Siglufjörður er ekki bara þekktur fyrir síldarsöguna, heldur einnig fyrir að vera ein af snjóþyngstu byggðum Íslands.
Í minningum mínum frá barnæsku og unglingsárum, er manni sérstaklega minnisstæð erfið vetrartímabil með mikilli norðan stórhríð sem skapaði gríðarlega snjóþyngd og mikla einangrun með vegleysu og snjóflóðahættu. Verst voru líklega tímabil þar sem fleiri vikna stórhríð fór samhliða með hafís sem fyllti fjörðinn.

Ekkert komst úr eða í bæinn í kannski tvær vikur og krafturinn í norðaáttinni er gríðarlegur, eins og sést á þessari ljósmynd frá 1982.

Flestar af þessum 50 snjóþyngdar ljósmyndum er teknar á tímabilinu 1960-1980, nokkrar eru þó eldri, sérstaklega þær sem sýna snjóalög við gamla Skarðsveginn. Allar myndir eru birtar með leyfi frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar.
Fleiri myndir er að finna á ljósmyndasafninu undir leitarflokknum: “Algeng orð”: Snjór, snjóþungi og hafís.

Í barnalegum minningum fannst manni þetta frekar spennandi, nema þetta með að þurfa að klofa skafla, dag eftir dag á leiðinni í skólann, því að það var ekkert verið að moka götur fyrr en það versta var yfirstaðið.
Göturnar hækkuðu bara meira og meira og umferðarskilti voru við það að hverfa, en það skipti svo sem ekki miklu máli, því fá farartæki komust leiðar sinnar, nema t.d. sérútbúnir olíubílar, jarðýtur og snjósleðar.

Sjá meira hér af myndum af Siglfirskum vetrarfarartækjum o.fl.:
SIGLFIRSK FARARTÆKI OG ÝMIS SKRAPATÓL. 1 HLUTI. og 2 hLUTI, 135 MYNDIR

SIGLFIRSK FARARTÆKI OG ÝMIS SKRAPATÓL. 1 HLUTI. 65 MYNDIR


Bæjarlífið hægði á sér, fólk var mest gangandi eða á gönguskíðum í einhverskonar troðnum snjógöngum á götum bæjarins. Verst var ástandi oft á Aðalgötunni, sem snýr austur-vestur og norðanáttin skilaði þangað snjósköflum þar sem verslanir norðan megin við götuna vöru við það að hverfa, eins og sjá má á myndum hér neðar.

Gatan hækkaði verulega og fólk fór t.d. inn í og niður í snjógöng og nuddaði hretið af útstillingar rúðunni í Nýja Bíó, til að sjá hvað væri í boði þessa vikuna. Hillurnar í matvörubúðum fjarðarins göptu tómar eins og í rússneskum kaupfélögum og þá fór fólk að flykkjast niður í frystihólfin sín, sem það leigði í gamla góða Hrímnis frystihúsinu og grafa eftir frosnu slátri og öðru ætilegu góðgæti.

Eftir sem á leið, bættust við fleiri vandamál, eins og rafmagns- og olíuleysi og snjóflóð sem sló t.d. út hitaveitudælur, svo eitthvað sé nefnt.

Við skólakrakkarnir biðum af okkur óveðrið með spenningi, vitandi að okkar beið bæði gott skíðafæri og risastórir mjúkir skaflar að stökkva í frá húsþökum og hér var nú aldeilis hægt að byggja flott snjóhús og jafnvel líka að leika sér á stórum strönduðum ísjökum. Þegar það loksins stytti upp, þá var von okkar krakkana mikil um að fá kannski einn dag í skólafrí, með því að standa úti í frímínútum í snjósköflunum á skólabalanum og syngja fyrir skólastjórann:

Meistari Hlöðver! Gefðu okkur frí. “myndasyrpa”

Myndaalbúm 1: Götulífsmyndir

ATH. Smellið á myndir og þær birtast ykkur stærri.

Snjóleikir

Nýfallin snjór er mjúkur og gott að lenda í honum þegar þegar maður stekkur frá hústökum, hins vegar getur verið falinn hætta í að stökkva einn frá 20 metra háum lýsistanka við Mjölhúsið, eins gott að hafa alltaf með sér aðstoðarfólk til að grafa mann upp. Ég minnst þess einnig með hryllingi, að fyrir tilviljun sá ég tvo æskuvini stökkva fram af skemmutaki sem var sunnan við gamla frystihúsið og bak við Æskulýðsheimilið. Sat í eldhúsinu með afa Pétri á Vetrarbrautinni og sé guttana hoppa, en líka að strax þar á eftir kemur gríðarlegt magn af snjó sem losnaði af skemmuþakinu á eftir þeim og þeir hverfa hreinlega.
Ég stekk upp og við afi kölluðum á hjálp frá góðum körlum úr tækjasal frystihússins og grófum fleiri metra af snjó ofan af strákunum, þeir hefðu líklega ekki fundist fyrr en snjóa tók að leysa ef ég hefði ekki fyrir algjöra tilviljun séð hvað gerðist.

