Boðað hefur verið til ótímabundins verkfalls félagsmanna í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) sem starfa á kjarasamningi Fíh og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs.Verkfallið mun að óbreyttu hefjast kl. 08:00 mánudaginn 22. júní 2020 og vara fram til þess tíma er samkomulag um kjarasamning hefur náðst milli aðila.
Hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands starfa 121 hjúkrunarfræðingur á 17 starfsstöðvum víða um Norðurlandið frá Blönduósi í vestri til Þórshafnar í austri þar sem u.þ.b. 36 þúsund manns búa. Fyrirhugað verkfall hjúkrunarfræðinga mun hafa veruleg áhrif á starfsemi HSN en hjúkrunarfræðingar gegna mikilvægu hlutverki í heilbrigðisþjónustu, meðal annars á sjúkra- og hjúkrunardeildum, göngudeildum, heilsugæslu og heimahjúkrun.
Á heilsugæslu sinna hjúkrunarfræðingar meðal annars almennri ráðgjöf og forgangsraða erindum innan heilsugæslunnar, sinna skoðunum, sárameðferðum, saumatökum, bólusetningum, lyfjagjöfum og ýmsum rannsóknum. Í verkfalli mun þessi starfsemi annað hvort falla niður eða skerðast.
Starfsemi heimahjúkrunar á Norðurlandi skerðist verulega og starfsemi verður með lágmarksmönnun eða samkvæmt undanþágulistum. Vitjunum verður forgangsraðað.
Mönnun á hjúkrunar- og sjúkradeildum HSN verður samkvæmt undanþágulistum.
Göngudeildarstarfsemi skerðist og speglanir á Húsavík og Sauðárkróki munu falla niður.
Sótt verður meðal annars um auknar undanþágur fyrir hjúkrunarfræðinga sem starfa við að svara í 1700 símann á daginn og hjúkrunarfræðinga sem sinna landamæraskimun á Akureyrarflugvelli.
HSN mun áfram leggja áherslu á að tryggja öryggi skjólstæðinga. Verkefnum verður forgangsraðað í samræmi við það.