Það var árið 1986 sem ég fluttist frá mínum ágæta heimabæ og suður yfir heiðar í leiðangur sem enn stendur. Ég skrifaði mig þannig út úr því stykki þar sem fjölmargar mislitríkar persónur og leikendur í hinu endalausa leikriti á sigfirsku sviði poppsins héldu áfram að sinna sínu veraldlega amstri, en gáfu sér auðvitað einnig tíma til að taka sér stöðu utan líðandi stundar einhvers staðar milli himinsins og skýjanna með gítar framan á maganum, sitjandi við settið eða með fingur á svörtum og hvítum nótum hljómborðsins. Gleyma sér um stund og útvíkka þannig sína andlegu vídd, í einhverjum kjallara, bílskúr eða bara einhvers staðar og umbreyta þar draumi sínum í veruleika.

Í samanburði við eilífðina og dauðleikann var miklu merkilegra að vera í hljómsveit, eða það fannst mér alltaf hér í eina tíð. Það væri fullkominn óþarfi að flækja lífið og tilveruna með einhverjum djúpum pælingum. Það yrði víst nóg af slíku síðar á lífsleiðinni. Fyrir bragðið nærist sálin í dag á leiftri liðinna stunda sem til allrar hamingju dúkka stundum upp þó þær stundir komi því miður aldrei aftur, og fortíðarþráin flæðir um æðarnar og yfirtekur líkamann og sálina eins og eftir lyfjainntöku meðala sem gera okkur gott.

En þrátt fyrir að hafa flutt úr bænum hafði ég ágætar spurnir af því sem var að gerast, en þurfti engu að síður að tala við fjölmarga sem komu við sögu til að fá svolítið fyllri mynd og púsla síðan brotunum saman. Færi þeim mínar bestu þakkir fyrir að nenna að eiga við mig spjall og grafa eftir mislöngu liðnum atburðum í hugarfylgsnum sínum.

Cargo sem varð Kargo
Hljómsveitin Cargo var stofnuð í Sjálfstæðishúsinu árið 1986 og starfaði til 1989. Í upphafi voru í bandinu þeir Össi Arnars, Steini Sveins, Jón Erlings sem fór síðan í Sóldögg, Leifi Elíasar og Siggi Ingi Þorleifs og Laufeyjar, en Jói Abbýar tók þó fljótlega við af Sigga. Í upphafi hét hljómsveitin Cargo með C, en vegna misprentunar nafnspjalds var nafninu af augljósum hagkvæmisástæðum snarlega breytt í Kargo með K.

Kargo á Síldarævintýri. – Ljósmyndari ókunnur

Elías faðir Leifa útvegaði fullt af græjum og drengirnir fengu að æfa niður í Sjálfstæðishúsinu, en þar var fyrsta ballið haldið með diskótekinu Náttfríði. Kargostrákarnir voru duglegir að halda böll þegar fram í sótti, en komu til að byrja með fram í pásum hjá Gautum og Miðaldamönnum. Með tímanum fóru þeir svo að halda sín eigin böll eins og gengur og spiluðu talsvert, en oft á mjög óhefðbundnum stöðum. Þeir fóru til dæmis tvisvar sinnum til Grímseyar og voru þær ferðir hinar mestu svaðilfarir, allavega síðari ferðin. Einnig spiluðu þeir á Þórshöfn á Langanesi, í Bjarnafirði á Ströndum og í Skeljavík sem er skammt hjá Hólmavík, en auðvitað líka í nærumhverfinu svo sem á Ólafsfirði, Ketilási, í Alþýðuhúsinu hjá Villa Friðriks og á Síldarævintýrinu.

Jói Abbýar með Kargo á Síldarævintýri. – Ljósmyndari ókunnur

Skeljavíkurhátíðin sem Bítlavinafélagið stóð fyrir, var haldin í tvö skipti og eitt af númerunum var hljómsveitarkeppni sem Kargo tók þátt í og sigraði. Verðlaunin voru nokkrir tímar í Stúdíói Bítlavinafélagsins, en þar voru tekin upp fjögur lög og þar á meðal lagið Vodka family sem margir þekkja.

