Önnur bók Móses 23:26

„Engin vanbyrja og engin óbyrja skal finnast í landi þínu. Ég skal fylla tal daga þinna.”

HANN

átti sínar bestu hugleiðslustundir eldsnemma á morgnana í trillunni sinni þegar hann sigldi út fjörðinn. Báturinn rataði sjálfur í vinnuna og hann steig taktfast ölduna og hljóðið frá gömlu góðu Volvo Penta vélinni virkaði á hann eins og róandi hugleiðslutónlist og þrátt fyrir að hann væri vakandi og allsgáður og sæi alla þá fegurð sem blasti við honum daglega þá þurfti hann ekkert að leggja mikla orku í að taka eftir þessu.

Því hann sjálfur var svo stór hluti af landslaginu og náttúrunni í fleiri fleiri ættliði aftur í tíman sem stundum virtist standa grafkyrr árum saman, fastur á milli hárra fjalla.

Hugur hans reikaði mikið fram og tilbaka í tíma og rúmi um hans eigið líf og föðurlaust uppeldi í þessum einangraða fagra firði sem mundi sinn fífil fegri frá þeim tíma sem maður gat háfað upp silfri hafsins rétt fyrir utan fjarðarkjaftinn.

„Hafið gefur og hafið tekur…“  Fáránleg og ögrandi setning…. hugsaði hann og minntist sögurnar um hvarf síldarinnar…
… og föður síns þegar hafið hreinlega krækti í hann línuöngli og kippti honum til sín og skilaði honum aldrei aftur þegar hann sjálfur var bara þriggja ára saklaust barn.

Hann minntist elskulegrar en sísorgmæddrar móður sinnar sem hafði eftir þessa hörmungar atburði þvingast til að bakka heim til föðurhúsa og þar bjó hún til æviloka og rétt eins og hann var hún umkringd ást og umhyggju afa hans og ömmu í litla rauðmálaða bárujárnshúsinu sem stóð á sandfylltri eyrinni.

En hafið á samt þessa sanduppfyllingareyri því það er ennþá flóð og fjara undir öllum húsum.
En samt ekki öldugangur… … guði sé lof.

Í barnæsku sótti hann öryggi sitt og stuðning í bókstaflegri meiningu fyrir óstöðuga fætur með því að hanga stanslaust í pilsi móður sinnar, hann vildi ekki missa hana líka.
Sleppti ekki takinu fyrr en hann var þvingaður í skólagöngu 6 ára gamall.

Skólinn var honum pest og pína alla daga og ekki bætti úr skák að verða um sama leyti greindur með auman hægri mjaðmalið og þar með þvingaður í spelkur í fleiri ár sem hindruðu hann í að taka þátt í leikjum með öðrum börnum.
Hann var mest í því að strjúka úr skólanum og forða sér til elsku ömmu og afa sem alltaf voru með opinn faðm heima í litla rauða eyrarhúsinu innan við 100 metra frá skólabalanum.

Það er oft sagt að: „það sem ekki drepur mann herðir mann“  hugsaði hann og „talandi um að stökkva öfganna á milli“ hélt hann áfram….. að breytast úr hálf innhverfum mömmurassastrák öll barnaskólaárin í stjórnlausan snarvitlausan ölvaðan gelgjugaur öll unglingsárin er minnst sagt óvenjulegt og einkennilegt þroskaferli.

Skólafælnin magnaðist með hverju ári og einu skiptin sem hann fann ró í sál og líkama var þegar hann fór á skakið með afa sínum á gömlu góðu trillu-Freyjunni hans.

Það var augljóst að hann og hafið áttu samleið…. sem og Bakkus sem varð hans besti vinur rétt eftir fermingu.
Andinn úr flöskunni gaf honum falskt sjálfstraust í að nálgast aðrar manneskjur… og hitt kynið…  og líka einhverskonar beisksæta deyfingu við þessum ólýsanlega innri óróleika og kláða í sálinni sem hann bar stanslaust í sér.

