Í dag, fimmtudaginn 7. júní, eru 20 ár liðin frá því að Dalvíkurbyggð varð til sem eitt sveitarfélag en þann dag árið 1998 sameinuðust Dalvík, Árskógshreppur og Svarfaðardalshreppur í eitt.

Fyrsti sveitarstjóri hins nýja sveitarfélags var Rögnvaldur Skíði Friðbjörnsson (1998-2001). Á eftir honum komu þau Guðrún Pálína Jóhannsdóttir (2002), Valdimar Bragason (2002-2006), Svanfríður Jónasdóttir (2006-2014) og Bjarni Th. Bjarnason (2014-2018).

Fyrstu sveitarstjórn sameinaðs sveitarfélags skipuðu þau: Katrín Sigurjónsdóttir, Kristján Ólafsson, Sveinn Elías Jónsson og Gunnhildur Gylfadóttir fyrir B-lista, Kristján Hjartarson og Ingileif Ástvaldsdóttir fyrir S-lista og Svanhildur Árnadóttir, Kristján Snorrason og Jónas M. Pétursson fyrir D-lista.

Þess má þá geta að núna, 20 árum síðar, er Katrín Sigurjónsdóttir aftur orðin efsti maður á B-lista og tekur sæti í sveitarstjórn líkt og fyrir 20 árum.

Fyrsta fundi í bæjarstjórnar hins nýstofnaða sveitarfélags, þann 9. júní 1998, og fyrsta fundi bæjarráðs, þann 11. júní 1998, stýrði aldursforseti Sveinn Jónsson en til gamans má geta að samkvæmt samkomulagi núverandi meirihluta B– og D– lista eftir nýafstaðnar sveitarstjórnarkosningar mun Jón Ingi Sveinsson, sonur áður nefnds Sveins Jónssonar, stýra fundi bæjarráðs sem formaður þess.

Á þessum 20 árum hefur ýmislegt áunnist og eflaust er það efni í aðra grein en meðal annars má nefna stækkun og viðbyggingu Árskógarskóla, Dalvíkurskóla og leikskólans Krílakots. Byggingu á íþróttahúsi á Dalvík, stækkun á dreifikerfi Hitaveitu Dalvíkur þar sem að Árskógsströnd og stærstur hluti Svarfaðardals hefur verið tengdur veitunni, framkvæmdir við fráveitu þar sem útræsi hafa verið sameinuð þannig að eitt útræsi er á Dalvík og Hauganesi og tvö á Árskógssandi og hafnarframkvæmdir í öllum höfnum sveitarfélagsins. Þá hefur móttaka afla hjá hafnarsjóði Dalvíkurbyggðar farið yfir 20.000 tonn í lok tímabilsins sem er stór áfangi. Skammtímavistun fyrir fatlað fólk hefur verið komið upp á Dalvík og fyrir dyrum stendur bygging íbúða fyrir fatlað fólk. Unnin hefur verið metnaðarfull stefnumótun hjá sveitarfélaginu svo sem mannréttindastefna, skólastefna, lýðræðisstefna, menningarstefna og fleira og fleira að ógleymdu aðalskipulagi sveitarfélagsins. Þá hefur sveitarfélagið verið framarlega í skipulagi vinnu við gerð fjárhagsáætlana og í verkefnum sem tengjast rafrænni stjórnsýslu.

Íbúafjöldi í sveitarfélaginu 1. desember 1998 var samtals 2064 en er í dag 7. júní 2018 samtals 1908 og hefur íbúum sveitarfélagsins því fækkað um 7,5%. Þess má þó geta að árið 2018 fjölgar íbúum um 77 manns á milli ára.

Í dag er uppgangur hér í Dalvíkurbyggð. Íbúum er að fjölga og mikill skriður er á lóðaúthlutunum í sveitarfélaginu og jákvætt að sjá ný hús rísa frá grunni. Fólkið sem byggir Dalvíkurbyggð er kraftmikið og óhætt að segja að þar sé frumkvöðlahugsun í hávegum höfð. Um það vitna þau fjölmörgu framsæknu fyrirtæki sem starfa í sveitarfélaginu, sum hver  alþjóðleg stórfyrirtæki. Atvinnulífið er því öflugt og fjölbreytileiki þess fer vaxandi. Atvinnulífskannanir sýna að fyrirtækin líta jákvæðum augum til framtíðar, þurfa frekar að fjölga starfsfólki en fækka og að verkefnastaða er almennt góð. Ímynd sveitarfélagsins er jákvæð en niðurstöður könnunar sýna að almennt líta íbúar og aðrir landsmenn á sveitarfélagið sem fjölskylduvænt, friðsælt og öruggt sveitarfélag í fallegu umhverfi eða eins og nefnt var ,, lítið samfélag þar sem gott er að ala upp börn“ .

Þessi kraftur í fólkinu sýnir sig líka í margskonar skapandi starfi en í sveitarfélaginu eru sem dæmi starfandi fimm kórar, leikfélag, byggðasafn og menningarhús svo eitthvað sé nefnt. Fiskidagurinn mikli er gott dæmi um afrakstur þessarar kraftmiklu, skapandi frumkvöðlahugsunar en þar leggst allt samfélagið á eitt með atvinnurekendum um að bjóða hingað miklum fjölda fólks í allsherjar fiski- og gleðiveislu.

