Ófært hefur verið frá því á mánudaginn til Fjallabyggðar vegna veðurs, ófærðar og snjóaflóðahættu á Siglufjarðarvegi og í Ólafsfjarðarmúla.

Verið var að hreinsa veginn um Ólafsfjarðarmúla í morgun þegar hann var settur aftur á hættustig vegna snjóflóðahættu og því mokstri hætt í bili og óvíst hvenær hægt verður að halda honum áfram.

Hættustig er vegna snjóflóðahættu á Siglufjarðarvegi og þurfti að hætta mokstri. Vegurinn er lokaður og ekki útlit fyrir að hann opni í dag.

RUV greindi frá því að snjóflóð hefði fallið á skíðasvæði Siglfirðinga, Skarðsdal í morgun, meðal annars á skíðaskálann. Ekki er vitað hversu miklar skemmdir hafa orðið.

“Þetta var ljóst þegar starfsmenn á skíðasvæðinu í Skarðsdal fóru þangað upp í morgun. Egill Rögnvaldsson, svæðisstjóri skíðasvæðisins, segist ekki vita nákvæmlega hversu miklar skemmdir hafa orðið.

Hann segir flóðið meðal annars hafa fallið á skíðaskálann og fært hann af grunninum. Þá féll flóðið á gáma skíðaleigunnar í fjallinu og snjótroðari færðist úr stað.

Egill segir þá strax hafa hafa snúið við þegar ljóst hvað hafði gerst og farið burt af svæðinu. Hann vilji helst ekki vera mikið inni á skíðasvæðinu eins og staðan er og ef von er á fleiri snjóflóðum.

Þeir hafi því ekki getað skoðað ástandið nákvæmlega en við fyrstu sýni séu skemmdirnar töluverðar”. segir á RUV.

Veðurspáin næsta sólahring er norðan og norðaustan 10-18 m/s, en sums staðar hvassara í vindstrengjum við fjöll. Snjókoma eða él norðan- og austanlands, en annars bjart með köflum.

Á föstudag og laugardag:
Norðan 13-20 m/s og snjókoma eða él, hvassast SA-lands, en skýjað með köflum og þurrt að kalla sunnan heiða. Frost víð 0 til 5 stig, en sums staðar frostlaust við sjávarsíðuna.

Á sunnudag:
Norðan 8-15 m/s og dálítil él, en léttskýjað S- og V-lands. Frost 1 til 8 stig, minnst syðst.

Á mánudag:
Norðankaldi og víða dálítil él, en austlægari syðst og líkur á snjókomu þar. Harðnandi frost.


Mynd/ af vefmyndavél Trölla

Heimildir/Veðurstofan, RUV og Vegagerðin