Eftir níunda bekk, sem hann þó rétt náði, fékk hann hásetapláss á togara og þrátt fyrir að honum eldri og reyndari og greindari alvöru sjómenn reyndu að gera hann að manneskju þá var hann ekki móttækilegur fyrir umhyggjuorðum annarra.
Og þetta togarapláss gaf honum bara betra fjárhagslegt sjálfstæði til að verða uppáhalds vinur Bakkusar í öllum landlegum og hann eyddi aleigunni og næstu fimmtán árum í að syngja „ Eighteen until I die“ með öðrum sjálfskipuðum eilífðartáningar vinum. 

Það eina góða sem kom út úr þessum árum var að hann var alla vega edrú þær vikur sem hann var á sjó og hann byrjaði snemma að lesa mikið á frívaktinni. Í byrjun bara glæpasögur og annað léttlesið afþreyingarefni en tvíburasysturnar góðhjörtuðu sem sáu um bókasafn fjarðarins tóku eftir þessu lesþorsta og byrjuðu að gauka að honum heimsbókmenntum og hann fann frið í bókalestrinum og löngun í að læra meira um lífið og sjálfan sig…..      

En hann rankaði ekki við sér fyrr en hann var að verða 32 ára en þá voru tveir af þremur af hinni heilögu þrenningu í litla húsinu á eyrinni sem elskuðu hann skilyrðislaust látinir og sorgmædda móðirin kominn með alvarleg elliglöp sem kröfðust athygli hans í landi.

Hann fór einn en ákveðinn á hnefanum inní eldrúmennskuna og nú setti hann allan sinn tíma og peninga í að bæta fyrir fjarveru sína úr lífi þeirra sem höfðu elskað hann.
Gerði upp litla gamla bárujárnshúsið fyrir móður sína og hélt því áfram þrátt fyrir að hún kveddi þetta líf fljótlega eftir að hann kom í land og það skrítna var að hún brosti í fyrsta skiptið í þrjátíu ár framan í sjálfan dauðan þegar hann kom loksins og tók burtu sorgina sem hún bar.

Það fóru næstum 10 ár til viðbótar í að laga lítið fiskverkunarhús og gera upp trilluna sem fylgdi með arfinum og honum leið bara nokkuð vel sem sjálfstæðum trillukarli þrátt fyrir einmannaleika á stundum. En vinna og bóklestur bjargaði honum og náði ætíð að bæja frá honum tímabundnum þunglyndisskýjum.

En svo gerðist það bara rétt si svona á venjulegum þriðjudegi þegar hann var eitthvað að flýta sér út úr Kaupfélaginu að hann hreinlega gekk á hana. 

Hún missti innkaupapokann sinn og hann beygði sig niður til að tína upp appelsínur sem rúlluðu út á snævi þakta götuna og þá sá hann að þessi poki var heklaður út mislituðum plastreimum og þetta minnti hann á pokana sem amma hans heklaði úr gömlum mjólkurumbúðarplastpokum í gamla daga.

Þegar hann leit upp þá starði hún bara á hann og hann á hana dágóða stund.
Hann hafði aldrei séð neitt eins fallegt áður í þessum afskekkta firði og var í miklum innri pælingum um hvernig hann hefði getað misst af því að þessi kona væri til.. HÉR…  af öllum stöðum en svo mundi hann að strandferðabáturinn Drangur hafði komið í dag og hún var eitthvað svo sjóveikisföl og Reykjarvíkur hippalega klædd með ljósrauðlitaðar fléttur og gamlan bakpoka á öxlunum….

Þekki ég þig… eða…höfum við hitts einhverstaðar áður“ sagði hún með roða í fallega freknóttum kinnum þegar hann rétti henni pokann skrítna.

Og honum dauðbrá þegar hann heyrði sjálfan sig svara upphátt með orðum sem hann ætlaði bara að hugsa fyrir sjálfan sig:

Nei.. það held ég ekki… nema þá í draumi

Sæbláu augun hans, nú 52 ára drógu hann úr hugleiðsluástandinu þegar hann sá fyrsta XX 33 grásleppunetabelginn sinn og nú tók vinnuvanur kroppur og haus yfir og það var komið að því að athuga hvað hafið væri til í að gefa… eða taka frá… honum í dag.