Svo var farið til Reykjavíkur til að meika það og tekið þátt í Músíktilraunum 1988, en árangurinn var ekki sá sem væntingarnar stóðu til, en þar var þó spilað í náttfötum sem tekið var eftir.

Kargo á Spot. – Ljósmyndari ókunnur

Þetta voru stórhuga drengir sem sést meðal annars á því að þeir keyptu hljómsveitarbíl saman, en Jónsi og Steini borguðu sína hluti með sparimerkjunum. Ekki getur fjárfestingin þó talist hafa verið góð þegar upp var staðið, því bíllinn bræddi úr sér í Staðarskála í fyrstu ferðinni.

Kargo var með nokkuð af frumsömdu efni, lögin að mestu eftir Jónsa en textarnir eftir Steina.

Annars var Jónsi undir aldri framan af, en fékk þó að spila með því skilyrði að foreldrar hans fylgdu honum eftir. Yfirleitt var Erlingur faðir hans því með í ferðum, en mamma hans mun þó einnig hafa farið slíka gæsluferð.

Kargo héldu tónleika í SR. 46 síldarþrónni til styrktar kvennaknattspyrnunni á Siglufirði (KS) og gáfu stelpunum innkomuna.

Það verður einnig að geta þess að Ásbjörn Ásgeirs, Stebbi Sigmars og Sævar Björns voru stoðir og styttur Kargo og fylgdu þeim gjarnan eftir þar sem þeir fóru.

Hljómsveitin leystist svo upp þegar Jónsi fór í skóla, en Steini, Jói og Össi gengu Sturlaugi á hönd og gerðust meðlimir í Miðaldamönnum.

Cecilia Magnúsdóttir og Steini Bertu í framlínu Kargoflokksins. – Ljósmyndari ókunnur

Hljómsveitin Kargo hefur komið saman nokkrum sinnum á liðnum árum með eitthvað breyttum mannskap. Þeir Össi, Jói og Steini hafa þó myndað kjarnann í bandinu, en eftirtaldir hafa komið mismikið við sögu á mismunandi tímum: Kiddi „kennari“ á bassa, Magnús „Reykvíkingur“ á hljómborð, Cecilia Magnúsdóttir söngur, Þröstur Þorbjörnsson á gítar, Kolbeinn Óttar Proppe á hljómborð og Magnús Benónýson á bassa.

Helgi Svavar, Steinsteypa, Concrete og fleiri bönd.
Helgi Svavar Helgason hóf sinn feril m.a. með því að leika á trommur í Léttsveit Tónskólans sem fór m.a. í heilmikla ferð til Danmerkur, og fljótlega eftir það lék hann líka með Harmonikkusveitinni sem illu heilli liggur nú í dvala. Um svipað leyti gat hann einnig byrjað að læra eitthvað á trommur, því það hafði fengist kennari til Tónskóla Siglufjarðar sem veitti góða tilsögn á það hljóðfæri. Sá ágæti maður hét Helgi Ástvaldsson og kom frá Ólafsfirði, en hans naut því miður ekki lengi við því hann lést af slysförum á sviplegan hátt fáeinum mánuðum eftir að kennslan hófst. Eftir hann tóku þeir við, Sveinn Hjartar, Steini Sveins og Aggi Sveins.

Helgi Svavar byrjaði kornungur að munda kjuðana. Geri ráð fyrir að ljósmyndarinn sé einhver af heimafólkinu á Hafnartúninu

Ég tók hús á Helga Svavari fyrir nokkru og við spjölluðum um hljómsveitarárin hans á Siglufirði.

