Í gær, miðvikudaginn 20. júlí átti Gunnar Smári Helgason útvarpstjóri á FM Trölla afmæli og má með sanni segja að dagurinn hans hafi verið sjóðheitur.

Eflaust hefur það ekki farið fram hjá neinum að mikil hitabylgja hefur gengið yfir Evrópu að undanförnu og hafa Kanaríeyjar ekki farið varhluta af því.

Þau hjónin Kristín Magnea Sigurjónsdóttir og Gunnar Smári Helgason hafa dvalið að mestu leyti á Gran Canaria undanfarin ár og dvelja þá mikið í helli sínum þar, einnig hafa þau íbúð til umráða í byggð.

Kristín Magnea er stödd á Íslandi um þessar mundir og fagnar regninu á meðan Gunnar Smári hreinlega flúði úr íbúðinni og inn í hellinn vegna hita.

Þar er best að dvelja og vinna um þessar mundir, en Gunnar Smári er í mikilli forritunartörn og situr við daginn út og daginn inn. Inni í hellinum er best að dvelja því hitastigið helst frekar jafn allt árið og er yfir sumarið um 26° á meðan útihitinn er á milli 30 – 40° eins og er þessa dagana.

Í gær náði hitastigið 40° eins og veðurstöð Syðri Glaumbæjar (eins og hjónin nefna landareign sína) sýnir, en Gunnar Smári hefur útbúið þessa fínu stjórnstöð fyrir rafmagn, raka, sólarsellur, vatn og veður eins og myndirnar hér að neðan frá í gær sýna.

Gunnar Smári segir að það sé eins og að ganga á vegg þegar hann fer út úr hellinum og gerir sem allra minnst af því.

Þá er bara að vona að hitinn fari lækkandi á Kanarí og örlítið uppávið fyrir sólarþyrsta Íslendinga, þó hellisfrúin sé alsæl með rok og rigningu á Íslandi.

Gunnar Smári við vinnu sína inni í hellinum