En það þyngdi hans harða sjóvinnuhjarta að hann mundi vel að akkúrat í dag voru liðin 10 ár frá því að hún óvænt datt inn í hans einmannalega brothætta líf svo skyndilega.

HÚN  

átti líka sínar bestu stundir snemma á morgnana, hún hafði alla tíð frá þeim degi sem þau bókstaflega féllu kylliflöt fyrir hvort öðru í Kaupfélagsdyrunum haft það sem vana að vakna strandveiðimannalega snemma með honum því hún vildi sýna honum ást með því að stjana við hann og útbúa góðan morgunverð og smyrja handa honum nesti fyrir sjóferð dagsins.

Hún kyssti hann alltaf bless fram í gangi og svo strauk hún honum um hans nú gráskeggjaða vanga og sagði:

Farðu varlega ljúfur og ekki leyfa hafinu að taka þig frá mér“ 

Og dagurinn í dag var í rauninni ekkert öðruvísi en aðrir dagar síðustu ára en hún fann svo innilega og meira en vanalega hvað hann langaði að taka fast utanum hana og bara þrýsta henni að sér….
En hennar auma sálarástand leyfði það ekki…  þó svo að kroppurinn væri til í að gefa eftir í nálægðar lönguninni sem hafði safnast saman lengi, lengi.

Hún ýtti honum blíðlega frá sér, því hún var svo hrædd um að faðmlagið gæti endað í einhverju sem hún taldi sig ekki lengur geta gefið því henni fannst hún ekki vera heil kona.

Þegar hann var farinn hafði hún húsið, morgunútvarpið og sínar eigin hugsanir fyrir sig sjálfa í dágóða stund áður en hún fór í vinnuna.

Hún stóð lengur en vanalega í stofuglugganum á gamla stóra Síldarkóngahúsinu hátt uppi í fjallinu í norðurbænum sem þau höfðu keypt saman fyrir mikla ást en lítinn pening og horfði á hann sigla út fjörðinn.
Horfði á hann, sem hún elskaði svo mikið fjarlægast sig með táraflóð rennandi niður freknukinnarnar sem hann var svo skotinn í og þessi tár þynntust ekkert þó hún hefði grátið daglega í fleiri ár þá urðu tárin bara beiskari og æ hafssaltari á bragðið:

Því hún var með heilt haf af sorg innan í sér.

En í dag fann hún svo innilega og næstum heyrði að það hreinlega brotnaði eitthvað innan í honum þegar hún enn einu sinni hafnaði ástarlotum hans í morgun.

Og hún reyndi að hugga sjálfan sig með því að hugsa orð eins og… „tja… hann hefur þó alltaf hana Freyju, trilluhjákonuna sína“     

Hún hafði alltaf vitað að hún var ættleidd og komin af fátæku ógæfufólki í Reykjavík.
Fyrir löngu látnu fólki núna, sem hún mundi ekki eftir og vildi ekkert þekkja.

Rétt tæplega tveggja ára varð hún einkaóskabarn mjög trúaðra fósturforeldra sinna. Þau voru Héraðsskólakennarapar sem væntu sér mikils af henni í kristilegri hegðun og góðs námsárangurs.

Andstæðurnar í uppeldisumhverfi hennar og hans gætu vart verið stærri, því litla sveitin hennar var ein af örfáum stöðum á Íslandi þar sem ekki sést til sjávar.
Þetta var uppeldis og heimavistarfræðisetur fyrir dreifbýlisbörn og einstaka óóskuð vandræðabörn úr stærri bæjarfélögum sem vildu losna við þau.

Flestir af þeim sem búa og vinna þarna hafa það sem atvinnu að ala upp börn annarra.