Hjólabrettaáhugadrengirnir Börkur Þórðarson og Tryggvi Jónasson voru ásamt vinum sínum Víði, Sigga og Jónsa að grúska með einhvers konar tilraunakennt rapp og sitthvað fleira í þeim dúr í kjallaranum í Gagganum og einnig niður í Æskó, en þessir ungu menn kölluðu sig Dexis records. Á þessum tíma var ég að djöflast við að spila á gítar og við Sibbi (Sigurbjörn Einar Guðmundsson) fundum gamlan bassa sem við löguðum og máluðum, spiluðum svo ótrúlega oft og mikið saman á kvöldin og vorum þá að herma eftir því sem við fíluðum og var í gangi. Red hot Chili peppers, Hendrix, og ýmis goð voru í miklum hávegum höfð hjá okkur. Vinahópurinn stækkaði eins og gengur þegar eitthvað er að gerast og Sigurður Steinsson sem spilaði á gítar bættist fljótlega í hann. Saman héldum við svo oft til á kvöldin heima hjá Hjalta syni Valþórs læknis, dunduðum okkur við að gera grínmyndbönd og tókum upp tónlist á gamla tölvu sem Hjalti átti. Einhvern vegin svona byrjaði þetta allt saman.

Sumarið eftir kemur svo Grétar sonur Sigga Hilmars í bæinn, en hann var oft á Sigló á sumrin. Hann er tvíburabróðir hans Dodda ef einhver tengir betur með þær upplýsingar. Grétar kemur með ferska strauma úr Árbænum þar sem voru í gangi svolítið experimental hljómsveitir t.d. Bibbi Curver og co og Yukatan svo dæmi sé tekið. Hann kemur líka með fulla tösku af kassettum með Nirvana, Primus og ýmsum hljómsveitum sem gátu með góðu eða ekki góðu móti flokkast undir hálfgerða jaðarmúsík sem hafði fram að þessu ekki numið land á Siglufirði.

Þegar þarna er komið sögu var í gangi band sem æfði í gömlu Mattasjoppunni og í voru meðal annarra þeir Jón Svanur og Ási Tona, en ég man ekki alveg hvað hét. Við fengum aðstöðu á efri hæðinni, en héngum samt mikið saman niðri með hinni hljómsveitinni. Þarna verður til band sem við nefndum Steinsteypa þar sem ég er á trommur, Grétar á bassa, Börkur var að syngja, Sigþór Ægir var minnir mig fyrst á gítar, en hættir fljótlega og fer í hljómsveitina á neðri hæðinni og þá held ég að Siggi Steins hafi komið í hans stað. Þeir Hjalti og Sibbi héngu alltaf með okkur, en efir sumarið flytur Grétar úr bænum, Sibbi fer á bassann og þá minnir mig að við höfum breytt nafninu úr Steinsteypa í Concrete. Við missum síðan húsnæðið að Aðalgötu 5 en fáum í staðinn einbýlishús við Túngötu á horninu á móti Alþýðuhúsinu sem bærinn átti líka á þessum tíma. Þarna vorum við komnir með fína aðstöðu og æfðum á hverju kvöldi, sömdum mikið af tónlist og tókum í framhaldinu þátt í músiktilraunum undir Steinsteypunafninu.

Sú meinlega villa slæddist inn með fréttinni í Mogganum að hljómsveitin Steinsteypa var sögð vera frá Hafnarfirði og voru drengirnir ekki mjög kátir með það, enda Siglfirðingar og stoltir af sínum heimabæ

Þegar þarna var komið sögu í spjallinu, sagðist Helgi vilja “hringja í vin” og sló í framhaldinu á þráð til Sibba til að fá tímalínuna staðfesta. Allt passaði með smávægilegum leiðréttingum og viðbótum. Eftir Mattasjoppuna æfðum við um tíma í gamla leikskólanum uppi á Hlíðarvegi bætti Sibbi við, (þar sem Þormóður Eyjólfsson átti einu sinni heima). Hann rifjaði líka upp að þeir spiluðu einu sinni í pásu hjá Max og það var hljómsveitin Stjörnukisi sem vann músiktilraunirnar sem þeir tóku þátt í árið 1996. Sibbi hafði líka í eina tíð komið lítillega við sögu í hjómsveitunum Pinhead og Bugles. Mörgum árum síðar fer Sibbi suður og gengur til liðs við pönkbandið Spírandi baunir.

