Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, flutti opnunarávarp á bókmenntaviðburði með Elizu Reid, forsetafrú Íslands, og Jenni Haukio, forsetafrú Finnlands, sem haldinn var í almenningsbókasafninu í New York. Báðar hafa þær gefið út bækur í sínum heimalöndum við góðan orðstír.

„Þetta var frábær kynning á íslenskum bókmenntum, bæði til forna og nútíma. Það er mikill áhugi í Bandaríkjunum á íslenskri menningu enda var húsfyllir á þessari kynningu. Eliza Reid náði alveg salnum með sér og það var gaman að sjá hana gera íslenskri bókmenntasögu góð skil,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

Metsöluhöfundurinn Neil Gaiman stýrði umræðum þeirra en hann sækir innblástur sinn meðal annars í norræna goðafræði og hefur skrifað bækur á borð við Norse Mythology og American Gods, en Gaiman lýsti því í inngangsorðum sínum hvernig hugmyndin að American Gods hefði kviknað við komu hans til Íslands á löngum sumardegi. Þess má geta að Gaiman er væntanlegur til landsins í nóvember í tengslum við Iceland Noir 2023 bókmenntahátíðina.

Í ávarpi sínu sagði Lilja frá merkum bókmenntaarfi Íslands allt frá 13. öld og ríkri bókmenntahefð landsmanna. Hún ræddi um samhengi lestrarhefðarinnar og verndar tungumálsins sem og tenginguna við fornsögurnar og hvernig þær lifa með þjóðinni.

Mynd/aðsend