Þann, 15. desember, var fjárhagsáætlun Fjallabyggðar vegna komandi árs samþykkt í sveitarstjórn. Hluti þeirrar áætlunar er svokölluð fjárfestingaráætlun sem innifelur fjárfestingar næsta árs. Í fjárhagsáætlun er hins vegar allt smærra viðhald húsa, gatnakerfis og annarra eigna sveitarfélagsins. Fjárhagsáætlun 2021 gerir ráð fyrir að tæpar 100 milljónir króna verði settar í viðhald eigna sveitarfélagsins.

Hvað varðar eignfærðar framkvæmdir þá gerir samþykkt áætlun ráð fyrir því að 154 milljónum króna verði varið til fjárfestingar á komandi ári. Áætluð fjárfesting komandi árs stýrist af því hve mikil óvissa er í efnahagsumhverfi landsins, lækkuðum tekjum og auknum launakostnaði. Mat undirritaðs sem og bæjarstjórnar er að nú sé rétt að fara varlega og frekar að bætt verði í ef vel gengur. Með öðrum orðum þá einkennist framlögð fjárhagsáætlun og fjárfestingaráætlun af varkárni og ábyrgð.

Við val á framkvæmdum næsta árs er lögð áhersla á umhverfi og ásýnd sveitarfélagsins. Áfram verður haldið með umhverfisátak yfirstandandi árs með 10 mkr. sérstöku framlagi í ýmis smærri umhverfisverkefni, 10 mkr. fara í gangstíga og haldið verður áfram að yfirleggja götur. Klárað verður að skipta út  götulýsingu í Ólafsfirði og þriðji af fjórum áföngum sama verkefnis á Siglufirði unnin. Einnig verður ráðist í umfangsmikla endurnýjun gangstétta, um er að ræða verkefni upp á 80 milljónir sem mun dreifast á tvö ár. Þá gerir áætlunin ráð fyrir því að bundið slitlag verði lagt á veginn upp að golfskálanum að Skeggjabrekku og að tjaldsvæðahús í Ólafsfirði verði endurnýjað og komið upp eldunar og þvottaaðstöðu.

Búningsaðstaða íþróttamiðstöðvarinnar á Ólafsfirði verður endurnýjuð og sett ný búningsaðstaða fyrir hreyfihamlaða í íþróttamiðstöðinni á Siglufirði, sú framkvæmd mun nýtast þegar farið verður í viðbyggingu. Gert er ráð fyrir að endurnýja innréttingar og gólfefni í a.m.k. tveimur íbúðum í Skálarhlíð, sem og að bæta í viðhald annarra eigna.

Áfram verður unnið að úrbótum á fráveitukerfum, lögð verður útrás frá Ósnum í Ólafsfirði, holræsi endurnýjað í Vetrarbraut á Siglufirði sem og frá Kirkjuvegi í Ólafsfirði að dælubrunni við Ísfell.

Unnið verður að því að fá Vegagerðina að framkvæmdum í miðbæ Siglufjarðar, hönnun byggð á samþykktu deiliskipulagi verður kynnt íbúum og öðrum hagaðilum snemma á komandi ári. Unnið verður deiliskipulag af þjóðveginum í gegnum þéttbýli í samstarfi við Vegagerðina með áherslu á umferðaröryggi, úr því samstarfi munu koma verkefni sem bæði bæta öryggi og umhverfi. Að síðustu má nefna að fram undan er skipulagsvinna á hafnarsvæðum beggja byggðarkjarna, í þeirri vinnu verður lögð áhersla á bætt umhverfi og framtíðarsýn í atvinnumálum.

Hér má nálgast fjárfestingaráætlun 2021.

Elías Pétursson

bæjarstjóri