Heiðveig María Ein­ars­dótt­ir skilar inn í dag fram­boðslista til stjórn­ar Sjó­manna­fé­lags Íslands. Býður hún sig fram til for­manns þrátt fyr­ir að hafa verið rek­in ný­lega úr fé­lag­inu. Ásamt Heiðveigu bjóða sig fram níu aðrir á B-lista.

 

Á facebook-síðu fram­boðslista síns skrif­ar Heiðveig María Ein­ars­dótt­ir, fram­bjóðandi til for­manns Sjó­manna­fé­lags­ins í dag eftirfarandi og vís­ar til gjörða nú­ver­andi for­manns, Jónas­ar Garðars­son­ar. Seg­ist hún enn frem­ur hafa rekið aug­un í að menn fari frjáls­lega með staðreynd­ir og hiki ekki við að leggja henni orð í munn.

“Þar sem ég hef rekið augun í það að menn fari aðeins frjálslega með staðreyndir og hiki ekki við að leggja mér orð í munn þá er rétt að árétta nokkur atriði.
Ég sagði í upphafi að ég efaðist um tilurð fundargerðanna vegna a.m.k. átta formgalla og mismunar sem er á fundargerð annars vegar og þess sem kemur fram á heimasíðu félagsins um lög félagsins hins vegar. Svör frá forsvarsmönnum félagsins varpa ekki ljósi á þessar athugasemdir mínar og því hef ég gert athugasemdir eins og alkunna er.

Ef ég get ekki leyft mér að efast um tilurð þessarar fundargerðar miðað við allar þær ástæður sem ég hef hrakið þá held ég að við séum á slæmum stað hvað varðar tjáningarfrelsi og lýðræðislega þátttöku í stéttarfélögum sem og almennt.

Auk þess hef ég áttað mig á því síðar í þessari atburðarás að gjaldkeri félagsins hafi ekki séð ástæðu til þess að upplýsa mig um þessa lagabreytingu þegar ég hitti gjaldkera félagsins á skrifstofu þess 2 dögum eftir að ég sendi tölvupóst (í lok maí) þar sem ég tjáði honum að ég hygðist bjóða fram lista til stjórnar og óskaði eftir leiðbeiningum og upplýsingum um KJÖRGENGI sem og önnur atriði í tengslum við framboð.

Það staðfestir enn frekar efasemdir mínar um tilurð þessarar fundargerðar þar sem starfsmaðurinn sá ekki tilefni til þess að upplýsa mig þá um að ég væri ekki kjörgeng. Það er sannarlega erfitt að sanna það hvort þetta hafi verið borið fram eða ekki en ég ætla að leyfa mér að efast áfram og það er mín skoðun sem ég tel mig hafa fullan rétt á að hafa.

Orð eins og fölsun og rifnar bls. koma fyrst fram hjá formanni í aðsendum greinum í Morgunblaðinu sem og í viðtölum. Að ég hafi reynt að sverja eitthvað af mér í viðtali við Bitið er í besta falli misskilningur og í versta falli afbökun – ég einfaldlega er að leiðrétta þá orðræðu sem formaðurinn sjálfur kom af stað. Þá hefur útúrsnúningur formannsins á þessum orðum mínum þar sem hann heldur því fram að ég hafi sagt margt sem ég aldrei sagði líkt og ég bendi á hér að ofan orðið kjarninn í afbakaðir röksemdarfærslu fjórmenningana sem kröfðust þess að mér yrði vikið úr félaginu (og líklega í umfjöllun þeirra er mættu á fundinn), sem greinilega sést í enn einni aðsendir greininni í Morgunblaðið í morgun frá einum af þessum fjórmenningum. Þá má bæta þessum atriðum við þann skaða er núverandi formaður hefur valdið félaginu, hann í alvöru skáldar upp sakir á félagsmann og síðan fær hann rekinn úr félaginu. Þvílíkur leiðtogi !! Þvílíkur formaður !!
Hið rétta er að ég efaðist um tilurð fundargerðarinnar og það sannarlega vantaði bls. í þá sendingu sem ég fékk í tölvupósti – sú bls. hefur enn ekki borist.

Það að ég fari ekki sjálf niður á skrifstofu skiptir ekki máli í þessu samhengi- ef ég get ekki treyst því sem kemur úr netfangi gjaldkera félagsins þá er andskotinn hafi það fokið í flest skjól – og ég ætla rétt að vona að það sé ekki enn önnur útgáfa af fundargerðum sem liggja fyrir á skrifstofu félagsins og eru félagsmönnum til sýnis.

Heiðveig

Heiðveig María Einarsdóttir

Heimasíðan er öllum opin og ég hef birt þessar myndir af lögum úr þessum fundargerðum og það getur hver og einn borið þetta saman. Fundargerðin hefur að geyma eina breytingu af 8 – það er staðreynd!

