Þessi frásögn er hluti af síldarsögunni sem var okkur Íslendingum ósýnilegur. En eins og alltaf er Siglufjörður aðalbækistöð sögusviðsins.
Hér kemur áhugaverð frásögn úr 5 vikna túr um umskipun á síldartunnum úti á ballarhafi og birgðaskip sem þjónustuðu sænska reknetabáta sem voru á síldveiðum á Grímseyjarsundi 1946.
Sagan er þýdd og endursögð úr einum kafla í árbók Boshuslänska Fornminnessällskapet 1992-1993 og byggir á dagbókarfærslum Bengt Molanders sem var starfsmaður Bohusläns Islandsfiskares ekonomiskaförening (BIF) í áratugi.
Það var sá félagskapur sem styrkti uppsetningu farandsýningarinnar „På väg mot Island” sem var sett upp utandyra við Síldarminjasafn Íslands sumarið 2018.
Og til viðbótar er hér hægt að sjá hljóðlaust myndband sem fylgdi faransýningunni með samansafn af ljósmyndum og stuttum kvikmyndum úr einkaeign sem sýna undirbúning fyrir þriggja mánaðar útilegu við Ísland , reknetaveiðar, söltun og lífið um borð og að lokum fullt af flottum myndum frá Siglufirði.
Hljóðlaust myndband um reknetaveiðar sjómanna frá vesturströnd Svíþjóðar
Formáli:
Bengt byrjar á að minnast „tilraunaveiða“ Svía í landnót 1895 við Íslandsstrendur en síðan gerist mest lítið fyrr enn um 1905 og hafa nú Svíarnir sem að sjálfsöguð tóku sér til fyrirmyndar vinnslu og veiðiaðfarir Norðmanna loksins skilið að hér var hægt að veiða „Prima Islandssill“ í miklu magni.
En þetta voru áhættusamar veiðar og langir þriggja mánaða túrar með söltun um borð sem oftast byrjuðu í júlí og enduðu með heimsiglingu í lok september.
Fram að byrjun fyrri heimstyrjaldarinnar var mest veitt í snuprunót með stærri skútur sem móðurskip fyrir söltun um borð og minni hjálparbáta sem lögðu nótina en á stríðsárunum lágu þessar veiðar í dvala og það er fyrst um 1925 sem Svíar byrja á reknetaveiðum með norskum reknetum sem eru allt öðruvísi en þau net sem Svíar þekktu og notuðu á Norðursjó á þessum tíma. Þarna gátu „fraktskúturnar“ sem yfir sumartímann var breytt í veiðibáta lagt út sín reknet án hjálparbáta.
Innskot frá greinarhöfundi: (Norsk reknet sem notuð voru við Ísandsstrendur voru af því leitinu öðruvísi en þau sem Svíar notuðu vanalega að möskvarnir voru stærri, þau eru sterkari vegna þess að síldin hér er stærri og meiri síld fæst í hvert skipti. Þar fyrr utan voru þau lengri, bundin saman og gat lengdin á þeim náð allt að 1.000 metrum. )
Það er faðir núverandi formanns (Alf-Tore Gustafsson) Bohusläns Islandsfiskares Ekonomiska förening sem var eigandi og skipstjóri (Oskar Gustafsson) á skútunni Rudolf frá Edhultshall sem er talinn upphafsmaður af alvöru reknetatúrum með söltun um borð við Íslandsstrendur og fór hann sinn fyrsta túr 1925.
Félagið BIF var stofnað 1933 sem hagsmunafélag fyrir samanlagt 21 skútur til þess að deila áhættunni, sinna sameiginlegum innkaupum og ekki síst til að sjá um samningagerð um sölu síldarinnar til niðursuðuverksmiðja og annarra síldarkaupenda.
Reknetaveiðarnar gengu vel árin 1934-1939 og met árið 1939 tóku 30 skútur þátt og samanlagður afli var 21.850 tunnur af kryddsíld og saltsíld. Síldarmagnið í hverri tunnu kryddsíld var um 95 kg. og venjuleg saltsíldartunna var 91 kg.
