var við að það færist meðfædd sjávarþorpa rólegheit yfir sál og líkama. Hér sér maður báta og bryggjur og síldarsagan og tengingin við Siglufjörð er hér út um allt.

Mér líður eins og ég sé kominn heim á Sigló, á bryggjurnar, í síldina og í söguna.

Hér voru í fyrri tíð kringum 27 lítil síldarvinnslu fjölskyldufyrirtæki sem hver og eitt hafði sína eigin uppskrift um hvernig maður gerði bestu innlögðu síldina…. og best af öllu var að hún kæmi í tunnum frá Siglufirði, eða að síldin væri söltuð um borð í sænskum reknetaveiði skútum á Grímseyjarsundi.

Allt sem maður sér hér, tengist sjómennsku og síld. Hér á þessari litu eyju, standa húsin þétt á klöppinni, án þess að það sjáist í grænt gras, við götur sem heita t.d. “Norðanvindavegur” og byggðasafnið heitir “Sillebua” og er safnið staðsett í kaupfélaginu sem bæjarbúar opna og afgreiða sig sjálfir þegar þörf er á. Sjá meira hér:

Ferðasaga í máli og myndum: Síldarsögunni bjargað

Jarl Arne er alvöru sjómaður og garðurinn hans er BRYGGJA!

Á fundinn eru mættir þrír gamlir “Islandsfiskare” og tvær eiginkonur, öll um og yfir áttrætt. Fædd inn í sjómannslífið, bæði sem síldveiðimenn, fraktskipasjómenn og dætur sjómanna, nú giftar sjómönnum. Allir þrír urðu skipstjórar eins og feður þeirra, langt líf á sjó og mikil fjarvera frá konum og börnum. En þetta eru alvöru sjómenn sem hafa svo sannarlega gift sig rétt, konum sem þekkja skilmála sjómannslífsins.
Þær eru klettarnir í landi sem halda öllu gangandi, hvernig svo sem viðrar í lífinu eða á sjónum. Það sést á öllu látbragði skipstjóranna að þeir elska sínar eiginkonur og hlíða þeim í einu og öllu. Því í landi stjórna þeir akkúrat engu. Um þetta atriði, virðist gilda ástúðlegt þegjandi samkomulag.

Ástæðan fyrir því að við erum stödd hér í húsi sem var ein af þessum áðurnefndum gömlu 27 fjölskyldu síldarverksmiðjum er sú að Jarl Arne og frú keyptu þetta hús sem var í mikilli niðurníðslu árið 1967 og endurgerðu sem sumarbústað með eigin bryggju, fyrir sig og sína.
Nýlega ákváðu þau hjónin að flytja alfarið hingað og selja húsið í Skärhamn. Jarn Arne Gustavsson er enn í dag tveggja metra heljarmenni og hann er slæmur í bakinu og á erfitt með að fara mikið á milli hæða í húsum og sitja lengi í bíl.

Hann vill enda sína ævidaga við hafið, sitjandi út á sinni eigin bryggju, sem er passandi garður fyrir aldraða sjómenn.

Húsið hans Jarl Arne í Klädersholmen og bryggjugarðurinn hans. ATH. Lítil platsskúta stendurnvið hliðina á húsinu. Annars eru akkúrat þessir sjómenn ekkert sérstaklega hrifnir af plastbátum.

Sem dæmi um hvað Jarl Arne þykir vænt um bryggjugarðinn sinn, er að þegar formaðurinn Alf Tore Gustafsson, með F í eftirnafninu sínu, spyr hvort hann og Ulla eiginkona hans mættu kannski leggja litlu skemmtiskútinni sinni hér við húsið.
Þá svarar Jarl Arne: ” Já kannski smástund, en annars vill ég hafa mitt útsýni yfir hafið og höfnina fyrir mig sjálfan.”

Sjómannaheimili og sjóminjaheimili samtímis!

Þegar maður stígur inn í þetta sjávarhús, þá er það ekki ólíkt því að koma á alvöru Sjóminjasafn, hér eru myndir og sögur úr löngu sjómannslífi Jarl Arne og fjölskyldu upp um alla veggi. Hér er heldur ekki töluð nein vitleysa, sagan er sögð eins og hún er. Ó nei, enginn af þessum þremur sjómönnum sem ég hitti hérna eru fæddir með silfurskeið í munninum. Nei, þeir hafa svo sannarlega unnið sjálfir fyrir sínu og tekið yfir mikla ábyrgð, störf, báta og hús fyrri kynslóða.

