Um miðjan desember síðastliðinn kom út lagið Útigangur sem Kristinn Magnússon syngur ásamt Þollý Rósmunds.
Höfundar lagsins eru Emil Hreiðar Björnsson og Þollý Rósmundsdóttir.
Kristinn samdi textann og segir þetta um hvernig lagið varð til:
Ég skrifaði þennan texta fyrir nokkuð mörgum árum. Ég hafði í gegnum mína eigin baráttu við fíknisjúkdóminn fengið að kynnast mjög mörgum af því góða fólki sem einnig hefur átt í þessari baráttu, bæði inni á meðferðarstofnunum, á áfangaheimilum og í 12 spora samtökum. Fyrir utan alla þá sem ég komst í kynni við meðan ég sjálfur var í mikilli neyslu. Þá var ég á tímabilum heimilislaus sjálfur.
Einn af þessum aðilum sem ég hafði fengið að kynnast edrú og að vinna í sínum málum var heimilislaus og þurfti að stóla á gistiskýlin til að fá húsaskjól um nætur. Einn daginn var hann seinn fyrir og allt var orðið fullt þannig að hann, ásamt mörgum öðrum gat ekki fengið gistingu. Þetta var um miðjan vetur í frosti og morguninn eftir fannst hann látinn, frosinn undir runna á Klambratúni.
Hann er langt frá því að vera sá eini sem hefur hlotið þessi örlög, en á hverju ári verða nokkrir einstaklingar úti á Íslandi. Það fer bara yfirleitt ekki hátt af því yfirvöld vita að þau eru að brjóta lög þegar þau útvega fólki ekki húsnæði.
En semsagt þá snerti þetta við mér á þann hátt að ég vildi koma í orð og leyfa fólki að gægjast aðeins inn í þær aðstæður sem heimilislausir búa við. Aðstæður sem einkennast af vonleysi og depurð vegna þess að þau velferðarkerfi sem við búum við eru að bregðast lagalegum skyldum sínum. Það er meðvituð ákvörðun að gera ekki nóg, vegna þess að við sjáum það í öðrum málum, að húsnæðisleysi er hægt að leysa ef vilji er fyrir hendi. Það sjáum við í meðhöndlun annarra hópa eins og til dæmis flóttafólks og nú nýverið þegar hjálpa þurfti 4.000 Grindvíkingum með húsnæði.
Ég hef sjálfur þurft að glíma við fíknisjúkdóm í gegnum árin en hef í dag náð að komast í bata. Ég á að baki nokkuð margar meðferðir og í kjölfarið dvöl á áfangaheimilum og veit að stuðningur við grunnmannréttindi okkar, húsnæði og heilbrigðisþjónustu t.d. , er algjör grunnur að því að ná að koma lífi sínu í betra horf. En heimilislausir eru sviknir um bæði og eiga sér fáa málsvara.
Í dag er ég í góðum bata frá fíknisjúkdómnum og reyni að hjálpa öðrum að feta þá leið. Ég er meðal annars byrjaður í námi í fíkniráðgjöf til að geta orðið að sem mestu gagni í baráttunni.
Þess vegna langaði mig að koma þessum texta í lag til að hugsanlega vekja fleiri til umhugsunar um þau mannréttindabrot sem framin eru á þessu fólki, sem er jú manneskjur sem eru feður og mæður, synir og dætur, bræður og systur og eiga allan rétt á að kerfið hjálpi þeim þegar þau geta það ekki sjálf.
Ég fékk svo virkilega gott fólk með hjarta fyrir þessu málefni í lið með mér.
Þollý Rósmunds og Emil H. Björnsson, sem bæði eru hokin af reynslu úr tónlistarbransanum, sömdu lag við þennan texta minn og Emil spilaði inn tónlistina, útsetti og sá um upptökur og Þollý syngur svo ásamt mér. Þau hjálpuðu mér á stórkostlegan hátt að gera þennan draum minn að veruleika og nú er lagið komið út og vonandi að það veki samkennd og skilning fólks á því að í óbreyttu ástandi mun fólk halda áfram að deyja frá ástvinum sínum á landinu okkar sem við viljum kalla ‚‘‘ Best í heimi‘‘, en veruleikinn er því miður annar. Það er kominn tími til að stjórnvöld hætti að gera þessar manneskjur að vandamáli, þegar eina vandamálið er viljaleysi þeirra sem ráða til að sinna þeim skyldum sem þau eru kosin til að sinna.
Aðsent