Á þessum tíma styrkti sænska ríkið útgerðina með styrk uppá 2 sænskar krónur á hverja saltaða tunnu.
Bátarnir rétt náðu að koma heim áður en seinni heimsstyrjöldin byrjaði fyrir alvöru og metverð fékkst fyrir afurðir ársins. Stríðið setti nú stopp fyrir áframhaldandi veiðar við Ísland og nú voru góð ráð dýr og BIF félagið illa statt fjárhagslega og var nú byrjað að veiða síld í nálægð Svíþjóðar fyrir Ameríkumarkað en kanarnir borða mikið af síld en vilja ekki hafa hana svona velsalataða eins og við Norðurevrópubúar viljum. Þessa léttsöltuðu síld varð að geyma í kældu húsnæði svo að hún skemmist ekki. Slíkar kæligeymslur voru bara til í Gautaborg á þessum tíma.
Af þessari ástæðu byggði félagið stóran kælilager á eyju við Lysekil sem heitir Grötö. Í þessu stóra húsi (sem stendur enn á sama stað) var hægt að geyma 13.000 tunnur og til viðbótar var stór og mikil geymslu og vinnuaðstaða ásamt íshúsi sem gat framleitt 10 tonn af ís á sólarhring og kom það sér vel fyrir sjómenn staðarins sem keyptu mikið af ís frá fyrsta degi.
Kæligeymslurnar fylltust af allskyns matvörum og gekk starfsemin nokkuð vel þrátt fyrir stríðið. Bengt Molander byrjaði sinn starfsferill á skrifstofu félagsins 1942 en var svo fljótlega þar á eftir kallaður í herþjónustu og kom tilbaka fyrir stríðslok og var þá búið að fjölga starfsmönnum verulega.
Strax í apríl 1945 byrjar félagið að undirbúa síldveiði við Ísland og var nú sótt um undanþágu á skömmtunum á innkaupum á mat, olíu og fl. sem til þarf fyrri þriggja mánaða veiðitúra og var það samþykk af háum herrum í Stockholm sem höfðu ekki hundsvit á síldveiðum og vissu vart að besta síldin væri veidd við Ísland.
Síðan kom í ljós að öll „Íslands reknet“ félagsins voru ónýt eftir margra ára geymslu en gegnum skipamiðlarann Carl Andersson sem var með góð sambönd í Noregi tókst að leigja reknet fyrir alla 16 skúturnar sem félagið gerði úr þetta árið og voru þau tekin um borð á ýmsum stöðum á leiðinni á veiðarnar á Grímseyjasundi.
Innskot frá greinarhöfundi: Þessi net voru gerð úr lífrænu efni, líklega hampa og áttu til að fúna í geymslu. Í landlegum var þar fyrir utan mikilvægt að salta reknetin þegar þau voru blaut svo að það kæmi ekki mygla í garnið.)
1945 söltuðu þessar 16 reknetaskútur samanlagt 13.400 tunnur, mest sykursöltuð kryddsíld og frekar lítið magn af venjulegri saltsíld, samanlagt söluverð var 1.058.728 skr. Innlendur markaður æpti eftir Íslandssíldinni og var henni skammtað af ríkinu til niðursuðuverksmiða landsins og nánast ekkert af tunnum ársins fóru í útflutning.
Bengt hafði lengi nöldrað í stjórn félagsins um að fá að fara í einn veiðitúr til að læra meira um framleiðsluferlið en stjórnin vildi ekki missa hann svo lengi.
En vegna mikillar eftirspurnar á Íslandssíld 1946 var ákveðið að félagið leigði stóra fraktskútu sem heitir Constance frá Malmön og fór hún á eftir reknetaskútunum til að taka fullar tunnur og þar með auka afköst þessara löngu veiðitúra. Constance fór fulllöstuð af tómum tunnum, salti, sykri og kryddi, auka veiðibúnaði, olíutunnum og kartöflum og öðru góðgæti fyrir sjómenn félagsins.