Það verður strax augljóst að þessi svokallaði stjórnarfundur er ekkert að fara að byrja á réttum tíma, þau hafa öll svo mikið að tala um, vitandi að allir nærstaddir eru sprottin upp úr svipaðri sjóarasögu og dugnaði og stórum fórnum. Það var líka skemmtilegt að heyra enn og aftur þakklætisvottinn frá þeim um að hafa fengið alvöru tæknivæddan síldarsögunörd og Siglfirðing sem ritara. Þeir eru ekki mikið fyrir nettækni og stafræna ritvinnslu. Sumir eru ekki með netfang, en samt gengur þetta stjórnarsamstarf mjög svo vel og allir eru sammála um hversu mikilvægt það er að varðveita þessa merkilegu síldveiðisögu og það sést líka vel á veggjunum hér í þessu húsi. Þarna mætast gamlar stórar fraktskútur og stór og lítil stál fraktskip. Allt tengt sögu Jarl Arne og heimahöfninni Skärhamn.
Eins og sést á myndunum hér undir er erfitt að taka myndir af myndum sem eru í glerrömmum, glampi frá gluggum og gluggatjöldum sem speglast í glerinu eins og sést vel á myndinni þar sem höfnin í Skärhamn er ísilögð veturinn 1962.

Hnallþóru smurbrauðsterta, Búddapest terta í eftirrétt og hrikalega sterkt sjóarakaffi

Fyrir fund var sest til borðs og fram var borin sú stærsta smurbrauðsterta sem ég hef séð, hringlótt með rækjum og svo meiri rækjum, smá af reyktum lax og humarhjalar og ofan á tertunni var rækjufjall með minnst 1 kg. af rækjum. Þetta hefði dugað vel ofan í hálfa íslenska fermingarveislu.
Ég var svo agndofa yfir stærðinni og magninu af rækjum á þessari smurbrauðstertu að ég gleymdi því miður að taka mynd af þessu herlegheitum.

Við skoluðum þessu niður með léttum pilsner og svo strax á eftir komu tvær lengjur af Búddapest rjómakökum og rótsterkt sjóarakaffi.

Hugur minn rann inn í gamla Halldór Laxnessögu og sagði ég sænskum vinum mínum í grófum dráttum þessa sögu um hnallþóru tertur (minnst 13 ólíkar tegundir) sem aumingja umboðsmaður biskups Íslands neyddist til að éta í öll mál í heila viku.
Einhvers staðar á Snæfellsnesi, þegar hann var að bíða þess að ná tali af presti sem nennti ekki að vera prestur og var víst mest á sjó eða uppi á fjöllum. Eftir viku og mikla magaverki, þorði loksins umboðsmaðurinn kurteisi að spyrja vinnukonu prestsetursins hvort að hann gæti nú ekki bara fengið soðna ýsu með kartöflum og smérklípu… þá brást húsfreyjan illa við og svaraði:

Í þessu húsi er ekki borin almúgamatur í fínt fólk.

Það var mikið spjallað, hlegið og gantast undir borðhaldinu. Þetta var eiginlega miklu mikilvægara en málefnin á komandi stjórnarfundi.

Ég gæti allt eins verið á spjalli við sjómenn heima á Sigló, sjómannalífið er sér líkt hvar svo sem maður er staddur í heiminum.

Mér verður starsýnt á hendurnar á þessu körlum, risastórar alvöru sjóara lúkur… En hendurnar og fingurnir á Per Arne Elonsson skáru sig svolítið úr. Tjara, málning og gott ef ég sá ekki gamla tréflís líka. Hmm… Já alveg rétt, Per Arne er mikið fyrir að gera við gamla trébáta, helst eikarbáta, litlar jullur, sem og alvöru fiskibáta. Ég get ekki stillt mig og spyr bara beint út í loftið… (það er reyndar svolítið dónalegt og hálfviðkvæmt að spyrja sjómenn um svona hluti)

Per Arne, hvað áttu marga báta núna ?

Akkúrat núna á ég bara 5 stykki.