En að mestu voru snjóskafla leikir okkar hættulausir og það var einnig mikil metnaður að búa til risastór snjóhús í hæfilegri fjarlægð frá snjóruðningstækjum bæjarins.

Myndaalbúm 2. Snjóleikir og skaflar

ATH. Smellið á myndir og þær birtast ykkur stærri.

Hafís og ísjakar

Þegar fjörðurinn fylltist af hafís minnist ég að því fylgdi oft mikill kuldi og í vetrarstillunni heyrðust einkennileg óhljóð þegar jakarnir nudduðust saman og brutu jafnvel bryggjur. Strandaðir stórir ísjakar í Hvanneyrarkróknum urðu strax mikil leikvöllur fyrir krakkana úti í Bakka, sem jafnvel grófu fram bárujárns kajakana sína og sigldu kringum ísjakana um miðjan vetur. Við krakkarnir í suðurbænum fengum sjaldan til okkar svona stóra ísjaka.

Myndaalbúm 3. Hafís og ísjakaleikir

ATH. Smellið á myndir og þær birtast ykkur stærri.

Ís og krap tímabil

Snjónum sem mokað var til hliðar við götur og torg, breyttist seinna meir í ís og krap. Göturnar voru vart aksturs eða gönguhæfar. Frosin djúp hjólspor voru eins járnbrautarteinar, erfitt að mætast og beygja upp úr þessum frosnu sporum. Um vorið bráðnaði þetta hægt og rólega, en vatnið komst ekki neitt, því allir götubrunnar voru undir klakalögðum götum. Í rauninni ekki mikið annað hægt að gera en koma með stórar vinnuvélar og hreinlega grafa upp götur og losna við ís og krapa á vörubílspöllum sem sturtuðu þessu krapavandræðum í sjóinn. Ekki af ástæðulausu að mikil vinna og fjármagn var lagt í steinsteyptar götur sem þoldu svona þung snjóruðningstæki.

Gamli malarvöllurinn og sjálft Ráðhústorgið eru ágætis dæmi um “snjógeymslu svæði”. Minnist knattspyrnu æfinga í ís krapadrulluleðjusvaði og þetta var alveg ferlegt tímabil fyrir mig sem markvörð. Mamma sat fyrir mér þegar ég kom heim og bannaði mér að koma inn í forstofu, rak mig beina leið niður í kjallara og þar var spúlað af manni versta drullan. En svona var lífið heima á Sigló og ég man ekki til þess að fólk hafi verið mikið að klaga og barma sér yfir þessu ástandi.

Myndaalbúm 4. Ís og krap dagar

Smellið á myndir og þær birtast ykkur stærri.

Allskyns vandræði með olíu, rafmagn, hitaveitu, snjóflóð og fl.

Það fylgdu ýmis vandræði með langvarandi snjóþyngdartímabilum og kuldaköstum, sem gátu haldið bænum í hálfgerðu neyðarástandi. Eitt var t.d. að fyrir hitaveitu, að það var nú ekki beinlínis auðvelt að koma olíu í hús á Hverfisgötu og Háveg. Fyrsta myndin hér neðar sýnir ástandið á norðuhluta Hverfisgötu og næstu myndir þar á eftir, sem líklega eru ekki teknar sama ár sýna vel þessi snjóþyndar vandræði. Stór og þungur olíubíll með drif á öllum fær hjálp frá jarðýtu við að koma olíu í hús.

Myndaalbúm 5. Snjóþyngdarvandræði

Smellið á myndir og þær birtast ykkur stærri.

Ísilagðar síma og rafmagnslínur slitnuðu og stóð þá faðir minn oft langar vaktir í vararafstöðinni. Að lagfæra slitnar háspennulínur uppi í Skarði hlítur að hafa verið gríðarlega erfið og hættuleg vinna.

Eftirminnileg snjóflóð fylgdu líka með snjóþyngdar vikum og vert að að minnast á að þrátt fyrir að hitaveita væri komin í öll hús og fólk losnaði þá við ofannefnd olíuvandræði. Þá féllu snjóflóð að mig minnir einu sinni eða tvisvar á dæluhús hitaveitunnar í Skútudal. Man að faðir minn gat þá tengt aftur olíufýringuna heima á Hafnartúninu, held nú reyndar að margir bæjarbúar hafi verið búnir að losa sig við sína heima kyndiklefa. Þetta var alveg ferlegt óvissu ástand og lagaðist ekki fyrr en byggð voru einhverskonar átta hyrnt kjarnorkubyrgi yfir dæluhúsin í Skútudal sem kljúfa snjóflóð sem þar falla.

