Tveir karlmenn voru á miðvikudag úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 21. október að kröfu Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, hjá Héraðsdómi Norðurlands eystra.

Þeir voru handteknir deginum áður á Akureyri af sérsveit ríkislögreglustjórans og lögreglunni á Norðurlandi eystra.

Rannsókn lögreglu beinist að því hvort þeir í sameiningu sviptu ungan mann frelsi sínu, beittu hann ofbeldi, höfðu í hótunum við hann um frekari ofbeldi gagnvart ættingjum hans, ef hann greiddi þeim ekki háa fjárupphæð.

Sakborningar voru fluttir í gærkvöldi með aðstoð Ríkislögreglustjóra í fangelsið á Hólmsheiði. Rannsóknin er enn á frumstigi og lögreglan telur sér ekki fært að tjá sig frekar um málið á þessu stigi.