Fyrsta helgi í aðventu var um helgina og af því tilefni stóð Sveitarfélagið Skagafjörður fyrir Hreyfi-jólabingói og jólasveinalest.

Hreyfi-jólabingóið var ratleikur þar sem fjölskyldur voru hvattar til þess að fara saman í göngutúr og taka myndir á ýmsum stöðum samkvæmt leiðbeiningum á Bingó spjaldi.

Þegar búið var að ná öllu spjaldinu þurfti að senda inn myndirnar til þess að komast í Bingó pottinn. Leikurinn var í gangi alla helgina og hægt að taka þátt alls staðar í Skagafirði, en fjögur mismunandi Bingóspjöld voru í boði, fyrir Hofsós, Sauðárkrók, Varmahlíð og dreifbýli Skagafjarðar. Fimmtán spjöld voru send inn, tíu Sauðárkróksspjöld, fjögur Varmahlíðarspjöld og eitt dreifbýlisspjald.

Búið er að draga fjóra heppna vinningshafa og eru þau heppnu Fannar Örn Kárason, Bríet Bergdís Stefánsdóttir, Guðrún Hildur Magnúsdóttir og Helgi Svanur Einarsson. Öll fá þau í vinning Krakka KVISS 2 spurningaspilið. Við óskum þeim til hamingju með vinninginn og þökkum þeim sem tóku þátt.

Jólasveinalestin keyrði góðan rúnt um götur Sauðárkróks á laugardaginn en í lestinni voru jólasveinarnir og þau Grýla og Leppalúði og nutu þau aðstoðar Björgunarsveitarinnar Skagfirðingasveitar. Ekki var annað að sjá en að allir hafi skemmt sér vel.

Skoða á skagafjordur.is þar sem finna má fleiri myndir.