Sögulok: 60 kg af sunnudögum o.fl.

Þrátt fyrir að loka bindi þessarar þriggja bóka sögu séu heilar 615 blaðsíður, þá greip mig söguloka angist á bls. 588. Þarna á lokametrunum byrjar sönn Siglfirsk sorgarsaga. Það er framið pólitískt mannorðsmorð.
Ég græt sem lesendagestur með Gesti, en sorg og reiði getur líka sameinað fólk af ólíkum uppruna og jafnvel límt saman brotna ást, því í sorginni mætumst við svo hreinskilinn, berskjölduð og nakin, en sum orð munu aldrei, aldrei verða gleymd… eða fyrirgefin.

Frásagnar snilldin liggur í að höfundurinn Hallgrímur, notar og misnotar aðalpersónuna Gest. Hallgrímur er oft svo harður höfundar húsbóndi, að sem lesenda, finnst manni oft, að það hálfa væri nóg.

Annarsslagið lætur hann samt Gest detta um stundarsakir í hamingju drullupoll, en svo er fótunum kippt undan Gesti og lesendum aftur og aftur, þegar hann rennur til á síldarplansslori lífsins. Sem hlutlaus og saklaus lesandi, vorkennir maður aumingja Gesti. Maður vill helst ekki leggja frá sér bókina, eða skilja við hann í aumu ástandi.

Við þekkjum okkur öll í hans vandræðum, hamingju og óhamingju og þetta gengur svo langt að manni hreinlega langar að klífa inn í söguna sjálfur og taka utan um hann og hrista blíðlega og segja:

Gestur minn, er ekki komin tími til að þú verðir alvöru manneskja?

Það verður einnig mjög svo augljóst í lokabindinu að Hallgrímur berskjaldar sig, lánar Gesti mikið úr sínu eigin lífi og lífsreynslu. Hann spyr sjálfan sig og okkur öll stórra spurninga:

Hver er ég?
Hvað er það, sem hefur skapað minn persónuleika og lífssýn?
Er ég bara fórnarlamb ytri áhrifa og óboðinn gestur í mínu eigin lífi?

Kemur hamingjan bara mín til mín á sunnudögum?
Þegar ég er í fríi frá lífsvandræðum mínum, þá og bara þá, ræð ég mér sjálfur, í sæluvímu eftir að hafa borðað 60 kg af súkkulaði. Nei, líklega erum við öll miklu meira formuð af öllum þeim ástarsorgum, svikum og mótlæti sem líf okkar bíður upp á aldeilis ókeypis.

Þá svo sjaldan, sem við þorum að líta til baka og horfa í okkar eigin lífsspegill með heiðarlegum, krítískum og sanngjörnum augum, með angist og eftirsjá. Þá og bara þá, sjáum við okkar eigin synd, áttum okkur á, að það er oftar en ekki erfiðara að fyrirgefa sjálfum sér ljótar ástarsorgar og hefndarhugar hugsanir, en þeim sem sviku þig.
En sátta/hefndar leitar-sexið, sem stundum fylgir með í svoleiðis hugsanaferli, er samt æsandi og oft hættulega spennandi.

Hugur minn dregst inn í hugsanir um aðrar bækur og þeirra frásagna stíl, þar sem sögumaðurinn og hin raunverulega aðalpersóna sögunnar stígur oft á tíðum til hliðar. Rétt eins og okkar Gestur og honum mun STÆRRI menn og málefni, fá skyndilega mikið pláss sem stórir áhrifavaldar í söguþræðinum, en Hallgrímur er ekkert að fela það að hann lánar sögur og hugmyndir frá öðrum. Bæði úr skáldsögum og raunverulegum atburðum, sem og stórbrotið og sögulegt umhverfi Siglufjarðar. Því stór saga og stórir karakterar, þarfnast stórbrotins umhverfis.

T.d. kemur nú til sögunnar stór og mikill Besserwisser, Ómar “Síldarson”, sem í annarri frægri sögu heitir Íslands Bersi, en í raunveruleika síldarævintýrasögu Siglufjarðar heitir hann: Síldarkóngurinn Óskar Halldórsson.

Glímdi oft um frægð og fé,
fann og missti gróðann,
fjórum sinnum féll á kné
en fimmtu lotu stóð hann.

(Höfundur: Sigurður Þórðarson)
Sjá meira hér: 

Úr handraða Guðsgjafarþulu.

Þessi STÓRI maður, gerir aðalpersónuna Gest að ritstjóra Segulfjarðar fréttablaðsins og aftur sjáum við Hallgrím sjálfan í Gesti, sem nú hefur til sýnis fengið eigið ritstjórnarvald í sínu eigin lífi og sögu. En þetta svokallað orðaskrifastarf, gerir samt ekki Gest að góðum rithöfundi eða skáldi, þrátt fyrir góða og fallega rithönd og þrotlausar æfingar.

Nei, lífið er ekki búið að berja hann nægilega mikið og hann fær oft skít og skömm fyrir að birta eigin orð, sem og annarra manna teóríur, skáldskap og níðskrif.

Engum á Íslandi er leyfilegt að verða óbarið skáld, því sjálfskipaðir kóngar og biskupar, sem eiga sannleika sögunnar og orðsins, munu láta þig vita, að svona barnalegt óþroskað orðaforðasíldarslor, er ekki æskilegur lestur fyrir viðkvæm alþýðuaugu hins heilaga bókmennta lands. Punktur, basta, amen…

Samt er oft mikil sannleikur falinni í góðum lygasögum og gárunga bröndurum.
“Gróa á Leiti” er oft alveg óvart kosin, besta og mest selda skáld Íslands, en kemst þrátt fyrir það aldrei á metsölu listana.

Þarna sýnir Hallgrímur okkur að við sjálf og ekki síst stórskáld, erum miklar efasemdarmanneskjur, stjórnumst mikið af okkar eigin efa og angist um að duga… það er virkilega erfitt að vera nægileg/ur fyrir okkur sjálf og aðra.

Sögu Vefarinn Mikli og Sjálfstætt Fólk Segulfjarðar

Auðvitað les hver og einn sögur með sínu nefi, en við skulum muna að við lesum öll með uppsöfnuðum lífs skoðunum og jafnvel óvart áunnum gömlum fordómum. Hallgrímur er snillingur í að ögra hugsunum okkar, fá okkur til að efast um okkar eigið ágæti, þegar við þekkjum okkur sjálf, í bæði góðum og slæmum óæskilegum hvötum, skoðunum og óeðli sögupersónanna sem hann skapar.

Það skal viðurkennt að þessi þriggja bóka saga hefur haft veruleg áhrif á mig sem manneskju og sem brottfluttur Siglfirðingur, sem í heimþrá sinni og útlegð í útlöndum, vill gjarna sjá sína Siglufjarðar barnæskueyri, í hillingum blárra fjalla í góðu veðri.

Þessi 3 X 60 Kg = 180 kg samanlagða saga, hefur þvingað mig til að sjá mína eigin ævisögu og jafnvel mitt eigið PÓLITÍSKA UPPELDI Í SÍLDARLAUSUM SÍLDARBÆ í öðru og nýju ljósi.

Hallgrími tekst hér að vefa saman risastóra og mikla þjóðar þroska þjóðsögu, í einstakri og sögulegri umgjörð. Þessi lestur skilur eftir sig bæði saltsár og gott bragð, en einnig svona AHA upplifun:

Ég held bara svei mér þá, að ég hafi verið að klára að lesa nýtt HEIMSBÓKMENNTA listaverk.

Það er oft þannig með slík verk að þau þurfa rétt eins og síldin að fá að liggja í hugsanatunnum heimsins um tíma og sjúga í sig orðakryddið, áður en hún fær á sig viðurkenningar stimpil matsmanna, sem HÁ-gæðavara.

Söguumhverfið Segulfjörður, er skapað upp úr merkilegu grauti af allra þjóða kvikindum og að fluttu alifarfugla íslensku fólki, í leit að nýrri lífsbjörg og hamingju í einangruðum faðmi hárra fjalla.

Sjaldséð hámenntað fólk, eins og t.d. prestar og læknar sem eru sendir þangað nauðugir, ílengjast samt og verða hálf skrítnir, gera mest annað en það þeim er ætlað að gera út frá þeirra upprunalegu starfslýsingu.

Hallgrímur notfærir sér sannar sögur af þessu fólki og hann hefur svo sannarlega tekið til sín hugsanaháttinn og gálgahúmorinn, sem þessi sjálfstæði Segulfjarðarþjóðflokkur skapar. Í leit sinni að einhverskonar eigin persónuleika og stöðugleika í þessum ört breytilega firði.

Gárungar bæjarins búa til skondin viður- og uppnefnis orð á menn, hús og málefni. Fyndnar “prent-brelli-villur” birtast óvart og meðvitað í t.d. vísum, bæjarrevíum og blöðum.

Þessi síldarslors bæjarhola á norðurhjara veraldar, útnefnir sjálfan sig sem höfuðborg hins nýja Íslands, með stórborgaralegu skipulagi. Allt er stærst og best á Segulfirði, torg, kirkja og Bíóhús, svo eitthvað sé nefnt.

Nýja Bíó. Var lengi vel stærsta kvikmyndahús Íslands. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Stórmennskubrjálæði Siglfirðinga, gengur meira að segja svo langt og því er haldið fram “í fullri alvöru” að um og yfir 50 % núlifandi Íslendinga séu búnir til og kynbættir samtímis, af útlenskum síldarsjómönnum, í ástarleikjum upp í Fanneyrarskál, á síldarárum Segulfjarðar.

Gárungarnir á Sigló/Segló hafa sagt að klókur ónefndur prestur, sem var nýkominn í þetta einkennilega lygilega umhverfi, hafði brugðið við, þegar hann heyrði þessar stærðfræðilegu staðhæfingu staðarbúa:

“Já, sem sagt: Siglfirðingar eru fleiri en Íslendingar?

Þó ekki væri nema út frá þessum ofannefndum “staðreyndum”, mælir undirritaður eindregið með því að allir Íslendingar sem kunna að lesa, gefi sér tíma til að lesa sjálfir eða hlusta á STÓR-skáldið Hallgrím Helgason lesa þessa merkilegu Íslandssögu.

Því þessi 3 X 60 kg, eru svo sannarlega ættarsögur allra núlifandi Íslendinga!

P.S.. Þriðja bókin, 60 kg af Sunnudögum endar 1932 og þar með erum við lesendur skildir eftir í von um meira, því blessuð síldin sagði upp vinnunni og lét sig formlega hverfa 1968. Kannski kemur “Seasong 4” seinna, þegar búið er að gera minnst 3 x 10 sjónvarpsþætti úr þeim þremur sögum sem nú þegar eru komnar. Bókarkápurnar þrjár, eru í grunnlitum regnbogans og gefa í skyn að minnst einn litur sé eftir.

Hver er sá veggur víður og hár
veglegum settur röndum:
gulur, rauður, grænn og blár
gjörður af meistarans höndum

(Höfundar munaðarlaus, vel hugsuð og þekkt íslensk, orða leikja saga/vísa)

Sjá meira hér um fyrri bækur sögunnar, en þar segir meðal annars:

Í upphafi var hákarl og síðan kom síld… gerist ekki betra.

Siglfirsk þakklætiskveðja frá Útlandinu

&

Höfundur:
Jón Ólafur Björgvinsson .

Sjá meira söguefni, (yfir 170 greinar o.fl.) eftir sama höfund hér:
https://trolli.is/author/nonni/

ATH: Allar ljósmyndir eru birtar með leyfi einkaaðila og frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar. Þessar ljósmyndir hafa birst áður í greina flokknum “Göngutúr um heimahaga” á sigló.is.

Sjá meira hér:

Göngutúr um heimahaga, 7 hluti, SIGLFIRSKT ! 80 myndir