Síldarævintýrið 2011 sem þá var 20 ára, fór fram á Siglufirði í blíðskaparveðri. Fjölmargt tónlistarfólk lagði þar hönd á plóginn auk þess sem uppákomur af ýmsu tagi glöddu augu og eyru þeirra sem heiðruðu bæinn með nærveru sinni auk að sjálfsögðu þeirra sem í bænum búa. Svo mætti líka nefna öll söfnin sem vert er að heimsækja, svo sem Síldarminjasafn Íslands, Þjóðlagasetur, Ljóðasetur Íslands, Úra og gullsmíðasafn auk Skíðasafns.

Það er síðan frekar lítið mál að reikna sér til að það hefði orðið 30 ára í ár ef allt hefði gengið smurt og snurðulaust fyrir sig.

Mikil bílaumferð var á Tröllaskaga og samkvæmt óstaðfestum fréttum var sett umferðarmet í Héðinsfjarðargöngunum þegar um 2 þúsund bílar fóru um göngin auk þess sem stýra þurfti umferðinni um Múlagöng og Strákagöng.

Þéttbýlt á grænum svæðum

Það var ansi þéttbýlt á flestöllun grænum svæðum í bænum og þó sést ekki nema hluti af tjaldsvæðunum á meðfylgjandi mynd. Eiginlega alls staðar þar sem hægt var að koma fyrir húsbíl eða hjólhýsi í görðum eða á grænum flötum var einhver búinn að hola sér niður. Það vakti þó athygli mína að venjuleg tjöld var því sem næst hægt að telja á tám og fingrum.

Miðbærinn

Gestum sem mættu á Síldarævintýrið fannst mikið til um hvað miðbærinn myndar afgerandi kjarna í miðjum bænum hve allt skipulag gatnakerfisins er gott, vegalengdir stuttar milli Ráðhústorgs, tjaldsvæðis, allrar verslunar og þjónustu að ógleymdri smábátahöfninni og Rauðkusvæðinu. Þetta er auðvitað alveg einstakur bær, en það vissum við flest öll nú reyndar fyrir. 

Gestir Síldarævintýrisins komu sér fyrir á ótrúlegustu stöðum

Svarta krían

Edda Heiðrún Backman hélt málverkasýningu í Svörtu Kríunni þar sem Veiðarfæraverslun Sig. Fanndal var áður til húsa. Því var hvíslað að mér að skömmu áður en sýningunni lauk, að hún hafi verið búin að selja allar myndirnar nema tvær, en það skal ítrekað að það voru óstaðfestar fréttir.

CargoLUX

Hljómsveitin Cargo sem “var uppi” á árunum 1986-1989, átti alveg frábært “kombakk” á Síldarævintýrinu 2011. Á sínum tíma voru meðlimir hennar lengst af þeir Steini Sveins, Jói Abbýar, Össi Gunnu, Jón Erlings að ógleymdum Leifa Elíasar. Stjarna þeirra reis e.t.v. hæst þegar þeir unnu hljómsveitarkeppni á Skeljavíkurhátíð sem Bítlavinafélagið stóð fyrir. Það var árið 1988 og þeir fluttu þar fjögur frumsamin lög og fengu að launum hljóðverstíma í hljóðveri þeirra Bítlavinafélagsmanna.

Þar sem þeir Jón og Leifi áttu ekki heimangengt þessa helgina voru kallaðir til afleysingamenn sem voru ekki af verri endanum. Það voru þeir Þröstur Þórhallsson gítarleikari úr Saga Class og Kiddi (kennari) Kristjánsson. Auk þeirra bættist söngkonan Sesselja Magnúsdóttir við, en hún hafði áður sungið með hljómsveitum á borð við Áttavillt og Saga Class.

Cargo kom fram á föstudagskvöldinu og þá hlustaði ég alveg agndofa á þetta þétta og skemmtilega band, en svo voru þeir líka aðalhljómsveitin á laugardagskvöldinu á Ráðhústorginu. Upp kom sú kómíska og í raun óvitlausa hugmynd að nefna hljómsveitina Cargolux að þessu sinni, en rökin voru þau að þetta væri eins konar deluxe útgáfa af gamla bandinu vegna fjölgunarinnar.

Nýverið kom svo hópurinn saman í hljóðveri og tók upp eitt lagið frá Skeljavíkurhátíðinni. Það nefnist Vodkafamelý og hefur það hljómað á FM Trölla að undanförnu.

Fjöldi manns fylgdist með síldarsöltunarsýningu

Fjöldi manns fylgdist með söltunarsýningu að venju. Ég leyfði mér þó að fara á skjön við hefðina og birta hér annað sjónarhorn en það sem við höfum eflaust öll séð nokkuð oft.

