Þriðjudaginn 8. maí  komu félagar í Veðurklúbbnum á Dalbæ saman til fundar í því skyni að huga að veðurhorfum í maí mánuði.

Fundarmenn fóru yfir sannleiksgildi síðustu spár og voru fundarmenn að vonum sæmilega ánægðir með hvernig til hefði tekist. Að vísu haði veður verið heldur kaldara en ráð var fyrir gert, en spáin vel innan skekkjumarka eins og gjarnan er sagt um spár af hvaða tagi sem þær svo sem eru.

Nýtt tungl kviknar 15. maí kl. 11:48 í suðaustri og er það þriðjudagstungl.  Gert er ráð fyrir að veður verði svipað  og  verið hefur undanfarið, þ.e. rysjótt og frekar kalt miðað við árstíma. Reikna má með  Hvítasunnuhreti með snjókomu og kulda.   Vindáttir verða breytilegar og margt bendir til að sumarið verði frekar kalt, a.m.k. framan af.  Ýmsar tilfinningar og draumar eru forsendur fyrir þessari veðurspá fyrir næsta mánuð og framtíðarlíkum, en nánar um það síðar.


Veðurvísa mánaðarins

Í apríl sumrar aftur,

þá ómar söngur nýr.

Í maí flytur fólkið

og fuglinn hreiður býr.

Með góðri góðri kveðju,

Veðurklúbburinn á Dalbæ

 

Mynd: Kristín Sigurjónsdóttir
Frétt fengin af vef: Dalvíkurbyggðar