Bengt fékk að fara með í þennan 5 vikna umskipunartúr sumarið 1946.
Ágrip úr dagbók Bengt Molanders.
Umskipunartúr við Ísland 29 júlí – 4 september 1946.
Bengt nefnir í upphafi dagbókar sinnar að hans hlutverk í þessari ferð sé að vera fulltrúi BIF og halda skrá yfir allt sem fer á milli skipa úti á ballar hafi. Ástæðan fyrir því að allt verður að hífast á milli skipa úti á hafi eru Íslensk lög frá 1903 um útlenska útgerð sem bannar alla vinnu um borð í landi og innan við landhelgi Íslands. Háar sektir eru lögð á alla sem brjóta þessi lög.
Bengt er einn af 8 manna áhöfn á þriggja mastra fraktskútunni Constance sem er með lítinn 120 hestafla hjálparmótor og er hún nú um stundarsakir skráð sem fiskibátur, LL 521 (Lysekil) var nýmálað skráningarnúmer á stefni skútunnar.
Bengt fær svefnpláss á hörðum 170 cm löngum svefnsófa í káetu skipstjórans, sjálfur er hann 190 á hæð.
Í skipstjórakáetunni sefur einnig skipstjórinn „kapten“ Otto Hermanson og sonur hans, stýrimaðurinn Osvald Hermansson.
29 júlí til 11 ágúst. Siglt frá Lysekil til Siglufjarðar.
Ferðin gengur hægt í byrjun, slæmt veður og leiðinda mótvindur þvingar Constance att tvisvar sinnum liggja í vari inná fjörðum í Noregi. (Mandal og í Bekkjavík rétt fyrir norðan Bergen)
Bengt er slæmur í maganum af allri kaffidrykkju, hann er ekki mikill kaffimaður og sterkt sjóarakaffi fer illa í hann. Skipstjórinn gerir undanþágu á áfengisreglugerðum og leyfir honum að drekka bara sterkan „export“ bjór í staðin sem magameðal og fór þessi kúr vel í Bengt.
Aftur lenda þeir í leiðinda veðri og þoku á ferð sinni yfir Atlandshafið og eru í vandræðum með að fá nákvæma staðsetningu, þeir gera dýptarmælingar með lóðum í þokunni en eru engu nær.
Constance hefur siglt alltof langt í norður og þar með misstu þeir af landsýn við Langanes.
Laugardaginn 10 ágúst er mannskapurinn orðinn frekar stressaður vegna þess að sænsku síldveiðibátarnir sem þeir eiga að þjónusta eru allir inná Siglufirði yfir helgina og þeir munu allir hverfa þaðan til veiða á sunnudags kvöld og þá verður nú ekki létt að finna þá dreifða á Grímseyjarsundi.
Snemma á sunnudagsmorgni fá þeir loksins landssýn og átta sig á því að þeir eru komnir of langt í vesturátt og taka nú stímið á Siglufjörð og kl. 13.00 er ankerinu sleppt í góðu verðri á Siglufirði.
11 ágúst, Siglufjörður
Siglufjörður er aðalbækistöð fyrir alla Íslenska, Norska og Sænska síldveiðibáta. Íslensku bátarnir sem yfirleitt eru af minni gerðinni liggja við langar bryggjur en allir hinir kasta ankeri og liggja í röðum úti á firðinum. Um 300 bátar eru sjáanlegir þennan sunnudag í þessari litlu höfuðborg síldarinnar sem er frekar skítug að sjá og einhverskorar nýbyggðarbragur er yfir öllu en umgjörðin er falleg með snjósköflum efst uppi í háum fjöllum í þrjár áttir.
Svo heppilega vill til að allar sænsku rekneta skúturnar (51 st ) sem eru á veiðum við Ísland í ár eru hér samankommar í dag og voru búnar að liggja hér í heila viku vegna veðurs.