Hinum tveimur sjóurunum svelgdist á kaffinu og hálf skömmuðust sín fyrir að eiga bara litlar plast skemmti skútur. En Per Arne er ekki með netfang, en hefur nýlega uppgötvað Facebook og deilir oft myndum af bátum og viðhaldsvinnu. Hann dregur fram snjallsímann sinn og sýnir okkur myndir af öllum bátunum sínum. Maður verður að muna að alvöru eikarbátadekk eru lakkeruð með minnst 12 umferðum.
Punktur basta, allt annað er bara fúsk.. Ég þarf að koma í heimsókn til þín Per Arne og taka myndir og sýna lesendum trölla þessa fallegu trébáta.

Það ringir yfir mig ritarann, allskyns sögur sem verða ekki skráðar í neina fundargerðabók. Svona… Já manstu þegar við fórum í land á Jan Majen síldarleysissumarið 19 hundruð og súrkál? Svo komu líka góðar og slæmar sögur um veiði á bæði síld og löngu við strendur Settlandseyja.

Tjörn og Orust mállýska

Þau töluðu öll venjulega sænsku í byrjun, líklega mín vegna, en svo gleymdu þau sér og skiptu yfir í Tjörn og Orust mállýsku. Þetta er eiginlega alveg eigið tungumál sem bara eldri kynslóðir kunna og tala. Þau segja ekki Skärhamn, bærinn heitir hreinlega SKER-Hamn eins og við segjum á góðri íslenku. Mitt sænsk/íslenska eyra heyrir ekki mun á þessum tveimur mállýskum, en ég nýt þess að heyra öll þessi sérstöku orð. Eins og t.d. booden og boa í staðin fyrir båten og boden. Mér verður á í messunni þegar ég spyr eins og asni.

En Alf Tore, þú ert ekki alveg jafn harður í þessu Tjörn tungumáli eins og hinir, en þú ert nú búinn að eiga heima svo lengi í Gautaborg rétt eins og ég.

Alf Tore horfir skipstjóra strangur á mig og segir sallarólegur: Ég er ekki frá Tjörn, ég er frá Edhultshall á Orust og það er önnur eyja og þú ættir nú að vitað það, þú hefur nú bara komið þrisvar í heimsókn til mín í ættaróðalið í Edhultshall.
Já, en þessar tvær eyjur eru fyrir mér sama eyjan, tók varla eftir brúnni sem tengir þær saman. Segi ég, mér til afsökunar.

Það var eins og ég hefði sagt að þeir væru allir þrír frá Fjallabyggð og gleymt að einn af þeim var frá Ólafsfirði og þar er ekki talað sama tungumál og á Sigló. Úps! Ég reyndi að snúa mig út úr þessum mistökum og mundi loks eftir að spyrja manninn sem ég skrifaði heila greinarseríu um hvort að hann væri búinn að finna þriðja málverkið eftir Siglfirðinginn “Hebba málara” sem faðir hans og föðurbróðir fengu að gjöf frá góðum Siglfirskum vinum rétt eftir seinni heimsstyrjöldina.

Sjá meira hér um Hebba málara og hans listaverk í Edhultshall:

Hebbi málari og norræn síldarsögu vinátta. 1 hluti.

Nei, því miður, svarar Alf Tore með sorgarsvip. Frændi minn sem á það málverk núna er alltaf út á sjó, hann er vélstjóri á risastórum olíudalli og er oft úti í sex mánuði og stundum lengur. Já, einmitt, sjómennskan er ekkert grín…

En ekki getum við gleymt sjómannakonunum sem standa vaktina heima og ég spyr hvort að þær hefðu ekki haft miklar áhyggjur af eiginmönnum þegar þeir voru í þessum þriggja mánaða síldveiðitúrum við Íslandsstrendur.

Tja… eiginlega ekki, því við fengum svo sem engar fréttir af þeim. Kannski bara eitt stutt bréf eða póstkort með mynd af skipum og fjöllum í sumarblíðu á Siglufirði. Manni dauðbrá ef að útgerðin hringdi, því þá var gefið að einhver hefði slasað sig, kannski klemmst illa þegar fullar síldartunnur runnu til og frá á dekkinu og brutu bæði handleggi og fætur.

Engar fréttir eru eiginlega góðar fréttir.

Karlarnir bæta svo við…. auðvitað vildum við ekkert vera að segja frá öllu, það var stórhættuleg vinna að salta síld í tunnur út á ballarhafi. Saltsárin á höndunum voru kannski verst og… og svo ef maður vildi hringja heim, sem var rándýrt. En svo þurfti maður þess utan að panta sér tíma á Landsímastöðinni á Sigló. Bölvað vesen bara. Auðveldara að skrifa bara krúttlegt og stutt á póstkort.
Þetta er náttúrulega allt annað í dag, nú geta allir sjómenn ringt í land þegar þeir vilja.