Það gerist stundum að ást og væntingar foreldranna verður til vandræða, það verður einhvernvegin of mikið af hinu góða. 
En rétt eins og önnur börn vildi hún þóknast foreldrum sínum. Alla veganna fram að 12 ára aldri.
Móðirin fór með hana eins og dúkku og það var henni mikilvægt að aðrir tækju eftir hversu veluppalin, velklædd og sæt ljósrauðhærða tíkaspena brúðan hennar væri.
Faðirinn lagði sig hinsvegar allan fram við að halda yfir henni óteljandi og langa einkafyrirlestra og predikanir sem innihéldu fyrir hana þá, mikið af algjörlega óskiljanlegum tilvísunum í biblíutexta.

Sannleikur lífsins kom úr þessari eldgömlu bók og það eina sem dugði og var rétt, var að beygja sig og bugta fyrir krafti og réttlæti orðsins….

Frækorn með efa um réttmæti og tilgang þessarar yfirþyrmandi uppeldisástar fóru að skjóta rótum í hennar bráðþroska huga og líkama þegar hún var bara þrettán vetra og á fimmtánda vori lífs sín fann hún loksins sprungu í malbikinu og hún óx hreinlega í gegnum þessa hörðu olíuleðju sem hafði haldið henni niðri, eins og fagur þrjóskur fífill.

Þessi uppreisn passaði ekki inn í hugmyndafræði ástkærra fósturforeldra sem sendu hana frá sér í menntaskóla í öðrum álíka flötum og leiðinlegum hafnarlausum heimavistarbæ með von um að hún kæmist til vits og ára gegnum fasta handleiðslu annarra kennara sem kunnu þennan vandræðaaldurshóp betur en þau sjálf.

Þessi lausn varð henni bæði björgun og böl því á þessum árum kynntist hún fullt af öðru ungu fólki sem var í vandræðum með sjálft sig og foreldra sína sem annað hvort komu frá of ríkum eða of fátækum heimilum. Vandamálin voru lík hjá báðum þessum hópum.

Of miklar væntingar eða alls engar væntingar.

Hún kláraði stúdentinn og kom aldrei heim eftir það. Flutti til Reykjavíkur og fór „All in“ í ólifnað sem fylgdi frjálsu og sjálfstæðu nætur-lífi hennar í stórborginni.

Hún sá fyrir sér fósturforeldra sína fussa og sveia yfir líferni dótturinnar með spakmælum eins og: „Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni

Bókstafstrúarhálfvitar!“ Hugsaði hún bara tilbaka: „það vaxa ekki epli á eikartrjám

En það hurfu 7 ár í áfengis og dópneyslu og allskyns ástarsorgartímabil, því hún fann engan sem gat elskað hana eins og hún var. Úrvalið af karlmönnum í þeim hópi sem hún umgekkst var heldur ekki upp á marga fiska.

Hún tók sig á og vildi loksins verða fullorðin sjálfstæð ung kona, skellti sér í langa meðferð hjá SÁÁ og stuttu seinna komst hún inn í Þroskaþjálfaraskóla Íslands.
Hún fann loksins sjálfan sig í náminu og vinnunni með þá sem minna mega sín og þessi börn með alla sína fötlun og sérþarfir sýndu henni hvað alvöru ást var.  

En skuggafortíð hennar elti hana of oft uppi í borginni og hún ákvað að lausnin lægi í að flytja út á land og það var þess vegna sem hún rakst á hann í Kaupfélaginu.

Hér í þessu fallega firði varð hún miklu meira en bara kona með vafasama fortíð.
Nýráðinn virðulegur þroskaþjálfari og sérkennarafulltrúi fjarðarins þurfti ekki að réttlæta eða útskýra tilveru sína fyrir einum eða neinum.

Nú rankaði hún við sér klukkutíma seinna starandi út um stofuglugga þegar inn í eyru hennar streymdu hressileg Mannakorns morgungullkorn úr útvarpinu:

„….Nú vappa ég minnar vinnu til  

á vonlausan kontórinn…

Kannski tekst mér að kreista upp bros   

ef kitlar mig forstjórinn….”

Ó guð… þessu sorgarferli verður að ljúka núna og ég verð að kreista fram bros og ég vill að hann kitli mig líka“…
sagði hún upphátt við stofugluggann.