Fljótlega eftir að Constance kom inn fjörðinn komu skipstjórar þeirra sænsku báta sem við áttum að þjónusta róandi yfir til okkar segir Bengt. Þeir fengu póst og brennivíns skammtinn (12 lítra af sterku á hvern bát) sinn með sér tilbaka en áður var gert upp skipulag umskipunnar vinnunnar sem var framundan. Sænsku reknetaveiðarnar höfðu ekki gengið vel síðustu vikurnar vegna veðurs og margir báta legið inni í daga og heilu vikurnar. Sá besti (Böljan) hafið saltað 300 tunnur og sá lélegasti rétt náð að skrapa saman síld í 30 tunnur.
Allt var klappað og klárt eftir 2 klukkutíma og bátarnir sigldu út á veiðar í blíðunni einn eftir öðrum. Bengt og Hermannson skipstjóri skreppa í land og senda skeyti frá Pósti og síma með skýrslu til stjórnar BIF félagsins.
Bent er á stígvélum þrátt fyrir að það sé sunnudagur og kom það sér vel því allar götur bæarins nema ein (Aðalgatan) voru einn allsherjar drullupollur. Það sem einkennir ásýnd Siglufjarðar eru stórar bræðsluverksmiðjur, síldarbrakkar og síldarplön, fullar síldartunnur í löngum röðum og fjöll af tómum tunnum, sum þeirra eru um 15 metra há, örfá steinsteypt hús og fjöldinn allur af litlum bárujárnshúsum.
Á götum spássera sjómenn í bússum og stígvélum en dömurnar eru velklæddar á þessum fallega sunnudegi.
Við strákarnir á Constance skruppum í land um kvöldið og fundum þarna nokkur kaffihús, Norskt og Íslensk sjómannaheimili og hótelkrá en við höfðum engan áhuga á þessu fábrotna skemmtanalífi og fórum fljótlega aftur um borð.
12 ágúst Undirbúningur fyrir umskipun.
Sigldum snemma út fyrir 3 sjóamílna landhelgi og byrjuðum að taka upp varning og tómar tunnur úr lestum og smíða ramma sem héldu utan um tómu tunnurnar og raða öllu öðru uppá dekk og var þar vægast sagt þröngt að athafna sig þar að degi loknum. Þetta urðum við að gera til að skapa pláss fyrir fullar síldartunnur sem fara beint ofan í lestir eftir umskipun.
13-14 ágúst „Kartöflu-umskipun“
Fundum engar af skútunum sem við áttum að taka tunnur frá, bara nokkrar sem vildu bara fá kartöflutunnur yfir til sín og það er ekkert mál að hífa það á milli báta í blíðskapar veðri og stórir „fendrar“ á bakborðshlið Constance hindar að bátarnir brjóti hvern annan.
Við sigldum síðan aftur inná Siglufjörð í sól og blíðu og vorum við komnir kl.12.00 og ég og Hermansson yngri pilkuðum upp þorsk í stríðum straumi sem við síðan gerðum að og lögðum í vatnsker.
15 ágúst Mjólk og vínarbrauð á Sigló
Réri í land í logni og blíðu og það var bara nokkuð hlítt hér í skjóli hárra fjalla. Hringdi í sænska sendiherrann í Reykjavík frá símstöðinni, keypti síðan nokkrar bækur við Aðalgötuna og hitti síðan Osvald og gamla Bernhard Karlsson á Norska Sjómannaheimilinu og þar gæddum við okkur á kaldri mjólk og góðu vínarbrauði. Seinnipart dags réri ég aftur í land og hjálpaði Karlsson gamla að frakta í land og selja nokkrar tómar olíutunnur síðan setti ég nokkur bréf í póst og restina af deginum eyddi ég í bréfaskriftir um borð.
