Andri Hrannar Einarsson

Gran Canaia er ein af 7 eyjum Kanaríeyja klasans og sú næst fjölmennasta með um 850 þúsund íbúa. Eyjan er 1.560 ferkílómetrar með hæsta punkt í um 1,949 m yfir sjávarmáli. Kanarí eyjarnar eru þekktar fyrir mikla veðursæld og gott loftslag sem hefur komið mörgum vel og er það vel þekkt að fólk með líkamlega kvilla sem og öndunarfæra kvilla hafa sótt í að komast suður í höf yfir köldustu mánuðina á Íslandi. 

Á meðan norðan hríð og stormar skella hvað eftir annað á Íslandi er vetrarveðrið á Kanarí yfirleitt vindur og stöku skúr annað slagið og jafnvel ekki einu sinni skúrir. Hitastigið er á bilinu 23 gráður á daginn og niður í 16 gráður á nóttunni sem er alveg viðunandi og allt annað að upplifa veturinn hér á Kanarí en í lægða drífunni heima á Klakanum.

En svo koma undantekningarnar. Það hefur nefnilega verið að rigna reglulega hérna á Gran Canaria síðustu vikurnar og blásið allhressilega á köflum. Og núna er að ganga yfir eyjarnar mikið rok og miklar rigningaskúrir. Rigning er reyndar alltaf vel þegin hérna suður í ballarhafi þar sem stundum rignir ekki mánuðum saman og gróðurinn fölnar upp og verður gífurlega eldfimur og oftar en einu sinni hafa kviknað hérna miklir eldar sem hafa valdið miklu tjóni á gróðrinum.

En nú var það ekki eldur sem olli gróðurskemmdum heldur vindurinn. Miðvikudaginn 6. janúar síðastliðinn var bálhvasst, það hvasst að pálmatré í garðinum á Apartamentos Koka á Gran Canaria lét undan og brast undan storminum. Sem betur fer urðu engin slys á fólki og önnur tré standa ennþá keik. 

Veðrið á að skána um helgina, vind að lægja og birta til en hvað veit maður þegar veðrið er annarsvegar.