Opnu húsi Vildarvina Siglufjarðar og Siglfirðingafélagsins sem vera átti í Síldarminjasafninu í dag kl. 17:00 hefur verið frestað vegna slæmrar veðurspár.
Áformað er að viðburðurinn fari fram 31. júlí kl. 17:00 og þá verður gjöf Vildarvina og Siglfirðingafélagsins afhent.
Gjöf Vildarvina og Siglfirðingafélagsins samanstendur af 5 sjónvarpsþáttum um sögu Siglufjarðar og kvikmyndum um lífið á Sigló og er kjarninn í gjöfinni myndir félaga úr kvikmyndaklúbbnum Linsunni sem starfaði á Siglufirði milli 1963 og 1970.
Í kjölfar afmælisins hefur bæst við myndefni sem er afrit af kvikmyndum sem Helgi Sveinsson tók og má þar m.a sjá stórmerkar myndir tengdar seiðatöku og ræktun í Fljótaá auk skíðamynda frá Noregi og Svíþjóð.
Þá hefur einnig verið bætt við safnið öllum þáttum N4 um gangnagerð á Tröllaskaga sem inniheldur mörg skemmtileg viðtöl við íbúa Fjallabyggðar.
Vildarvinir Siglufjarðar hafa ákveðið, með samþykki RÚV, að gefa Skíðafélagi Siglufjarðar – Skíðaborg allt að 200 minnislykla með afritum af þáttunum sem þeir munu svo nýta sér til fjáröflunar til að fjármagna lokaáfangann af barnalyftu í Siglufjarðarskarð.