Og hún fann að hver einasta fruma í 47 ára líkama hennar vissi að hún landkrabbinn var fyrir löngu síðan búinn að finna hamingjuna hér við hliðina á honum og hafinu.

ÞAU

urðu strax mjög svo samrýmt par og sjálfum sér næg enda bæði ættlaus og vinafá í litlum afskektum firði þar sem fátt var um að vera og þau höfðu hvorugt áhuga á að taka þátt í neinu sem Búsbar staðarins hafði upp á að bjóða.

Bæði búinn að klára það lífsskólastig með falleinkunn.

Á bæjarlínunni sköpuðust allskyns gróusögur um hvernig og hvar hann, gamli sífulli kvennabósinn, sem hafði fyrir 10 árum síðan breyst í rólegheita einsetukarlmann hefði hitt þessa fallegu konu.  En ekkert af þessu kjaftæði náði þeim eða truflaði á nokkurn hátt.

Hann hafði reyndar einu sinni fengið spurninguna frá ölvuðum gömlum eilífðarunglingsfélaga og hann svaraði bara stutt og laggott:

Ég fann hana bara í Kaupfélaginu eins og allt annað sem mig vantar

Þau voru í rauninni bæði jómfrú og hreinn sveinn, því hvorugt hafði nokkurn tíma átt í ástarsambandi án eiturskýja vímugjafa í sál og líkama. Þessi upplifun að geta loksins á fullorðinsárum bæði gefið og tekið á móti ekta ást skapaði ótrúlega sterka pirrandi löngun hjá þeim í sínum ástarleikjum að hreinlega renna saman í eina heild.

Verða EITT og hverfa síðan saman inn í eitt allsherjar alheims eilífðarástarsælustilverustig og aldrei koma til baka.

Þessi sameiningarlöngun kemur kannski frá þeim tíma þegar atómunum í okkur var þrýst saman í ólýsanlega þéttan massa rétt fyrir Big Bang spenginguna miklu“ sagði hann spekingslega. „Og allt í alheiminum er reyndar búið til úr sama efninu og við höfum öll einhvern tíman verið ein eining ...“ bætti hann við þegar hann kyssi hana á sveitt salt ennið. 

Eða svo er þetta svona Yin og Yang dæmi þar allt er það sama og samtímis andstæða… en það má guð vita að þú ert alla veganna mitt persónulega Big Bang“ svaraði hún og bætti svo hlæjandi við bæði „AMEN og Hallelúja.“  

Þau voru svo ástfangin að þau nenntu varla í vinnuna og þau gleymdu að borða og lifðu á malt og appelsínblöndu sem þau slökktu ástarlotuþorstann með.
Þeim fannst þau eiga það skilið að hafa loksins gleðileg jól í sínu lífi alla daga ársins.

Í hálfleikjum á milli ástarleikja töluðu þau um allt milli himins og jarðar og játuðu hreinskilningslega syndir sínar hvort fyrir öðru svo að ekkert úr fortíðinni sem mögulega gæti óvænt náð eyrum hins myndi geta skemmt þeirra einlægu ást.

Allt var þegar sagt og gert og hvorugt þeirra dæmdi….

VIÐ

Þegar manneskjur og önnur dýr verða ástfangin og mynda pör og komast svo að því það þau geta ekki runnið saman þá birtist oft önnur sterk löngun sem snýst um að skapa einhverskonar sameiginlegt VIÐ.

Skapa sameiginlega fallega framtíðar sögu og góðan tryggan stað að kúra saman á.

Hún hafði fljótlega eftir að hún kom í bæinn flutt inn til hans í litla eyrarhúsið þrátt fyrir að bærinn hafi skaffað ágætis 2ja herbergja íbúð handa henni. En þrátt fyrir henni liði vel þarna í húsinu á eyrinni þá var svo mikið af sögu hans þarna upp um alla veggi og hún sannfærði hann um að þau þyrftu eitthvað stærra sem væri þeirra sameiginlega eigið og hann elskaði hana svo mikið að hann gaf upp bárujárnsættarsetrið og þau keyptu saman stóra gamla Síldarkóngahúsið í norðurbænum.