16 ágúst Fyrsti dagur umskipunar
Fórum út á Grímseyjarsund kl. 07.00 og strax kl. 11.00 fundu við Viking frá Garavarne og byrjuðum að hífa 2 fullar síldartunnur í einu yfir í lestina á Constance. Síðan er ferlinu snúið við og Ibiza salt og sykurtunnur, kartöflutunnur, net og belgir híft yfir í Viking. Tómar tunnur fara á milli báta með handafli og gekk þetta allt fljótt og vel fyrir sig. Skipstjórinn kemur síðan yfir og tekur á móti kvittun frá mér sem ég skrifa undir með orðunum: Til hafs, 16 ágúst 1946, Bengt Molander. Skipstjórinn kvittar og allt er klárt fyrir næstu skútu sem er hin sögufræga Rudolf frá Edhultshall með áðurnefndan Oskar Gustafson sem skiptstjóra. Sami „prosidúr“ þarna og „tack och hej.
Við vorum að til klukkan fjögur um nóttina með þriðja bátinn sem var Morvenol og höfðum við þá unnið stanslaust í 18 tíma þar sem bara voru teknar tvær stuttar pásur til þess að éta graut og smá kaffidropa í eftirrétt.
Um nóttina stóð ég dauðþreyttur úti á dekki og reykti í rólegheitum og dáðist af blóðrauðri miðnætursólinni og þá birtist Berhard gamli og segir: „já víst er heimurinn fallegur en manneskjurnar í honum eru nú frekar vondar.“ og var hann þá örugglega með nýafstaðið stríð í huga.
Við fengum 550 tunnur um borð þennan dag.
17 ágúst Tunnur í sjóinn
Byrjuðum aftur kl. 08.00 þegar við fundum Emmy frá Edhultshall við Grímsey sem er lítill eyja við norðurheimskautsbaug, vorum fljótir að afgreiða Emmy og var nú komið að Dollar frá sama þorpi. Það var farið að bæta verulega í vindinn og við misstum 5 síldartunnur í sjóinn og urðum við nú að hætta vegna veðurs. Við sjáum nú að okkur hefur rekið hratt undan vindinum og erum staddir rétt utan við vitann á Siglunesi.
Fórum inná Siglufjörð og vorum komnir þangað um 22.00 og ég sofnaði eins og skot.
Fékk að heyra frá Osvald daginn eftir að Dollar hafði síðan lagt við hliðina á okkur um nóttina og í skjóli nætur læddust 73 tunnur um borð hjá okkur. Sem ég hef nefnt áður var þetta glæpsamlegt athæfi en gekk upp í þetta skiptið
18 ágúst Stutt sæla á sunnudegi
Bengt fer á fætur um kl.10.30 og er þá messinn fullur af skipstjórum sem gæða sér á brennivíni og export bjór í boði skipstjóra Constance. Það er er svo þröngt í salnum að karlarnir sitja næstum ofan á hver öðrum, borðið fyllist af glösum og flöskum og allir öskubakkar eru yfirfullir.
Hér er mikið glens og grín á sunnudagsmorgni, Jacob Karlsson á Mersey bölvar yfir því að helvítis sjóveikin angri hann en ekki landkrabbann Bengt Molander , Frans á Dollar fer að rífast við gamla sjóarann Bernhard (70 ára) um hvaða litur ætti að vera á reknetunum en Bernhard snýr þessu bara upp í svæsið grín og segir síðan sögur um sinn langa sjómanns ferill.
Það er einkennilegt að þessir stóru karlar þurfi oft hjálp við að klára lífið á þurru landi en hér úti á sjó kunna þeir allt.
En okkur er ekki til setunnar boðið þrátt fyrir að það sé sunnudagur og heilagur hvíldardagur, það er gott veður og er nú gamanið búið í bili og við skipum skútunni Vidar að fylgja okkur út fyrir landhelgi og við umskipum fljótt og örugglega og að lokum fá þeir 130 tómar tunnur yfir til sín.
19 – 23 ágúst Umskipun út um allt
Næstu dagar fara í stefnumót við fleiri skútur og Rudolf og Dollar fá heimsókn aftur.
