Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar samþykkti á fundi sínum þann 11. febrúar síðastliðinn að auglýsa tillögu að deiliskipulagi íbúðareits milli Sæmundargötu, Ránarstígs og Freyjugötu á Sauðárkróki, lóðina Freyjugötu 25.

Fyrirhugað er að breyta gamla skólahúsinu á lóðinni í fjölbýlishús með 11 íbúðum og skipta lóðinni jafnframt upp í fjóra hluta, þannig að auk lóðar undir fjölbýlishúsið verði skilgreindar þrjár nýjar lóðir. Tvær lóðir fyrir parhús við Freyjugötu og ein lóð fyrir parhús við Ránarstíg.

Tillagan mun liggja frammi í ráðhúsi sveitarfélagsins frá og með fimmtudeginum 20. febrúar næstkomandi til og með 3. apríl. Nálgast má deiliskipulagstillöguna á vefsíðu sveitarfélagsins. 

Athugasemdir eða ábendingar skulu berast skriflega til skipulagsfulltrúa í ráðhúsið við Skagfirðingabraut eða á netfangið jobygg@skagafjordur.is í síðasta lagi 3. apríl 2020.

Af skagafjordur.is