Hin stórskemmtilega hljómsveit Papar, steig á sviðið við Ráðhústorg á föstudeginum og lék síðan fyrir dansi á Allanum um kvöldið. Tónlist þeirra með sínu Keltneska yfirbragði hefur löngum farið vel í landann, enda ekkert skrýtið þar sem genasamsetning okkar Íslendinga er að stórum hluta af þeim stofni. Það er því ekkert undarlegt þó okkur renni blóðið til taktsins og tónlistarinnar sem fær jafnvel þunglamalegustu fýlupúka til að brosa út í annað og dilla sér.

Fiskbúðarhjónin Eysteinn og Abbý stóðu vaktina allan daginn og langt fram eftir kvöldi.
Ljósmynd: Guðmundur Skarphéðinsson

Heyrst hafði að Fjallabræður ættu að troða upp á föstudagskvöldinu, datt mér strax í hug kórinn landsfrægi sem starfað hefur undir því nafni á Reykjavíkursvæðinu og var alls ekki einn um það. Þeir munu hins vegar ekki hafa verið á faraldsfæti um helgina, heldur mætti til leiks samnefnd hljómsveit héðan úr Fjallabyggð sem var sett saman að mér skilst sérstaklega fyrir þetta kvöld. Mér datt í hug að vel væri hægt að aðgreina þessa hópa tónlistarmanna með því að nefna þá Fjallabræður nyrðri og Fjallabræður syðri, sbr. Fjallabaksleið nyrðri og syðri, en það munu hafa verið þeir Gísli Rúnar, Maggi Ólafs, Rúnar Sveins og Ási Tona sem mynduðu þetta band.


Hljómsveitin Heldri menn á Rauðkutorgi. Sé ekki betur en stórvinur minn Hallvarður S. Óskarsson sé trommari að þessu sinni.
Ljósmynd: Guðmundur Skarphéðinsson

Vanir Menn
Ljósmynd: Birna Dís Benediktsdóttir.

Við “strákarnir” í Vönum Mönnum sem eru frá vinstri talið: sá sem þetta ritar, Birgir Ingimarsson og Magnús Guðbrandsson,  spiluðum fjórum sinnum á þeim þremur dögum sem sjálft ævintýrið stóð yfir.

Fyrst á litla pallinum á Rauðkutorgi föstudagskvöldið, en pallurinn hafði þá hafði fengið yfir sig myndarlegt “parruk” til varnar lítilsháttar úrkomu sem stóð reyndar stutt yfir, síðan á stóra sviðinu við Ráðhústorg og aftur á Rauðkutorgi á laugardagskvöldinu.

Á þeim ágæta bæ töldu menn að þar hafi verið samankomin hátt í þúsund manns á öllu svæðinu. Ekki vil ég þó fullyrða neitt um það en þegar ég leit upp úr texta og nótnabókinni, sá ég að sundið milli Hannes Boy og Rauðku var sneisafullt endanna á milli, örtröð var fyrir framan pallinn hjá okkur, innan dyra var Kaffi Rauðka greinilega full af fólki og talsvert mannhaf var til beggja hliða frá okkur séð.

Þá heiðraði Baldvin Júlíusson fyrrum söngvari hinna landsfrægu Gauta, okkur með nærveru sinni og söng nokkur lög sem hljómuðu gjarnan á Gautaböllunum fyrir hartnær hálfri öld.

Hjálmar

Á sunnudagskvöldinu stóðu Hjálmarnir fyrir tónleikum á nýja Ísafoldarsviðinu, en þeir eru að mínu mati eitt af því sem stóð upp úr á Síldarævintýri 2011.

Þar mátti ekki aðeins heyra frábæra tónlistarmenn flytja hágæða tónlist, heldur sýndi og sannaði hið nýkeypta hljóðkerfi þeirra Rauðkumanna einnig ágæti sitt. Það verður að segjast að það er verulegur fengur að því og víst er að nýjir möguleikar höfðu þarna opnast hvað varðar allt tónleikahald í bænum í framtíðinni með tilkomu þess.

Tónleikagestir sem munu hafa verið eitthvað á þriðja hundraðið skemmtu sér hið besta allt til loka, en hljómsveitin komst við “illan leik” af sviðinu þegar klukkan var að verða hálf þrjú, því þeir voru klappaðir upp aftur og aftur. Eftir því sem ég best veit voru þetta fyrstu tónleikarnir sem haldnir voru á þessum nýja stað og kannski þeir einu, en óhætt er að segja að tilraunin hafi tekist með miklum ágætum. Hver stórsmellurinn rak annan, seiðandi og þægilegur takturinn kom tónleikagestum á hreyfingu. Líklega getum við alveg talað um “fjöldahreyfingu”.


Ég gat ekki setið á mér og smellti af inn í bílinn til hljóðmannsins. Þarna inni var mikið af dóti og fullt, fullt af tökkum, en vonandi hefur honum ekkert orðið meint af blossanum af flassinu þegar ég skaut á hann

Færanlegum bar var komið fyrir í dyrum græna hússins sem vissi að sundinu, allir lögðu hönd á plóginn og dælan var látin ganga sem mest hún mátti.

Ég tók mikið af myndum af tónleikagestum sem eru hér að neðan og vonandi fer engin þeirra „yfir strikið“, þó að einstaka maður sjáist halda á bjórglasi.

