Jón Trausti Traustason bóndi, vitavörður og veðurathugunarmaður á Sauðanesi við Siglufjörð sendir Veðurstofunni mánaðarlega tíðaryfirlit yfir veðráttu mánaðarins.

Yfirlit yfir veðrið í febrúar 2019 frá veðurstöðinni á Sauðanesvita.

Fyrstu 12 daga mánaðarins voru Ákveðnar N.A. eða A. lægar áttir með snjóéljum ef undan eru skildir dagarnir 2. og 3. Nokkurt frost var á þessu tímabili lengst af. Dagana 13. og fram á miðjan dag þ. 16. voru hægari S. og S.V. áttir en áfram éljagangur. Um miðjan dag þ. 16. snerist svo aftur til ákveðinna N.A. lægra átta með snjóéljum til og með þ. 19. Þ. 20. varð svo breyting á veðri sem stóð út mánuðinn. Voru það S. lægar áttir með mildu og úrkomulitlu veðri.

Meðalhiti mánaðarins var + 0,62 stig og úrkoma mældist 31,2 mm.
Hæst komst hitinn í + 10,9 stig þ. 23. og lægst þ. 8. og þ. 9. er hiti fór niður í – 6,1 stig.

Í heild séð telst þessi Febrúar mánuður nokkuð hefðbundinn fram að þ. 20. Eftir það var svo afar góð tíð. Snjólag var gefið allan mánuðinn. Mesta snjódýpi var dagana þ. 2. til þ. 5. og þ. 11. eða 35 sm. að meðaltali. Eftir þ. 19. hjaðnaði snjór jafn og þétt og í lok mánaðarins var aðeins 2 sm á láglendi. Úrkoma var lítil heilt yfir í mánuðinum. Alls voru aðeins 3 dagar í mánuðinum þar sem engrar úrkomu varð vart. Meðalúrkoma per dag mánaðarins var 1,1 mm.

 

Mynd/Jón Trausti Traustason