Hörð sunnaátt setur strik í reikninginn og er þá legið í vari inná Sigló í næstum tvo sólarhringa. Bengt nefnir sögu um Norskar skútur sem slitnuðu upp í harðri sunnanátt í kringum 1930 og brotnuðu hér í firðinum og við það fór bankinn í Haugasundi á hausinn.
Heppni ræður því að Constance finnur síðustu skútuna „Primose“ í minni Eyjafjarðar 23 ágúst og er þá þessari umskipun úti til hafs lokið.
Um borð eru komnar 1.840 síldartunnur og er nú siglt til Siglufjarðar í síðasta skiptið til að gera upp þar og undirbúa heimför.
24 ágúst Gert klárt fyrir heimför
Við lögðum að við olíubryggjuna en þar lá þegar 8.000 tonna Rússneskt tankskip sem var að sækja lýsi. Við tókum vatn og olíu og síðan fórum við að annarri bryggju og skiluðum af okkur 95 tómum olíufötum. Bengt fer síðan með Hermansson eldri á fund hjá sænska „konsulten“ sem aðstoðar við að greiða hafnargjöld og annað með þeim peningum sem fengust fyrir söluna á olíutunnunum tómu. Bengt færir honum eina tunnu af kartöflum og vindlakassa í þakklætisskyni og konsulten býður uppá danskt ákavíti. Bengt, ungi Danski hásetinn Kaj og Osvald róa síðan á milli sænsku skútanna í firðinum og fá hjá þeim síðustu aflafréttir.
Sunnudagur 25 ágúst. Brottför
Klukkan 11.15 spásserar Bengt aftur á skrifstofu konsultens og fær hjá honum kvittanir frá hafnaryfirvöldum og tollstjóra. Ljósbrún nýtískuleg jakkaföt Bengts vekja mikla athygli á götum bæjarins. Síðan stinga Hermansson og Bengt hausum sínum inná Norska sjómannaheimilið og drekka kalda mjólk. Hermansson gefur heimilinu 15 íslenskar krónur sem hann fékk fyrir að selja íslendingi 2 sænskar munntóbaksdósir. (Snus)
Að lokum gengur Bengt upp í fjall og tekur nokkrar ljósmyndir rétt fyrir brottför kl. 16.00.
Gamli Bernhard lætur þokulúður Constance hljóma þrisvar í kveðjuskyni sem er hefð á sænskum síldveiðibátum, síðan er siglt út fjörðinn í sólskyni og blanka logni.
Eftirmáli
Siglingin hem til Lysekil gekk bærilega, smávandræði með kælivatn á mótorinn en að mestu siglt fyrir fullum seglum. Slæm suðaustan átt rak þá úr kúrs og lentu þeir í sjónmáli við Setlandseyjar sem er óþarflega langt í austur.
Tvisvar sinnum voru þeir í bráðri hættu og nálægt því að sigla á tundurskeyti en vakandi augu á útkíkkinu í stefni forðuðu því.
4 september Heimkoma og sjóriða
Bengt reynir að snyrta á sér sjóara skeggið fyrir heimkomu og þá segir Berhard: “Segðu bara við dömurnar í Lysekil að svona skegg er bara til í andlitinu á alvöru mönnum sem hafa séð blóðrautt sólarlag við Íslandsstrendur.”
Þeir vöktu mig kl. 03.30 og þá sást í vitann við Gävens og síðan var lagt að bryggju á Grötö kl. 05.00. Ég gekk í land og jörðin var öll á hreyfingu undir fótum mínum hér í Lysekil.
Eins og áður hefur verið nefnt voru 51 skúta á reknetveiðum og fjórar á snuprunóta veiðum við Ísland 1946 og var samanlagt söluverðmæti ársins 2.957.925 sænskar krónur.
