Jólafastan er að jafnaði ekki tími gróðursetningar. Þvert á móti er hefð fyrir því að fella tré, skreyta þau og kalla jólatré.

Í Menntaskólanum á Tröllaskaga eru hefðir ekki allsráðandi og skapandi hugsun í hávegum höfð. Því var ákveðið að nýta 3. desember, þann hlýja og fallega desemberdag til að gróðursetja nokkur tré á skólalóðinni.

Tegundirnar eru birki og reynir og eru trén meira en tveir metrar á hæð. Samkvæmt almennum ráðleggingum Hafsteins Hafliðasonar er tíminn til að gróðursetja tré frá lokum ágústmánaðar og eiginlega allur veturinn, svo framarlega að mold sé það þíð að handhægt sé að grafa holur fyrir ræturnar.

Þetta síðasta skilyrði má deila um hvort verið hafi fyrir hendi í Ólafsfirði í dag.

En við vonum hið besta og ætlum að trúa því að trén sem plantað var lifi og verði nemendum og starfsmönnum til yndisauka.

 

Mynd: Gísli Kristinsson