Hann gat setið tímunum saman og bara horft á hana dunda við að innrétta, sauma gardínur og snurfusa garðinn. Hann sjálfur var bara ánægður með sinn hlut sem var stór tvöfaldur bílskúr með bílaviðgerðargryfju og dularfullum kjallara.

Það sló hann allt í einu einn daginn að hún væri kannski ekki bara að búa til heimili handa þeim heldur kannski líka hreiður og það vantað bara unga til að fullkomna þetta hreiðurhús.

Hann vissi vel að hennar innri eggjaklukka tifaði hratt, hún var að verða 39 ára og hann sjálfur hafði oft leyft sér að dagdreyma um að eiga son. Hann mundi vel að hann hafði oftar en einu sinni tárast þegar hann heyrði gamalt lag úr leikritinu um spýtustrákinn Gosa þar sem Láki „eða hét hann kannski Jakob“ gamli leikfangasmiður syngur:

Dagurinn liðinn, leikföngin sofa.

Lokið er verkum í fátækum kofa.
Þá verð ég allur svo einn

því hér er ekki neinn.

En ef ég ætti son… ef ég ætti son…

Ætti ég mér vooon…“

En hann hristi þessi saknaðartár af sér með því að þvinga sjálfan sig inn í hugsanir um að leikarinn sem söng þetta dásamlega fallega sonarlöngunarlag af svo mikilli innlifun átti bróður sem hann þekkti sem bjó í firðinum hér áður fyrr. 

Hún varð ólétt tvisvar en stutt gengin missti hún fóstrið í bæði skiptin. Þetta varð þeim mikið sorgarferli og skapaði hræðslu hjá þeim báðum og þau þorðu vart lengur að reyna, nálguðust líkamlega hvort annað sjaldnar og sjaldnar.
En svo eina nóttina vaknaði hann við að hún öskraði af sársauka og hún hafði svo miklar blæðingar að hún var send suður með sjúkraflugi sömu nótt.

Hún kom til baka án legs og eggjastokka því það fannst staðbundið illkynja krabbamein einmitt þarna á þeim stað sem hún hafði mest þörf fyrir í sinni einlægu barnalögun.

Þögn og þung lund réði nú ríkjum í ástarhreiðrinu góða og hann reyndi í orðum og gerðum að hugga hana og verst þótti honum að ekki mega taka utanum hana. Því hún hrinti öllum slíkum nálgunartilraunum hans frá sér og öll hans ástarorð dugðu ekki heldur.

Hann reyndi að tala blíðlega um þetta en hún grét bara og sagði orð sem lýstu vel hennar innri sýn á sjálfa sig sem konu.

Sérðu ekki að ég er bæði vanbyrja og óbyrja… fyrst fæði ég bara gölluð dauð börn og nú get ég ekki eignast börn…. ég er hvorki heil eða hálf kona, geturðu ekki skilið það.“

Vanbyrja… óbyrja… stamaði hann hissa… hvaðan koma þessi ógeðslegu orð eiginlega ?

Spurði hann, út í brothætt loftið.

Þögnin svaraði, því þau vissu bæði svarið.

Hann reyndi líka að nefna möguleikann í að kannski ættleiða barn en hún minnti hann bara á sína eigin vonlausu ættleiðingarfortíð og hún fylltist af sterkri hræðslu um að verða slæm móðir gegnum væntingar um að saklaust barn ætti að draga hana uppúr þeirri djúpu þunglyndisgröf sem hún var föst í.   

Og dagar, mánuðir og ár liðu í tilfinningarlegri biðstöðu þar sem þögnin sagði allt en hann var svo þolinmóður og vanur við að búa með sorg…. 

En nú var ástin alveg við það að skáka og máta sjálfa sig….

ÞJÓÐSÖGU-SMÁSAGA. HAFIÐ GEFUR HAFIÐ TEKUR 2. HLUTI

Aðrar sögur og greinar eftir: Jón Ólaf Björgvinsson

Höfundur:
Jón Ólafur Björgvinsson
Forsíðuljósmyndir:
Kristin Sigurjónsdóttir og
Gunnar Smári Helgason