Og Helgi hringdi aftur í annan vin, og í þetta skiptið var það Jón Svanur Sveinsson. Hann kom líka með nokkrar viðbætur sem skerpti á heildarmyndinni og ég púslaði viðbótinni í beinu framhaldi inn í textann.

Síðan lá leið Helga á Krókinn og má segja að litlu böndin frá Sigló hafi bráðnað svolítið saman þar. Þar spilaði hann með Jónsa Sveins, Víði Vernharðs og Gísla sem kom frá Hvammstanga, en svo fór Gotti Kristjáns að syngja með bandinu og annar trommari tók við af Helga þegar hann hélt suður í jazzinn. Þá nefndist bandið Newshit sem er eiginlega orðaleikur sem getur lesist sem News hit, en einnig sem New shit. Upp úr þessari spilamennsku verður síðan til sá jarðvegur sem hljómsveitin Daysleeper er eiginlega grundvölluð á.

Skemmtileg ljósmynd af hljómsveitinni Max
sem Sigurður Hlöðversson tók

Hugrakka brauðristin Max
Ævintýrið byrjaði í Æskó árið 1987 að sögn Jóns Pálma Rögnvaldssonar og þá nefndist hljómsveitin Ekkó, en það nafn hafði reyndar einnig verið notað á sjöunda áratugnum af öðrum siglfirskum ungmennum og mér er ekki kunnugt um neina sérstaka tengingu þar á milli. Ekkó spilaði tvisvar eða þrisvar í Æskó áður en nafnið breyttist og Svenni Hjartar tók við af Jóni Pálma. Fyrsta árið eða svo, söng frændi hans Pálmi Steingríms með bandinu eða þar til hann hætti til að fara í skóla á Laugarvatni og Hlöðver tók við. Pálmi var þó ekki alveg hættur í bransanum því hann stóð fyrir stofnun hljómsveita á Laugarvatni.

Hlöðver segir frá: “Hljómsveitin Max var stofnuð í janúar árið 1988 og hana skipuðu í fyrstu Pálmi Steingrímsson söngur, Hilmar Elefsen gítar, Rúnar Sveinsson bassa, Örvar Bjarnason hljómborð og Sveinn Hjartarsson trommur. Áður hafði hún heitið Ekkó og var trommari þá Jón Pálmi, en árið 1989 tók ég við sem söngvari. Hljómsveitin spilaði í músíktilraunum árið 1989 og komumst nærri því áfram, en við vorum því miður í riðli með hljómsveitinni sem vann en hún hét því frumlega nafni Laglausnir. Við fengum engu að síður flest atkvæði frá áhorfendum. Við spiluðum þrisvar í Húnaveri á útihátíð og þar var Hilmar eitt sinn að tala við Helga Björns og Helgi var að segja honum frá því þegar þeir í Sssól höfðu spilað fyrir yfir 5000 manns í Vestmannaeyjum og þá sagði Hilmar að það væri nú ekkert því þeir hefðu spilað fyrir 10.000 manns á Síldarævintýrinu og þá varð Helgi kjaftstopp. Síðustu 10 ár hefur Max verið endurvakin nokkrum sinnum og þá undir nafninu Hugrakka Brauðristin Max. Hefur Pálmi þá verið með okkur, spilað á gítar og sungið og höfum við verið að spila á svokölluðum Siglfirðingaböllum til dæmis á Spot. Læt þetta duga frá mér því ég er ekki alveg tilbúinn að segja grófu bransasögurnar, því það gæti leitt til vinslita”. Hmmm…

Pinhead
Nokkrir ungir menn komu saman veturinn 1992-93 og úr varð hljómsveitin Pinhead. Þetta voru: Ásgrímur Finnur Antonsson á trommur, Jón Svanur Sveinsson á bassa, Sigþór Ægir Frímannsson á gítar og Leó Ingi Leósson á rythmagítar til að byrja með, en síðar sá hann aðeins um sönginn. Þá söng Sigurbjörn Óskar Guðmundsson með hljómsveitinni í fyrsta skiptið sem hún kom fram.

