Þann 12. desember var síðasti tími kirkjuskóla Siglufjarðarkirkju þetta árið, enda styttist í hátíð ljóss og friðar.

Börn á öllum aldri hafa undanfarna tvo sunnudaga verið að rita nöfn sín á jólakúlur, sem svo prýða jólatré Siglufjarðarkirkju og gera það auk þess mun persónulegra en ella væri.

Þessi siður er um 10 ára gamall og á meðal nafna þar er til dæmis að finna nafn eins af fermingarbörnum vetrarins, sem ritaði á kúlu þar fyrir sjö árum síðan.Einnig voru útbúin stór, plöstuð hjörtu sem var farið með niður á Ráðhústorg, og þau sett á stóra jólatréð sem þar er.

Hér má líta örlítið sýnishorn.

Myndir/Siglufjarðarkirkja