Matvælastofnun hvetur alla sem halda alifugla til að skrá fuglahald sitt í gegnum þjónustugáttina á vef stofnunarinnar. Skráningin er mikilvæg til að Matvælastofnun geti komið upplýsingum fljótt til fuglaeigenda ef smit greinist.

Farfuglar eru farnir að streyma til landsins. Margir þeirra, sér í lagi andfuglar, koma frá svæðum á Bretlandseyjum og við Vaðlahaf þar sem skæð fuglaflensa hefur greinst í töluverðum mæli bæði í villtum fuglum og í alifuglum og öðrum fuglum í haldi.

Hópur fagfólks metur stöðugt smithættu fyrir alifugla hérlendis. Hann telur að töluverðar líkur séu á að alvarleg afbrigði fuglaflensuveiru geti borist með farfuglum til landsins. Miklir hagsmunir eru í húfi og eru strangar smitvarnir lykill að því að koma í veg fyrir að smit berist frá villtum fuglum inn á alifuglabú.

Matvælastofnun hefur lagt til við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið að fyrirskipa tímabundnar varnaraðgerðir eftir miðjan mars. Þrátt fyrir það er rétt að allir sem halda alifugla geri nú þegar ráðstafanir til að verja fuglana sína fyrir smiti frá villtum fuglum. Allar tegundir villtra fugla geta mögulega borið fuglaflensuveiru með sér en mesta smithætta er frá andfuglum, máfum og vaðfuglum.

Almenningur er beðinn um að tilkynna til Matvælastofnunar ef villtir dauðir fuglar finnast, nema augljóst sé að þeir hafi drepist af slysförum. Best er að tilkynna með því að skrá ábendingu á vef stofnunarinnar, en líka er hægt að hringja í síma 530-4800 á opnunartíma eða senda tölvupóst á netfangið mast@mast.is. Eftirfarandi kort sýnir staðsetningu dauðra fugla sem hafa verið skimaðir fyrir fuglaflensu, ásamt niðurstöðu:

Komi upp smit í alifuglum eða öðrum fuglum í haldi skiptir öllu máli að grípa tafarlaust til aðgerða til að hindra frekari útbreiðslu smits. Skilgreind verða bann-, verndar- og eftirlitssvæði eftir þörfum þar sem sérstakar takmarkanir gilda.

Matvælastofnun vinnur að nákvæmri kortlagningu allra alifugla landsins eftir fjölda og staðsetningu. Allir sem halda alifugla (hænsnfugla, kalkúna, endur, gæsir, kornhænur o.s.frv.) eru hvattir til að skrá fuglana. Tilgangur skráningarinnar er m.a. að Matvælastofnun geti haft samband við alifuglaeigendur á tilteknu svæði ef upp kemur fuglaflensa í villtum fuglum eða í alifuglum á svæðinu. Ekki er þörf á skráningu á alifuglahaldi sem nú þegar er með leyfi stofnunarinnar fyrir frumframleiðslu matvæla.

Skráningar fara fram í gegnum þjónustugátt MAST á vef stofnunarinnar í umsókn nr. 2.35: Skráning á alifuglum. Opið er fyrir skráningar. Það er hagur allra fuglaeigenda að allir skrái sitt alifuglahald vegna aðsteðjandi hættu.