Umsókn um útgáfu fullnaðarskírteinis til ökuréttinda er nú orðin stafræn og hægt að sækja um á Ísland.is. Þá geta ökukennarar nú einnig gengið frá akstursmati með stafrænum hætti. Þetta er fyrsti liður í mikilvægu umbótaverkefni um að gera umgjörð fyrir almennt ökunám stafræna frá upphafi til enda.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, ýtti verkefninu úr vör fyrr á árinu en markmiðið er að einfalda ökunámsferlið og bæta þjónustu við nemendur og ökukennara. Næsta skref verkefnisins er útgáfa stafrænnar umsóknar um bráðabirgðaskírteini og er þróun á slíkri umsókn vel á veg komin. Samgöngustofa vinnur einnig að því að þróa stafræna ökunámsbók og munu prófanir á þeirri lausn hefjast á næstunni með hagsmunaaðlilum.

„Með því að gera umgjörð ökunáms stafræna bætum við þjónustu við nokkur þúsund ökunema á hverju ári. Það er tímabært að ökunámið verði markvissara og umhverfisvænna í takt við nútímatækni. Við viljum kveðja prentuðu ökunámsbækurnar, auðvelda fólki að fara í gegnum ökunámið og gera próf rafræn, að undanskildu gamla góða verklega prófinu,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Nánar um umsókn um fullnaðarskírteini

Stafræna ferli fullnaðarskírteinis hefst með því að ökukennari skráir sig inn á Ísland.is og staðfestir að ökunemi hafi lokið akstursmati. Ökunemi fær þá tilkynningu í tölvupósti um að hann geti sótt um fullnaðarskírteini. Báðir aðilar þurfa að vera með rafræn skilríki til að auðkenna sig á Ísland.is. 

Ef ökunemi þarf ekki að skila gögnum til sýslumanns fer skírteinið beint í pöntun og er það sótt eftir þrjár vikur á þeim stað sem valinn var í umsóknarferli. Bráðabirgðarskírteininu er svo skilað um leið og það nýja er sótt. Afgreiðslutími er um 3-4 vikur eftir að gengið hefur verið frá stafrænni umsókn. 

Í stafræna ferlinu eru persónuupplýsingar sóttar úr Þjóðskrá og ökuskírteinaskrá og öll afgreiðsla mjög notendavæn. Ef umsækjendur kjósa aðra mynd en þá sem er til í gagnagrunni eða þurfa að skila inn læknisvottorði þarf að skila þeim gögnum inn til sýslumanns áður en skírteinið er pantað. 

Góð samvinna um bætta þjónustu

Samgöngustofa ber ábyrgð á ökunámi og stýrir verkefninu í samvinnu við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, ríkislögreglustjóra og sýslumannsembætti, sem gefa út ökuskírteini í umboði ríkislögreglustjóra. Stafrænt Ísland hefur yfirumsjón með því að þróa tæknilausnir til að stafrænt ökunámsferli verði að veruleika. Stafrænt Ísland vinnur þvert á stofnanir ríkis og sveitarfélaga til að efla stafræna þjónustu hins opinbera.