Gögn um vinsælustu fyrstu og önnur eiginnöfn nýfæddra barna á Íslandi árið 2023 hafa verið birt á vefsíðu Þjóðskrár, en þar kemur fram að vinsælasta fyrsta eiginnafn meðal nýfæddra drengja hafi verið nafnið Birnir.
Alls var 30 drengjum gefið nafnið Birnir sem fyrsta eiginnafn, en næst vinsælustu nöfnin voru Emil, Elmar og Jón. Þá var nafnið Emilía vinsælast sem fyrsta eiginnafn meðal nýfæddra stúlka, en 23 stúlkum var gefið nafnið. Þar á eftir voru nöfnin Sara, Sóley, Embla og Aþena.
Þó nokkrar breytingar hafa orðið á vinsælustu nöfnunum milli ára, en árið 2022 var nafnið Birnir í fimmta sæti og tekur nú fyrsta sætið af nafninu Emil. Þá hefur nafnið Elmar tekið stórt stökk úr 27. sæti í það þriðja, og nafnið Jón hækkaði einnig.
Hjá stúlkunum hefur nafnið Emilía tekið stökk úr 21. sæti í það fyrsta, en nöfnin Sara og Sóley hafa einnig hækkað verulega frá því árið 2022. Það nafn sem tók stærsta stökkið á topp 10 listanum er þó nafnið Una sem fór úr 58. sæti í níunda sæti.
Vinsælustu fyrstu eiginnöfn nýfæddra stúlkna 2023
- Emilía
- Sara
- Sóley
- Embla
- Aþena
- Emma
- Katla
- Lilja
- Una
- Viktoría
Vinsælustu fyrstu eiginnöfn nýfæddra drengja 2023
- Birnir
- Emil
- Elmar
- Jón
- Óliver
- Aron
- Viktor
- Jökull
- Alexander
- Atlas
Mynd/pixabay