Hljómsveitin Pinhead þótti þétt og ágætlega spilandi miðað við aldur meðlimanna. Fyrsta æfingarhúsnæðið var í bílskúr við Hvanneyrarbraut sem Frímann faðir Sigþórs átti, það næsta var í Tónlistarskólanum og það síðasta í Dröfn sem var númer 5 við Aðalgötu þar sem Matti Jó hafði rekið söluturninn Tröð, en þar æfðu a.m.k. tvær aðrar hljómsveitir á sama tíma.

Lagalistinn var ekkert ósvipaður hefðbundnum lagalistum á sveitaböllum þess tíma, en útsetningar laganna voru þyngri en venjan var. Notaðir voru alvöru þungir gítareffectar, s.s. Thrash Master og Heavy Metal frá Boss, og fengu öll hljóðfæri að njóta sín. Hljómsveitin Pinhead kom nokkrum sinnum fram og voru undirtektir oftast góðar. Hún var nokkrum sinnum upphitunar og/eða pásuhljómsveit fyrir Hugrökku Brauðristina Max og svo kom hún fram á einu síldarævintýri. Þá spilaði hún á tveimur dansleikjum sem aðalnúmer. Í fyrra skiptið var um að ræða dansleik á landsmóti unglinga í badminton og þar voru undirtektir verulega góðar. Sá dansleikur stóð yfir í þrjá tíma fyrir troðfullu Alþýðuhúsi og dönsuðu allir, allan tímann. Í seinna skiptið var um ræða dansleik í félagsmiðstöðinni Fellahelli í Reykjavík. Óhætt er að segja að þar hafi meiri eftirspurn verið eftir raftónlist og blikkljósum, en kraftmikilli sveitaballtónlist með metalívafi og óteljandi gítar, trommu og bassasólóum. Voru undirtektir á þeim dansleik því töluvert undir meðallagi. Hljómsveitin Pinhead leystist smám saman upp yfirsumarið/haustið 1994 og í kjölfarið gengu flestir meðlima hennar inn í aðrar hljómsveitir á Sigló.

Blackmail

Hljómsveitina Blackmail skipuðu þeir Sigþór Ægir Frímannsson sem er fyrir framan magnarann til vinstri, Ásgrímur Antonsson aftast, Jón Svanur Sveinsson fremst á mynd og Víðir Vernharðsson lengst til hægri. Á myndina vantar Gottskálk H Kristjánsson sem hefur þá annað hvort verið myndasmiðurinn eða ekki á staðnum. Myndin er tekin í æfingahúsnæðinu að Aðalgötu 5 eða í Drafnarhúsinu sem seinna varð verslunin Tröð sem var rekin af Matta Jóhanns og Jónu. Ljósmyndari ókunnur.


Hér er hljómsveitin Blackmail einnig, en þetta mun vera síðari útgáfa hennar. Frá vinstri talið: Jón Svanur Sveinsson, Gottskálk H Kristjánsson, Víðir Vernharðsson, Sigþór Ægir Frímannsson og Helgi Svavar Helgason sem var þarna kominn í staðin fyrir Ásgrím Antonsson undir það síðasta. Ljósmynd: Sveinn Hjartarson

Heimildarmenn: Þorsteinn Sveinsson, Helgi Svavar Helgason, Sigurbjörn Einar Guðmundsson, Jón Svanur Sveinsson, Hlöðver Sigurðsson, Pálmi Steingrímsson, Jón Pálmi Rögnvaldsson, Sveinn Hjartarson, Leó Ingi Leósson, Ásgrímur Antonsson.

Fyrri hluta ritraðarinnar “Poppað á Sigló” og fleiri greinar eftir Leó R. Ólason má finna hér.