Þessar skútur komu frá eftirtöldum stöðum:
- 9 frá Orust
- 11 frá Tjörn
- 16 frá Malmön – Fisketången – Gravarne – Hovnäset – Väjern
- 15 frá æðrum bæjarfélögum í Bohuslän
Þetta sýnir að eftir seinni heimsstyrjöldina komu flestir reknetabátarnir frá Orust – Tjörn og Sotenäs. Fyrir stríð komu flestir frá Orust.
Eftir 1946 til 1963 var fjöldi sænskrar rekneta veiðibáta við Ísland eftirfarandi:
1947 71 st. | 1953 79 st. | 1959 30 st. |
1948 74 st. | 1954 67 st. | 1960 12 st. |
1949 82 st. | 1955 40 st. | 1961 7 st. |
1950 45 st. | 1956 19 st. | 1962 3 st. |
1951 34 st. | 1957 20 st. | 1963 0 st. |
1952 47 st. | 1958 32 st. |
Bengt nefnir í lokin að lítið sé til af skrifuðum heimildum um þessar veiðar (1992) en hann nefnir tvær heimildir:
Olof Hasslöf: Svenska Västkustfiskarnar, bls. 143. Og K.A. Andersson: Fiskar och fiske i Norden 1954 , bls. 344.
Sagan í heild sinni er til á sænsku á Síldarminjasafni Íslands.
Aðrar sögulegar greinar og ljósmyndasyrpur eftir sama greinarhöfund er hægt að finna á siglo.is. og trolli.is.
Sjá lista hér undir:
MYNDASYRPA: SIGLUFJÖRÐUR UM 1960
SIGLFIRSK ÞAKKLÆTISKVEÐJA FRÁ ÚTLANDINU
FLUGSAMGÖNGU FRAMFARA SAGAN SEM HVARF ! “LANDIÐ ÞAR SEM ALLT ER Í HÁALOFT – INU”
DRAUMAR Í SÍLDARDÓSUM
SKANDINAVÍSK LANDLEGA Í MÁLI OG MYNDUM
Á LEIÐ TIL ÍSLANDS
100 ára afmæli! Göngutúr um heimahaga, 7 hluti, SIGLFIRSKT ! 80 myndir,greinasería
Síldin gerir lífið eitthvað svo spennandi! 1 hluti
Síldin gerir lífið eitthvað svo spennandi 2 hluti
Ferðasaga: Siglfirsk síldarsaga í Smögen og Kungshamn. 25 myndir
Minningar um síldveiðar við Ísland 1946-48.
SAGAN UM SVANINN! Síldveiðar, landlega og slagsmál o.fl. á Sigló 1935
De seglade från Tjörn…….Til SIGLÓ. (50 myndir)
PÅ VÄG MOT ISLAND…. á heimaslóðum sænskra síldveiðimanna!
Siglfirðingar, síld og sakamálasögur í Fjällbacka
Stórkostleg kvikmynd frá 1954 fundin
SILLSTULKOR I SIGLUFJORD / Sænsk myndasyrpa frá 1945
SIGLUFJORDUR er nafli alheimsins og SILLENS CLONDYKE (Myndir og myndband)
Kær kveðja.
Nonni Björgvins
LISTA YFIR AÐRAR GREINAR EFTIR JÓN ÓLAF BJÖRGVINSSON Á TRÖLLI.IS FINNUR ÞÚ HÉR.
Aðrar heimildir um síldveiðar Svía og Norðmanna við Ísland:
Drivgarnsfisket vid Island på 1900-talet
Bohuslän var landets sillcentrum
SILDEFISKET VED ISLAND (Del 1) Norsk síða.
SILDEFISKET VED ISLAND (Del 2)
Þýðing, texti og ljósmynd af bátalíkani:
JÓN ÓLAFUR BJÖRGVINSSON
Aðrar ljósmyndir: Bengt Molander og þær eru birtar með leyfi frá útgefanda.
Heimildir:
Bohuslänska fornminnessällskapet. Årsbok nr. 36 1992-1993. Bls. 79-94
Redaktion: Märtha Molander Sweddmark, Harald Torgestam, Edvard Taube.