Opnað hefur verið fyrir umsóknir um stuðningslán á Ísland.is. Stuðningslán eru hluti af viðspyrnuaðgerðum stjórnvalda og er ætlað að styðja við smærri og meðalstór fyrirtæki sem orðið hafa fyrir miklu tekjufalli. 

Stuðningslán getur numið allt að 10% af tekjum fyrirtækis á rekstrarárinu 2019 en lán til hvers fyrirtækis getur að hámarki numið 40 m.kr. Full ríkisábyrgð er veitt upp að 10 m.kr. og 85% ríkisábyrgð umfram það, en markmiðið er að tryggja að stuðningslán verði veitt á lágmarksvöxtum. 

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra fer fyrir verkefninu og fól Stafrænu Íslandi, að gera umsóknarferlið stafrænt á Ísland.is í samstarfi við viðskiptabankana. Þá höfðu seðlabankastjóri og fjármála- og efnahagsráðherra áður gengið frá samningi um umsýslu vegna ábyrgða ríkissjóðs á stuðningslánunum og Seðlabankinn í framhaldinu samið við lánastofnanir. 

Tekið er á móti umsóknum um stuðningslán á Ísland.is en stjórnvöld hafa samið við Arion banka, Íslandsbanka, Kviku, Landsbankann og Sparisjóðina um framkvæmd lánanna. Fyrirtæki fá því lán afgreidd hjá sínum viðskiptabanka. 

Fyrirtæki eru hvött til að kynna sér vel skilyrði og kvaðir lánanna til að þau geti nýtt sér úrræðið að fullu. 

Umsóknir ásamt upplýsingum um stuðningslánin er að finna hér: 
https://vidspyrna.island.is/studningslan 

Lög um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveru. 
https://www.althingi.is/altext/150/s/1420.html 

Reglugerð um stuðningslán: 
https://www.stjornartidindi.is/Advert.aspx?RecordID=78286c71-0c3d-4c7b-b300-7f258bc3851f