Ég hef verið nákvæmlega þarna svo oft áður….

…þó mest í huganum, þar sem ég endurupplifi þessa galdrastund aftur og aftur.

Um sjöleytið læðist lognið inn fjörðinn og maður finnur á sér að með þessu kvöldi fylgir nótt sem verður einstök.

Eitthvað Guðdómlegt liggur í loftinu og ég get vart beðið.

Um miðnætti hefur þetta einstaka galdralogn með tilheyrandi dularfullu ljósi og birtu magnast til muna og vil ég skiljast frá öllu veraldlegu amstri og vera einn með sjálfum mér…

…Ég læðist upp í gamla fallega bratta kirkjugarðinn heima á Sigló.

Sest þar niður ofarlega í tröppunum og segi upphátt við sjálfan mig með Gústa Guðsmanns sannfæringarhreim í röddinni:

Sjáðu, Jón Ólafur, taktu þessa dásemd inn með öllum þeim skilningarvitum sem Almættið hefur gefið þér og þú munt um alla eilífð eiga þetta kraftaverka augnablik.“  

Þeir sem eru þarna með mér í kirkjugarðinum eru allir látnir og mun hljóðlátari en ég.
Þessi kirkjugarður er svo stórkostlega vel staðsettur , beint fyrir ofan miðjan bæinn og hann er ekki flatur eins og flestir aðrir kirkjugarðar.

Við gerum með okkur þegjandi samkomulag um að láta þögnina ráða ríkjum og við sem erum stödd þarna núna erum öll með sama útsýnið, því hér hvíla allir með andlitið í austurátt.

Sólarupprásaráttina!
Þetta er líka sú átt sem allir sem hér búa, lífs eða liðnir horfa á daglega, því sjálft bæjarstæðið er að vestanverðu í firðinum.

Mig dreymir um ég fái kannski að leggjast til hinstu hvílu þarna í gamla Kirkjugarðinum og þá mun ég um alla eilífð hafa þetta útsýni.

Austurfjöllin séð í hillingum í galdralogni og ljósi.

Klukkan slær miðnætursól… 

Nú skín sólin, án þess að sjást.
Á Siglunes og lýsir upp skriðurnar þar fyrir innan, lognið hefur magnast til muna og ljósbirtan hefur breyst.
Hús, fjöll og bátar speglast á dularfullan hátt í spegilsléttum sjónum.

Það er erfitt að setja orð á þessa upplifun því þetta er hreinn og beinn galdur.

Vinur minn frá Vestfjörðum sagði mér einu sinni þegar ég var að reyna að lýsa þessu Siglfirska galdralogni að í firðinum hans sögðu margir: „ það er komið svartalogn“ en þar eru fjöllin svo nakinn og brött að spegilmyndin dettur í sjóinn og gerir allan hafsflötinn svartan.

En þetta er ekki þannig logn….

Því hér myndast einkennilegur blámi í loftinu og lognið verður svo hljóðlátt og þykkt að það er hægt að skera í það með smjörhníf.

Galdralognið nær sínu hámarki með stórkostlegri flugeldasýningu og ótrúlegri ásýnd þegar miðnætursólin kemur inn í leikinn af fullum krafti klukkan þrjú í nótt en þá stendur blessuð sólin lágt, úti fyrir miðjum fjarðarkjaftinum.

Mitt í tímalausri eilífð og óendanlegum bláma sem ræður ríkjum á milli hafs og himins.

Dularfull galdralogns speglun um miðja nótt.

Þangað til þá sit ég þögull og horfi yfir fjörðinn og bæinn minn og sé sjálfan mig í barnaleikjum á löngum sumarbjörtum dögum.  
Minnist gamalla vina og vandamanna og margir eru með mér í kirkjugarðinum núna.

Sólin klæðir Hólshyrnuna í nýja ljósablúndukjóla á tíu mínútna fresti.
Hún er svo falleg og ég er svo yfir mig ástfangin af þessu fjalli að mig langar til bjóða henni upp í dans, kyssa hana innilega og lengi og biðja hana svo að giftast mér.

En ég þarf þess ekkert, því Hólshyrnan og fjörðurinn fagri eiga í mér hvert einasta bein… og sálin hans Jóns míns á sér hér þegar merktan grafreit.

Ég dregst inn í minningar um að vera á leiðinni heim í suðurbæinn á bláum vetrarstillu kvöldum með fullu tungli og norðurljósum og minnist þess að hafa oft látið mig falla í snjóinn og gleymt stað og stund og hreinlega horfið inn í dansleik og litadýrð alheimsins.

Fékk skammir frá áhyggjufullri móður minni fyrir slórið á heimleiðinni og ég afsakaði mig með orðum eins og:

„Fyrirgefðu elsku mamma, ég datt smástund inn í eilífðina og þar hefur maður ekkert tímaskyn.“

Klukkan slær hljóðlaust þrjú í kirkjuturninum

Lognið þéttist meir og meir og nú er ekki lengur hægt að skera í það og ég næ varla andanum.

Kyrrðin og þetta magnaða bláa ljós gleypir allt og alla.

Fólkið sem var á balli á eyrinni gengur út í galdraloftslognið og gerir sér ekki grein fyrir því að lognið er búið að leggja álög á allt og alla.

Allir ganga hægt og tala í hálfum hljóðum eins og maður gerir í virðingarskyni í jarðarförum…

Engin veit, að ég sem sit einn með þeim sem búið er að jarða HEYRI ALLT sem er sagt á eyrinni.

Ég heyri heilar ævisögur og ástarjátningar.

En auðvitað á ég ekkert í þessum sögum því það er Siglfirska Lognið sem skrifaði þær og bar sögurnar til mín og í kyrrðinni var þegar búið að gera samkomulag um þagnarskyldu.

Klukkan er að verða fjögur

Stend upp úr stúkusætinu góða í kirkjugarðströppunum og segi hátt:

„Takk fyrir mig og ég kem gjarnan aftur, lífs eða liðinn.“


HÖFUNDUR og ljósmyndari:
JÓN ÓLAFUR BJÖRGVINSSON

Nýlegar birtar sögur eftir sama höfund:

KÓRÓNU-SMÁSAGA FYRIR FULLORÐIN BÖRN: SJÁLFUR DAUÐINN SENDUR Í FRÍ!

SÍÐASTI BÓNDINN Í HÉÐINSFIRÐI

ÞJÓÐSÖGU-SMÁSAGA. HAFIÐ GEFUR HAFIÐ TEKUR 1. HLUTI

ÞJÓÐSÖGU-SMÁSAGA. HAFIÐ GEFUR HAFIÐ TEKUR 2. HLUTI

AÐRAR SÖGUR OG GREINAR EFTIR JÓN ÓLAF BJÖRGVINSSON Á TROLLI.IS.