Taktu mynd af okkur NÚNA…! Ólöf Elefsen stillti sér upp við hliðina á þessum dularfulla manni sem ég veit engin deili á og ég smelli auðvitað af.

Glaðir og reifir (eða hreifir) Tommi Kára, Óli Kára og Gulli Helga pípara. 

Frændurnir Maggi Guðbrands og Björn Jörundur, en eins og búast má við af náfrændum eiga þeir eitt og annað sameiginlegt hvað áhugamál varðar því báðir eru þeir margfaldir gítareigendur með meiru.

Fanný og Bjarni Kristjáns.

Jónsteinn Jóns mætti fyrir hönd okkar Brekkuguttanna.

Sveinn Hjartar ætlaði að smella mynd af mér og ég af honum á sama tíma. Ég varð á undan en hann uppskar aðeins mynd af blossanum af flassinu mínu að hans sögn.

Ómar og Fanný 

Óli Jóns og Helgi pípari greinilega mjög sáttir við það sem boðið var upp á.

Guðmundur Óli og Fanný (sem virtist vera næstum alls staðar sem ég smellti af).

Stebbi stóð eins og klettur í miðri þvögunni og lagði við eyru.

Bjarni í Visnesi jr. og Elli Ísfjörð (líka) jr. sem voru báðir að vitja æskustöðvanna.

Kolbrún Marvia Passaro og er þetta ekki Unnur Guðrún?

Ég held að Alli hafi komið til að vera til taks ef gamla Ísafoldarrafkerfið þyldi ekki allt stuðið.

Glæsipíurnar Maddý, Systa og Sigurbjörg Danna Bald.

Þröstur og Árni, örugglega með appelsín og malt. 

Jói Abbýar strömmari Cargobandsins kom og fylgdist vel með hljómsveitinni. Kannski hefur hann verið að athuga hvort hann gæti lært nokkr ný gítargrip, en líklega hefur hann kunnað þau öll.

Þessi ofurtjúttari dansaði sóló alla tónleikana fílaði sig í seiðandi reggiinu.

Stebbi Ben og Þröstur (aftur). Ekki var annað að sjá en þeir væru verulega sáttir hina karabísku tóna og það sem þeir höfðu með þeim. 

En þó að dansleikjahaldi í húsunum væri formlega lokið voru ekki allir endilega á leiðinni heim. Alla vega ekki alveg strax.

Ég hef persónulega orðið vitni að því að margur drengurinn og mörg meyjan hefur tyllt sér á þessar tröppur í gegn um tíðina og hvílt lúin bein, enda ekki alltaf verið langt undan.

Góð stund í þann vegin að renna sitt skeið. Samt alveg tími fyrir eins og einn bauk svona í blárestina.

Djúpspakir menn sem virðast vera í þann veginn að leysa lífsgátuna.

Langar þig kannski í bita?

Kemurðu oft hingað?

Að hugsa sér ef ekki væru til gemsar.

Um morguninn tíndust síðustu gestirnir heim í gullinni norðansól.

Þegar sólin kom upp yfir Grímseyjarsundinu og sendi geisla sína yfir Siglunesið, var eftirlegukindahópurinn farinn að þynnast mjög fyrir framan Allann og þeir allra síðustu farnir að hugsa til heimferðar og það nokkuð alvarlega.

Sumarið búið og allir farnir heim

En öll ævintýri taka enda og svo var einnig um Síldarævintýrið. Stóra sviðið við torgið skyldi nú verða tekið niður eins og hin fyrri ár, því haustið nálgaðist og allir gestirnir voru hvort eð er farnir heim. Að sögn lögreglu fór allt vel fram á Siglufirði í ágætu og rigningarlitlu veðri um Síldarævintýrishelgina og engin sérstök vandræði verið, enda gestirnir í bænum að mestu fjölskyldufólk. 

Tjaldstæðið galtómt, en bæjarbúar vonuðust auðvitað til að næsta sumar myndi gleðin endurtaka sig og nýtt ævintýri yrði jafnvel ekki síðra en það sem nú var á enda.

Guðmundur Skarphéðinsson var framkvæmdarstjóri hátíðarinnar þetta árið að sögn mbl., en á siglo.is  er sagt að ákveðið hafi verið að skipta framkvæmdastjórn milli þeirra Guðmundar Skarphéðinssonar, Gunnars Smára Helgasonar og Ægis Bergssonar.

Að sögn Guðmundar er talið að gestir hafi verið á bilinu 6-7000 talsins. Hann lýsti sig jafnframt reiðubúinn að taka að sér framkvæmdarstjórn Síldarævintýris 2012 ásamt stjórninni sem í voru ásamt Guðmundi, Anita Elefsen, Ægir Bergsson, Gunnar Smári Helgason, Sandra Finnsdóttir og Hilmar Þór Elefsen.

Texti: Leó R. Ólason. 
Ljósmyndir: Leó R. Ólason, nema annað sé tekið fram.