Eins og fram hefur komið í fréttum er von á ofsaveðri á landinu á morgun mánudaginn 7. febrúar og hefur Veðurstofa Íslands gefið út appelsínugula viðvörun fyrir Norðurland eystra frá klukkan sex að morgni og fram að hádegi. Spáð er suðaustan 20-28 m/s með snjókomu og skafrenningi, hvassast á Tröllaskaga og í Eyjafirði. Talsverðar líkur á foktjóni og samgöngutruflunum.

Að fengnum tilmælum frá aðgerðarstjórn Almannavarna á Norðurlandi eystra og lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra er skólum lokað á morgun mánudag 7. febrúar og ekkert skólastarf verður því í Leikskóla Fjallabyggðar, Grunnskóla Fjallabyggðar og Tónlistarskólanum á Tröllaskaga á morgun.

Aðrar raskanir á starfsemi stofnana í Fjallabyggð á morgun, mánudaginn 7. febrúar eru:

  • Menntaskólinn á Tröllaskaga hefur fellt niður staðbundna kennslu 
  • Akstur skólarútu fellur niður
  • Félagsstarf aldraðra og starfsemi í Iðju – dagvist fellur niður
  • Sundlaugar verða lokaðar, stefnt að opnun þeirra kl. 12:00
  • Viðbúið er að ekki hafist undan að ryðja snjó nema af helstu leiðum innanbæjar.

Íbúar eruð beðnir um að ganga vel frá lausum munum. Verktökum er bent á að ganga vel frá framkvæmdasvæðum, einnig eru eigendur skipa og báta í höfnum Fjallabyggðar hvattir til að huga að landfestum.

Þá vill Fjallabyggð beina þeim tilmælum til íbúa að vera ekki á ferðinni að nauðsynjalausu.

Ef aðstoðar er þörf er fólk hvatt til að hringja í 112.