Að halda því fram að þetta sé kunnáttuleysi, gleymska eða eitthvað allt annað er kemur að uppfærslu heimasíðu er ekki gild afsökun í mínum huga og heldur ekki nokkru vatni- ég ætla að taka mér það bessaleyfi að hafa þá skoðun sem og tala um það kæri ég mig um það.

Auk þess óskaði ég ítrekað eftir fundi með félaginu sem og lögmanni þess til þess að átta mig hreinlega á því hvaða lög eru í gildi í félaginu – eftir a.m.k viku tölvupóstsamskipti var ljóst að ekki var vilji til þess að fara á slíkan fund af hálfu forsvarsmanna félagsins.

Það að þessar ,,alvarlegu ásakanir,, hafi ekki verið raktar efnislega heldur eingöngu með röklausum staðhæfingum og skoðun formanns á minni persónu (sem hann hefur að sjálfsögðu fullan rétt á að hafa eins og hann vill) né staðfestar eða hraktar af lögmanni félagsins vekur upp enn fleiri spurningar. Og hafi lögmaður staðfest þessi vinnubrögð og framsetningu á lögunum geri ég þá lágmarkskröfu að lögmenn félagsins hafi öll gögn til matsins og auðvitað allar hliðar málsins sem og þá kröfu að lögmaður staðfesti það fyrir félagsmönnum öllum – þá staðfestingu hef ég enn ekki rekið augun í.

Það að 16.gr. sé réttilega inni í fundargerð og á heimasíðu félagsins (reyndar ekki fyrr en í byrjun október) er svo sem góð og gild staðfesting þrátt fyrir að ég leyfi mér enn að efast um tilurð þessarar fundargerðar og réttmæti þess með hvaða hætti lagabreytingin var borin fram.

Jafnframt er rétt að árétta þann misskilning að ég hafi sent aðsendar greinar eða efni á fjölmiðla af fyrra bragði – það er einfaldlega rangt. Ég hef birt hugleiðingar mínar, greinastúfa sem og annað á bæði ,,Like,, síðu framboðs míns sem og minni persónulegu FB síðu. Það að fjölmiðlar vilji frekari upplýsingar um það sem ég skrifa eða velti upp vegna þess að þeir telji það frétt eða eiga erindi við almenning er ekki mitt mál – ég hins vegar hef svarað spurningum og útskýrt frekar mitt mál hafi fjölmiðlar leitað eftir því, þá skiptir ekki máli hvaða fjölmiðill það er – ég hef svarað öllum fjölmiðlum og öllum spurningum þeirra. Rétt er að benda á að síðan ég byrjaði í félaginu í ágúst 2017 hef ég séð EITT fundarboð – það var aðalfundur á milli jóla og nýárs á síðasta ári – jafnframt hef ég margtekið fram að ég sjálf var á sjó á þessum tíma og gat því augljóslega ekki setið þennan fund.

Það er staðreynd að þessar athugasemdir mínar gera það að verkum að stjórn, hluti trúnaðarmannaráðs sem og eflaust einhverjir aðrir ákveði að reka mig sem félagsmann fyrir þessar ábendingar og ósk um svör, þessi að aðferð vekur upp enn frekari spurningar sem ekki hefur enn fengist svar við en athafnirnar og viðbrögðin bæði dæma sig sjálf og skýra margt.

Að því sögðu og eftir árangurslausar og ítrekaðar tilraunir til svara frá núverandi forystu félagsins er mér sá einn kostur nauðugur að leita réttar míns fyrir dómsstólum og hef ég lagt inn stefnu til Félagsdóms vegna þess sem og óskað eftir flýtimeðferð málsins. Enn og aftur tókst forystunni með fordæmalausum aðgerðum að bæði tefja málið með ósk um tryggingu vegna málskostnaðar er á félagið gæti fallið myndi ég tapa málinu – þá með skírskotun í mín persónulegu mál og þá jafnvel til þess eins að reyna að vega enn frekar að æru minni – sem staðfestist í rauninni í beiðninni sjálfri þar sem þeir hafa ekki einu sinni fyrir því að óska eftir upphæð til tryggingar fyrir málskostnaði og leggja það í mat dómsins.

Það er nokkuð ljóst fyrir löngu að skoðun og nálgun mín á málefnum sjómanna á ekki hljómgrunn með núverandi forystu – því liggur það beinast við í lýðræðis félagi að bjóða fram lista með þeim áherslum og leggja það í dóm félagsmanna sjálfra að ákveða hvaða leið verður farin.

**að enn frekara tilefni geri ég þá lágmarkskröfu að ætli menn að taka umræðu um þennan pistil þá sé það gert á málefnalegum nótum, röklausar staðhæfingar eru vinsamlega afþakkaðar og ég krefst þeirrar lágmarkskurteisi að menn amk rökstyðji mál sitt með gögnum eða tilvísun ætli þeir að halda áfram á þessum nótum**”

#fullaferð

 

Myndir: úr einkaeign