Svo byrjuðum við stjórnarfundinn og eitt af fyrstu málefnum var kveðja frá gjaldkeranum sem ekki gat komið á þennan fund um að lítill styrkur til Siglufjarða listaverksins um “Sillstúlkur” hefði lent sem greiðsla á röngu efnahagsári, út af vandræðum með millifærslu á milli landa.
Formaðurinn Alf Tore sagði svo að við hefum átt að senda hærri upphæð, þrátt fyrir að verkefnið væri aðeins út úr þeim ramma sem við venjulega styrkjum. En þetta er alveg ótrúlega flott listaverk og vert að minnast þess að sumir hefðu nú dansað einn eða tvo bryggjuvalsa við íslenskar síldarstúlkur á sínum tíma. Þar fyrir utan var okkar saga líka sögð þarna á sama stað við Síldarminjasafnið sumarið 2018 á Samnorrænni strandmenningarhátíð, bætti hann við að lokum.

Sjá meira hér:

Á leið til Íslands

Síðan vorum við sammála um að setja um 3 og 1/2 milljón íslenskar í styrki handa 4 félögum sem varðveita stóra skútur sem sýningar- og fræðsluskútur. Mér persónulega þótti vænt um að sjá að sykursjúk Íslensk börn og fjölskyldur þeirra kæmu í heimsókn í sumar og fengu að læra að setja upp segl og að sigla alvöru seglskipi.

Að lokum…

…í tilefni Sjómannadagsins er vert að minna á þessa sorglegu og hjartnæmu sjóslysasögu frá fyrri heimsstyrjöldinni, en hún birtist því miður of seint hér á trölli.is í fyrrasumar, skömmu eftir að sjómanna hátíðinni var lokið, vegna vandræða með birtingarleyfi frá Sjóminjasafni Gautaborgar. En þetta er virkilega eftirminnileg sjóslysasaga.

Neyðarkall og ástarkveðja í flöskuskeyti. Sönn sjóslysasaga!

Höfundur og myndasmiður:
Jón Ólafur Björgvinsson

Aðrar sögulegar greinar um síldveiði sem og ljósmyndasyrpur eftir sama greinarhöfund finnur þú á bæði siglo.is. og trolli.is.
Sjá einnig lista hér undir:

HJÄLP! SÍLDIN RÆÐST Á OKKUR.

SÍLDARSAGA FRÁ 1943: SILFUR HAFSINS Í KLONEDYKE NORÐURSINS

MINNINGAR UM SÍLDVEIÐAR VIÐ ÍSLAND 1946-48.

SAGAN UM SVANINN! SÍLDVEIÐAR, LANDLEGA OG SLAGSMÁL O.FL. Á SIGLÓ 1935

SÍLDARSAGA: UMSKIPUNARTÚR VIÐ ÍSLAND 1946

MYNDASYRPA: SIGLUFJÖRÐUR UM 1960

DRAUMAR Í SÍLDARDÓSUM

SKANDINAVÍSK LANDLEGA Í MÁLI OG MYNDUM

Á LEIÐ TIL ÍSLANDS

SÍLDIN GERIR LÍFIÐ EITTHVAÐ SVO SPENNANDI! 1 HLU

SÍLDIN GERIR LÍFIÐ EITTHVAÐ SVO SPENNANDI 2 HLUTI

FERÐASAGA: SIGLFIRSK SÍLDARSAGA Í SMÖGEN OG KUNGSHAMN. 25 MYNDIR

DE SEGLADE FRÅN TJÖRN…….TIL SIGLÓ. (50 MYNDIR)

PÅ VÄG MOT ISLAND…. Á HEIMASLÓÐUM SÆNSKRA SÍLDVEIÐIMANNA! 

SIGLFIRÐINGAR, SÍLD OG SAKAMÁLASÖGUR Í FJÄLLBACKA

STÓRKOSTLEG KVIKMYND FRÁ 1954 FUNDIN

SILLSTULKOR I SIGLUFJORD / SÆNSK MYNDASYRPA FRÁ 1945

SIGLUFJORDUR ER NAFLI ALHEIMSINS OG SILLENS CLONDYKE (MYNDIR OG MYNDBAND)