Kammerhópurinn ReykjavíkBarokk stendur fyrir Barnamenningarhátíð-Látra-Bjög í heimabyggð sem fram fer í Árskógarskóla og í félagsheimilinu Árskógi þriðjudaginn 27. september frá kl. 8.30-13.30.

Hátíðin er ætluð grunnskólabörnum í Dalvíkurbyggð og er tileinkuð skáldkonunni Björgu Einarsdóttur.

100 börn úr Árskógarskóla og Dalvíkurskóla taka virkan þátt í hátíðinni og er hún samstarfsverkefni Kammerhópsins ReykjavíkBarokk, Dalvíkurbyggðar, Barnamenningarsjóðs og Tónlistarsjóðs.

Dagskrá hátíðarinnar sem fram fer í grennd við fæðingarstað Látra-Bjargar, í Árskógarskóla og félagsheimilinu Árskógi þriðjudag 27. september:

kl. 8.30-11.00 Listasmiðjur-Kvæðagaldur/ Orða-og hreyfigaldur/ Sagnagaldur
kl. 12.30-13.30 Tónleikhússýningin Sjókonur og snillingar

https://www.facebook.com/reykjavikbarokk/
https://youtu.be/0SI_ibO63cg
https://youtu.be/XiidiFE0hNI

Verkið Sjókonur og snillingar er byggt á sögu skáldkonunnar Bjargar Einarsdóttur og tónskáldsins Maddalena Lombardini Sirmen og var fyrst flutt á Forntónlistarhátíðinni KONA í Hljómahöll í Reykjanesbæ í nóvember í fyrra. Allar götur síðan hafa aðstandendur sýningarinnar haft hug á að fara með sýninguna á heimaslóðir Bjargar Einarsdóttur skáldkonu og kynna sögu hennar fyrir nýjum kynslóðum áheyrenda. Það er okkur sannkallað gleðiefni að loks sé komið að því!

Tónleikhúsið Sjókonur og snillingar er styrkt af Barnamenningarsjóði og Tónlistarsjóði og er samstarfsverkefni Kammerhópsins ReykjavíkBarokk, Leikfélagsins Fljúgandi fiska, tónskálda, ljóðskálda og kvæðakvenna. Verkið fléttar ævisögu sjókonunnar og ákvæðaskáldsins Bjargar Einarsdóttur, Látra-Bjargar (1716-1784) saman við strengjakvartett eftir samtímakonu hennar; ítalska tónskáldið og fiðluleikarann Maddalenu Lombardini Sirmen (1745-1818), íslenska þjóðlagatónlist, kveðskap, nýjar texta-og tónsmíðar og raftónlist. Aðalleikkona og leikstjóri sýningarinnar er Þórey Sigþórsdóttir.

Listamenn hátíðarinnar eru Þórey Sigþórsdóttir leikkona og leikstjóri, Sigurlín Bjarney Gísladóttir rithöfundur, Kristín Lárusdóttir kvæðakona og raftónskáld, Bára Grímsdóttir kvæðakona og tónskáld, Diljá Sigursveinsdóttir fiðluleikari og hugmyndasmiður, Íris Dögg Gísladóttir fiðluleikari, Anna Hugadóttir víóluleikari og verkefnastjóri, Ólöf Sigursveinsdóttir sellóleikari.


Aðsent