Trölli.is hefur alloft á undanförnum árum birt fréttir og myndir af ófremdarástandinu á Siglufjarðarvegi. Það fer ekki fram hjá neinum sem keyra veginn að hann er oft á tíðum stórhættulegur. Meðfylgjandi eru myndir sem Halldór Gunnar Hálfdansson bóndi á Molastöðum tók í vikunni á ferð sinni um veginn.

Strákagöng. Mynd/Halldór Gunnar Hálfdansson

Hér að neðan má sjá ályktun bæjarstjórnar Fjallabyggðar frá því í nóvember síðastliðnum vegna samgöngumála.

Bæjarstjórn Fjallabyggðar samþykkti á 221. fundi sínum 9. nóvember sl. framlagða ályktun um samgöngumál í Fjallabyggð:

Betri samgöngur varða hagsmuni allra landsmanna. Bættar samgöngur bæta mannlíf, stuðla að öryggi vegfaranda og íbúa, auka samvinnu á milli sveitarfélaga ásamt því að styrkja og stækka atvinnusvæði. Fjallabyggðargöng og samgöngubætur eru brýnasta hagsmunamál íbúa Fjallabyggðar og mið-Norðurlands. 

Bæjarstjórn Fjallabyggðar beinir því til ráðherra samgöngumála og Vegagerðarinnar að tryggja nauðsynlega fjármuni til samgöngumála Fjallabyggðar. 

Vilja ljúka rannsóknum vegna jarðgangna á milli Fljóta og Siglufjarðar

Vegagerðin hefur nú þegar gefið út skýrslu um jarðgöng á milli Siglufjarðar og Fljóta í Skagafirði.  Núverandi leið liggur um snjóflóðahættusvæði ásamt því að vera á jarðsigssvæði. Þessi staða hefur leitt til tíðra lokana og mun leiða til tíðari lokana í framtíðinni. Leiðin uppfyllir því alls ekki kröfur nútímalegs samfélags þegar kemur að samgöngum. Nú þegar hefur fjármunum verið veitt í rannsóknir og frumhönnun vegna Fljótaganga af Samgönguáætlun og því brýnt að tryggja nauðsynlegt frekara fjármagn í endanlega hönnun þessara ganga þannig að hægt verði að bjóða þau út eins fljótt og hægt er. Ástand vegarins á milli Siglufjarðar og Fljóta í Skagafirði er óviðunandi fyrir íbúa svæðisins, aðra vegfarendur og atvinnulífið á svæðinu. 

Vegagerðin varar við holóttum Siglufjarðarvegi

Bæjarstjórn Fjallabyggðar beinir því einnig til ráðherra samgöngumála og Vegagerðarinnar að setja nauðsynlega fjármuni til rannsókna þannig að hægt sé að ákveða legu nýrra jarðganga á milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur. Múlagöng eru barn síns tíma og vegurinn um Ólafsfjarðarmúla liggur á þekktu snjóflóðahættusvæði. Mikilvægt er að fara í þessa forvinnu til þess að tryggja að þessi göng komist á samgönguáætlun við næstu endurskoðun hennar. Þetta er gríðarlega mikilvægt öryggismál fyrir íbúa svæðisins, vegfarendur og atvinnulíf. Miðstöð opinberrar þjónustu á Norðurlandi er á Akureyri og er íbúum svæðisins ætlað að sækja alla meiriháttar heilbrigðisþjónustu þangað. Bæjarstjórn telur ný jarðgöng á milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur einu raunhæfu leiðina til að tryggja viðunandi samgöngur á milli Fjallabyggðar og Eyjafjarðarsvæðisins.  

Hrikalegar myndir af Siglufjarðarvegi

Bæjarstjórn Fjallabyggðar óskar eftir liðsinni þingmanna Norðlendinga allra, sveitarstjórna á Norðurlandi, landshlutasamtaka, atvinnulífsins á svæðinu og annarra hagsmunaaðila á Norðurlandi í þessu mikilvægasta hagsmunamáli svæðisins. Bæjarstjórn lýsir sig fylgjandi hugmyndum stjórnvalda um gjaldtöku til að flýta samgöngubótum og lýsir sig tilbúna til viðræðna um þessar framkvæmdir. 

Vilja samgöngubætur í Fjallabyggð

Myndir/Halldór Gunnar Hálfdansson