Mér er einnig minnisstætt að æskuvinir mínir við Suðurgötuna fengu tvisvar á sig snjóflóð, flóðið fór bæði yfir og hreinlega í gegnum húsið, en guði sé lof urðu engin slys á fólki. Þessi fjölskylda flutti skömmu seinna til Vestmannaeyja og misstu hús þar í gosinu veturinn 1973.

Á myndinni hér fyrir ofan má sjá tveggja hæða hænsnahús eftir stórt snjóflóð, þarna bjuggu um og yfir 300 hænur minnir mig og strákurinn fyrir miðri mynd er ég sjálfur, 10 – 11 ára, með Nönnu Franklín húfu og tóman strigapoka í hendinni. Við guttarnir vorum settir í það að safna saman dauðum og slösuðum hænum, sem lágu blóðugar um víðan völl í alhvítum snjónum. Hræðileg minning um þetta snjóflóð sem tók samtímis Leikskálahúsið sem stóð þarna í fjallshlíðinni aðeins sunnar, hluti af því húsi fór alla leið niður í fjöru.

Það var einnig mikill missir þegar að snjóflóð tók skíðalyftuna okkar á Hólssvæðinu, en hún hafði þá nýlega verið flutt norðar vegna snjóalaga. Það var merkileg upplifun að sjá kröftug stálmöstur lýta út eins og snúinn mjúkan lakkrís. Eftir þetta hófst ný og glæsileg uppbygging á skíðasvæði í Skarðinu og lentu þá Siglfirðingar enn og aftur í vandræðum þar vegna snjóflóðahættu.

Myndaalbúm 6. Vegavandræði og fl.

ATH. Smellið á myndir og þær birtast ykkur stærri.

Það er merkilegt að hugsa til þess að Siglufjörður, þessi mikli og mikilvægi síldarbær, hafi ekki verið í vegarsambandi við umheiminn fyrr en Skarðsvegurinn opnaði 1946. En ekki má geyma að Skarðsvegurinn var yfirleitt lokaður vegna snjóþyngdar um 8 mánuði á ári. Hálf óskiljanlegt hvernig jarðýtustjórar fóru að Því að finna veginn undir þessu snjófargani sem sést á myndunum hér undir.

1967 opnast Almenningsvegurinn gegnu Strákagöng og braut sá vegur að vissu leyti vetrareinangrun Siglufjarðar, en þetta er hrikalegur vegur og oft illfær af ýmsum ástæðum.

Margir Siglfirðingar minnast eflaust vetrarferðalaga að sunnan og þeim kvíða sem því oft fylgdi um að komast síðustu 25 km frá Ketilás og heim á Sigló. Það var t.d. oft mjög erfitt að komast upp og niður gamla Mánárskriðuveginn.

Þessi vegarkafli er gott dæmi um að Vegagerðin var oft á tíðum ekki mikið að hlusta á viðvaranir staðarkunnugra um snjóalög o.fl. Sú mikla umræða sem hefur skapast undanfarinn ár um ástandið á veginum um Almenninga vekur líka upp áminningar um að ýmsar aðrar hugmyndir voru mikið í umræðu á síðustu öld. Eins og t.d. vegur og göng frá Fljótum í Hólsdal.

Að lokum

Annað frægt og kostnaðarsamt dæmi um mikilvægi þess að hlusta á viðvaranir staðarbúa um snjóþunga, kemur úr sögunni þegar stálgrindar Mjölhúsið stóra var reist 1945. Þetta var á þeim tíma stærsta bygging Íslands og var upprunalega reist með tvískiptu burstarbæjarþaki. Húsið snýr á lengdina í austur/vestur, þvert á norðanáttina og er svo stórt að það breytti veðurfarinu á eyrinni. Burstaþakið safnaði að sjálfsögðu í sig svo miklum snjó að það hrundi sinn fyrsta vetur, undan sögufrægum snjóþunga Siglufjarðar.

Sjá fleiri myndir hér:

HRUN OG BRUNI – Myndasyrpusaga

Höfundur samantektar:
Jón Ólafur Björgvinsson .

Sjá meira söguefni eftir sama höfund hér:
https://trolli.is/author/nonni/

Forsíðu ljósmynd:
Steingrímur Kristinsson.
Ljósmyndir eru birtar með leyfi frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar.