Maðurinn á forsíðumyndinni, sem stendur stoltur við flottu skellinöðruna sína, hét Guðmundur Pálsson, verkamaður og sjómaður (f. 25 mars 1914, d. 28 okt. 1975) en hann var ætíð kallaður Gvendur í Bænum, á mínum barnæsku árum heima Sigló. Hann er með eindæmum eftirminnilegur karakter og til eru margar merkilegar sögur af honum og verður hér neðar minnst á nokkrar af þeim.

Forsíðu ljósmyndin er fengin að láni úr grein sem Siglfirski sögumaðurinn Leó Ólason skrifaði um minningar varðandi ferðalag sitt sem smágutti, frá ömmu sinni upp á Hverfisgötu og niður undir Hafnargötubakkann með kleinur í poka, sem hann vildi gefa Gústa Guðsmanni, en þar nefnir Leó að hann hafi mætt Gvendi í Bænum á reiðhjóli og segir að hann sé á þessum tíma hálfhræddur við karlinn:

Þegar ég ætlaði yfir Suðurgötuna fyrir sunnan Bakkabúðina, sá ég að það kom maður hjólandi neðan úr bæ. Ég vissi að þessi maður var kallaður “Gvendur í bænum” og einhvern tíma hafði ég heyrt að hann ætti annað hvort riffil eða haglabyssu nema það hafi verið hvoru tveggja...

… Það var ekki fyrr en löngu síðar að ég vissi að þetta var fínasti karl og ekki nokkur ástæða til að vera neitt smeykur við hann.

Hérna er Leó í sínum barnalegu minningum að ýja að orðrómnum, sem fór oft um bæinn að Gvendur í Bænum gat, rétt eins og Gústi Guðsmaður, verið nokkur “SKOTGLAÐUR” og átt það til að skjóta úr riffli á allt og ekkert innan bæjarmarka.

Sjá meira hér um Gústa Guðsmann og kleinurnar:

Gústi og kleinurnar


Sjálfur hef í í annarri eigin sögu um “Undraheim bryggjuguttana heima á Sigló“, minnst á Gvend í Bænum með Þessum orðum:

Fyrir framan Langa Gráa síldarbrakkann sést í lítinn skúr sem Gvendur í Bænum átti afdrep í og létum við hann alveg eiga sig, því Gvendur var alltaf svo góður við okkur og hjálpaði okkur að lagfæra reiðhjól og skellinöðrur í öðrum skúr við íbúðarhúsið sitt uppá Laugarveg.” 

ATH. Smelltu á mynd og hún birtist þér stærri.

Gonnan mín!

Á Síldarminjasafni Íslands er varðveitt svokölluð bátaskúffa, sem tilheyrði lita trilluhorninu hans Gvendar í Bænum og þar segir eftirfarandi í texta við mynd á Sarpur.is:

“… Hann talaði alltaf um ,,gonnunasína og átti þá við litla bátinn sem hann gerði út í dagróðra. Samkvæmt Íslenskri orðsifjabók, 1989 merkir orðið gonna: ,,skip (8-20 lesta eða meir). Orðið virðist hálfgert lastyrði, haft um fremur stóran og klunnalegan bát. Uppruni óviss.” (1989:269). Gvendur hefur líklegast notað gælunafnið gonna um litla bátinn sinn sem öfugmæli. Eins og sjá má á skrúfunni hefur báturinn ekki verið stór. Skrúfan er af minnstu gerð. Njörðu Jóhannson, bátasmiður á Siglufirði hefur skoðað gripinn og gat bætt þeim upplýsingum við að afi hans hefði lagað bátsskrúfuna til...”


Reiðhjól og skellinöðrur voru hans líf og yndi

Ég minnist þess að sem 7-8 ára smágutti að þá fór ég í mína fyrstu heimsókn í verkstæðisskúrinn hjá Gvendi. Sjálft íbúðarhúsið, Laugarvegur 3, sem þá þegar, var orðið nokkuð gamalt og slitið, stóð neðan við götuna, en það var gengið inn í garðinn frá Vennastíg.

Bankaði og Gvendur kom til dyra íklæddur gallabuxum og svartri skyrtu og peysu UNDIR skyrtunni, en þannig var hann oft klæddur. Hann kom strax út og gekk haltrandi með mér yfir í viðgerðaskúrinn og hjálpaði mér að stytta reiðhjólakeðju og skellti henni síðan á hjólið mitt líka með bros á vör. Síðan spjölluðum við mikið um allt mögulegt forvitnilegt fyrir börn sem var þarna í þessum skúr, allskyns verkfæri og reiðhjóla dót og 3 – 4 flottar skellinöðrur í heilum og hálfum pörtum. Það getur verið að mér misminni, en þarna hékk einnig undir rjáfrum í skúrnum, flottur lítill bátur.

Á barnæskuárum mínum í suðurbænum leitaði ég oft til Gvendar með ýmisskonar reiðhjólavandræði, en hann lést áður en ég náði að komast á skellinöðrualdur. Átti mér samt eldri skellinöðru vini sem fóru oft í viðgerðarvandræðum sínum til Gvendar og hann tók alltaf vel á móti öllum.

Í spjalli við góða Laugarvegs vinkonu, minntist hún með hlýju á margar góðar reiðhjóla viðgerðastundir hjá Gvendi í Bænum og hún sagði mér að þegar mamma hennar var að útbúa slátur á haustin, þá vildi hún alltaf leggja undan nokkra sláturkeppi og svo skrapp hún með þá í heimsókn til karlsins og þakkaði honum kurteislega fyrir reiðhjóla viðgerðir sumarsins.

Þetta var nokkuð algengt, margir suðurbæjar nágrannar, fóru í heimsóknir og gáfu honum smágjafir, því okkur þótti mjög svo vænt um þennan mann.


Þessi Vennastígs skúr, reiðhjól og skellinörður voru hans líf og yndi og ég minnist þess vel hversu barngóður hann var, kannski vildi hann einfaldlega sjálfur vera barnasál… í fullorðnum líkama.

Eftir að móðir hans lést, (1964) bjó hann þarna einn til æviloka minnir mig og mér er það minnisstætt að garðurinn var í mikilli órækt og húsið var umkringt risavaxinni hvönn, það sást vart í þetta gamla litla bárujárnshús frá Laugarveginum.

Bryggjuskúra sumarbústaður

Við suðurbæjarguttar vorum lengi vel með einhverskonar bryggjuleikja aðalbækistöð í Langa Gráa síldarbrakkanum. Þar beint fram af, var áðurnefndur bryggjuskúr Gvendar í Bænum og það kom fyrir að við heyrum skyndilega skothvelli og sat karlinn þá utan við skúrinn og skaut á rottur sem voru að þvælast í fjöruborðinu við Svarta skúrinn, eða svo skaut hann á gamla bryggjustaura, sér til leiks og ánægju og hann var alveg djöfullega hittinn.

Þessi skúr var eins og “bryggju sumarbústaður” fyrir karlinn og við settumst oft hjá honum og spjölluðum við hann. Í skúrnum voru veiðarfæri fyrir gonnuna hans og allskyns dót, sem hann hafði safnað að sér og rámar mig í t.d. hákarla kjálka með stórum beittum tönnum.

Smá saman eyðilögðust bryggjurnar þarna meira og meira og að lokum var einungis eftir lítil örmjó brú, yfir á bryggjuskúra eyjuna hans Gvendar í Bænum.


Fjórar skotgleði sögur af Gvendi í bænum

1. Færeyingar

Hér áður fyrr komum á hverju sumri slatti af Færeyskum bátum, sem stunduðu strandveiðar með söltun um borð, þetta voru allt saman hinir mestu rólegheita og indælismenn, sem höfðu gaman af að fá börn í heimsókn í sínum helgarlandlegum og fór maður oft frá borði með fulla vasa af beinakexi.

ATH. Smelltu á mynd og hún birtist þér stærri.

Sagan segir að Gvendur í Bænum hafi séð 3-4 Færeyinga fara um borð í trilluna sína, líklega voru þeir bara að reyna að færa hana til, til þess eins að geta lagt til við bryggjuna. Gvendi líkar þetta ekki og skýtur nokkrum riffilskotum að þeim og flýja þeir þá frá borði í ofboði og þeim lá víst svo mikið á að einhverjir af þeim misstu af sér skóna sína og eignaðist þá Gvendur nokkur Færeysk tréklossa pör.


2. Pækilfötur með götum!

Önnur saga segir að einhverju sinni hafi Gvendur verið að læðipúkkast með riffilinn sin við Hafnargötubakkan, sá hann þá ónefndan mann ofan við síldarplan, berandi tvær stórar fötur fullar af saltpækli og hann bara gat ekki stillt sig og skaut hann gat á báðar föturnar. Fórnarlambið náði aldrei að átta sig á því af hverju föturnar urðu skyndilega míglekar.


3. Vindill í kjafti!

Þetta er alveg svakaleg sjokkerandi saga, sem minnir einna helst á söguna um Wilhelm Tell og lásabogaskotið skotið hans fræga í epli á hausnum á syni sínum.

Hér ber ekki heimildum alveg saman varðandi hver var fórnarlamb Gvendar skotglaða. Flestir hafa þó sagt mér söguna svona:

Þórður Á Nesi / í Hrímni , stóð á bryggjuspjalli á ónefndum stað með góðum vini, með stóran vindill í kjaftinum. Gvendur í Bænum læðist að þeim félögum og gerir sér lítið fyrir og skýtur vindilinn úr kjaftinum á Þórði. Sagan segir að þegar þórður hafi áttað sig á því sem gerðist hafi hann orðið ansi skjálfhentur.


