Í gær, þriðjudaginn 15. febrúar var undirritaður samningur milli Akureyrarbæjar, Einingar-Iðju og Fjölsmiðjunnar á Akureyri vegna starfsþjálfunar. Samningurinn felur í sér að ungt fólk sem starfar í Fjölsmiðjunni fær stöðu launþega sem hefur í för með sér stóraukin réttindi. 

Fjölsmiðjan er vinnustaður sem veitir fólki á aldrinum 16-24 ára, sem stendur á krossgötum, tækifæri til að þjálfa sig fyrir almennan vinnumarkað eða áframhaldandi nám. 

Allt frá stofnun hefur fjárframlagið til þeirra sem stunda starfsþjálfun í Fjölsmiðjunni verið í formi fjárhagsaðstoðar frá Akureyrarbæ sem tryggir engin réttindi á við þau sem almennir launþegar njóta. Samkvæmt nýjum samningi verður greitt í lífeyrissjóð, sjóði stéttarfélags ásamt tryggingagjaldi af launakostnaði. Þar með ávinnur fólk sér ýmis réttindi, sem ekki voru til staðar áður, svo sem til greiðslu atvinnuleysisbóta og fæðingarorlofs. Þessi breyting er því mjög mikilvægur og jákvæður áfangi fyrir fólk sem starfar í Fjölsmiðjunni. 

Akureyrarbær er fyrsta sveitarfélagið til að stíga þetta skref og tryggja ungu fólki í starfsþjálfun sem þessari umrædd réttindi og því er um tímamótasamning að ræða. 

Daglega starfa um 20 ungmenni og fjórir leiðbeinendur í Fjölsmiðjunni við ýmis verkefni og er sífellt verið að leita nýrra leiða til að auka fjölbreytni í störfum. Þar er meðal annars rekið mötuneyti, bílaþvottastöð, verslun með notuð húsgögn og húsbúnað og endurvinnsla á notuðum raftækjum. Bæjarbúar eru hvattir til að kynna sér starfsemi og þjónustu Fjölsmiðjunnar en það er hægt að gera með því að smella hér

Forsíðumynd: Samningur undirritaður, f.v.: Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, Erlingur Kristjánsson, forstöðumaður Fjölsmiðjunnar, og Halla Margrét Tryggvadóttir, sviðsstjóri mannauðssviðs Akureyrarbæjar.


Af vefsíðu Einingar-Iðju.