4. Köttur og spyrðuband

Gunnar Trausti Guðbjörnsson (sonur Binnu Jóns á Túninu) minnist Gvendar í Bænum með þessari skotgleðisögu 2012:

Skytta, veiðimaður og þúsundþjalasmiður. Gerði oft við hjólið mitt. Haltur með hjarta úr gulli.

Eitt sinn bað Ásta systir Gvendar, Guðbjörn son sinn (Bubba Haralds) að líta við hjá bróður sínum og vita hvort hann þyrfti ekki að láta hlaupa í búðina fyrir sig, því það var allt á kafi í snjó. Þegar Guðbjörn og vinur hans bönkuðu upp á hjá Gvendi, var hann með riffilinn við hendina.

Í miðju samtali um mjólk og brauð, skýtur hann yfir hausinn á þeim. Þeim var brugðið félögunum, en þegar að var gáð, hafði hann skotið niður spyrðuband, sem kötturinn hans var að reyna að krækja í, en spyrðan hékk uppi í staurum í garðinum hans Jóa Gara.

ATH. Jóhann Garibaldason og fjölskylda bjuggu þá í húsinu beint fyrir neðan Gvend, við Hafnargötu 20.

Jóhann Garibalda. Ljósmyndari; Kristfinnur Guðjónsson.
Eftirvinnsla og samsett mynd: Steingrímur Kristinsson.

Mér vitanlega varð aldrei lögreglumál úr neinum af þessum skotgleði sögum af Gvendi í Bænum.

Gvendur tók einnig lengi vel að sér að lóga köttum o.fl. fyrir bæjarbúa, samt held ég að blessaður karlinn hafi samt í rauninni verið hin mesti dýravinur.


Að lokum, nokkur orð um að skjóta sér til matar!

Gvendur hafi ekki langt að sækja þessa skothæfileika og auðvitað kemur þetta frá þeirri tíð er menn voru að skjóta sér til matar og vitna ég hér í brot úr “Spjallað við burtfluttan Siglfirðing – Sigurður Konráðsson” og við skulum hafa í huga að byssueign, var hér nokkuð algeng hjá varla fermdu fólki heima á Sigló.

Menn þurftu að hafa meira fyrir hlutunum í þá dagana og það mátti til dæmis ekki sjást selur koma inn á fjörðinn svo ekki væru komnar fjórar eða fimm trillur af stað til að reyna að ná honum. Ég man eftir skemmtilegri sögu af Páli í bænum sem var faðir Gvendar í bænum, en líklega muna fleiri eftir honum nú orðið. Hann var þá orðinn fjörgamall maður og átti jafnvel erfitt með að komast leiðar sinnar með góðu móti, en þá sást selkópur koma inn á pollinn. Sá gamli hljóp þá fram bryggjuna eins og unglingur og tók undir sig stökk ofan í trilluna, svo mikill var veiðiáhuginn.

Í þá daga veiddu menn sér til matar en ekki upp á neitt sport, síðan var allt saman ýmist étið eða gefið þeim sem minna höfðu.

Sigurður nefnir einnig ýmislegt annað áhugavert, en hann ólst upp í næsta nágrenni við Gvend í Bænum:

Ég er fæddur árið 1943 við Hafnargötuna á Siglufirði og ólst upp á bökkunum fyrir ofan iðandi mannlífið á síldarplönunum við Snorragötuna. Ég hafði strax á barnaskólaaldri mun minni áhuga á leikjum og ærslum með jafnöldrum mínum, en algengt var, en fannst þess í stað fátt meira spennandi en að fá að fara með Kidda bróður og frændum mínum Óla og Pétri til skotveiða. Árin liðu og veiðihvötin gerði ekkert annað en að ágerast.

Gústi Guðsmaður bjó á þessum árum í gráa brakkanum á syðsta planinu þar sem ég var seinna með trésmíðaverkstæði. Stundum heyrðust skothvellir inni á Leirunum þegar kvölda tók og margar húsmæður í suðurbænum voru ekki mjög sáttar við það.

Þegar einhver þeirra kenndi okkur um að hafa verið þarna á skytteríi, bentum við auðvitað á Gústa sem allir vissu að var með byssuglaðari mönnum og sú skýring var yfirleitt tekin gild.”

Eða svo var þetta kannski bara Gvendur í Bænum að skjóta á gamla yfirgefna bryggjustaura.

Mér er það einnig mjög svo minnisstætt að á bryggjugutta rölti, gat maður oft rekist á einn og annan smá hvala sporð eða ugga, á bryggjunum sem menn höfðu skotið sér til matar og þá tók maður þá fram vasahnífinn og skar út úr brjóskinu skopparabolta, sem létu ekki vel að stjórn.


Höfundur samantektar:
Jón Ólafur Björgvinsson .

Sjá meira söguefni eftir sama höfund hér:
https://trolli.is/author/nonni/

Forsíðu ljósmynd:
Ljósmyndari: Óskar Garðarsson.
Aðrar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá eigendum og Ljósmyndasafni Siglufjarðar.

Heimildir:
Vísað er í ýmsar heimildir gegnum vefslóðir í greininni.