Sameiningarferlið

Tilurð sameiningarinnar voru þau að í apríl 1995 er haldinn sameiginlegur fundur sveitarstjórnarmanna frá Ólafsfirði, Dalvík, Svarfaðardalshreppi, Árskógshreppi og Hrísey þar sem meðal annars er rætt um samstarf þessara sveitarfélaga. Seinna sama ár samþykkir bæjarstjórn Dalvíkur að fela bæjarstjóra sínum að leita eftir því að skipuð verði sameiginleg nefnd þessara sveitarfélaga sem fari yfir og meti möguleika á frekara samstarfi og/eða sameiningu þeirra. Niðurstaða þeirra umleitana er sú að í ágúst 1996 er skipuð sameiginleg nefnd allra þessara sveitarstjórna, auk Siglufjarðarkaupstaðar. Nefndin fékk fyrirtækið Rekstur og ráðgjöf ehf. í Reykjavík til að athuga hagkvæmni sameiningar eða samstarfs þessara sveitarfélaga. Leggur fyrirtækið til sameiningar í áföngum, fyrst Dalvík, Svarfaðardal og Árskógsströnd, síðan Hrísey, þá Ólafsfjörð og að lokum Siglufjörð. Tekur þó fram að sameining við Siglufjörð miðist við að samgöngur verði bættar með jarðgöngum. Með þeim fyrirvara dettur Siglufjarðarkaupstaður út úr umræðum um sameiningu og eftir standa Dalvík, Svarfaðardalshreppur, Árskógshreppur, Hrísey og Ólafsfjörður.

Viðræður halda áfram en í janúar 1997 er ljóst að Ólafsfirðingar draga sig út úr sameiningarviðræðunum.  Í bókun segir: ,,Bæjarstjórn Ólafsfjarðar ítrekar fyrri afstöðu sína um að rétt sé að huga að skoðanakönnun meðal íbúanna samhliða næstu sveitarstjórnarkosningum um vilja til sameiningar og á þeim grundvelli verði síðan unnið. Bæjarstjórn Ólafsfjarðar telur að breyttar áherslur án þess að forsendur hafi breyst séu ekki til þess fallnar að styrkja áform sveitarfélaganna um víðtæka sameiningu á grundvelli bættra samgangna. Fjármunum hefur verið varið til að rannsaka möguleika á bættum samgöngum og meðan beðið er niðurstöðunnar sé það fljótræði að leggja til grundvallar forsendur sem útiloki aðild Siglufjarðar að sameiningunni. Slík ákvörðun er til þess fallin að hafa neikvæð áhrif á stöðu hins sameinaða sveitarfélags til lengri tíma.“

Í framhaldi af því ákveða hin sveitarfélögin fjögur að halda viðræðum áfram og vonast til að sjá nýtt sveitarfélag í apríl/maí sama ár. Ákveðið er að ganga til samninga við Þröst Sigurðsson hjá Rekstri og ráðgjöf um að verða verkefnisstjóri verkefnisins og í framhaldi eru skipaðir fjórir starfshópar: um fræðslumál, um félagsmál, bygginga- skipulags- og veituráð og yfirstjórn.

Er það mat forsvarsmanna þessara sveitarfélaga að sameining  sé heppilegur áfangi á leið til frekari sameiningar sveitarfélaga í Eyjafirði en jafnframt verði til öflugt sveitarfélag í utanverðum Eyjafirði.

Úttekt á sveitarfélögunum fjórum gefur til kynna að fjárhagsstaða og verkefnastaða þeirra sé nokkuð góð en skóinn kreppi helst að hvað varðar skólahúsnæði og í hita- og fráveitumálum. Eins og kemur fram hér að ofan hefur frá sameiningu verið unnið markvisst að úrbótum í þessum málaflokkum.

Laugardaginn 9. júní 1997 er gengið til kosninga um sameiningu þessara fjögurra sveitarfélaga, Dalvíkur, Svarfaðardalshrepps, Árskógshrepps og Hríseyjar. Bæjarpósturinn gerir skoðanakönnun þar sem í ljós kemur að 75,6% íbúa þessa fjögurra sveitarfélaga eru fylgjandi sameiningu, 24,4% eru andvígir henni. Úrtakið var þó ekki mjög stórt, aðeins 50 manns í það heila, 20 á Dalvík og 10 í hverju hinna sveitarfélaganna. Ljóst er að þessi skoðanakönnun hafði ekki forspárgildi fyrir komandi kosningar því að Hríseyingar felldu tillöguna um sameiningu.

Í kjölfarið ákveða forsvarsmenn hinna sveitarfélaganna þriggja að kjósa um sameiningu sveitarfélaganna að nýju. Boðað er til þeirra kosninga í fyrstu laugardaginn 4. október 1997 en síðar frestað til 18. október vegna vafa á tímafresti á framlagningu kjörskrár. Niðurstaða þeirrar kosningu er sú að sameiningin er samþykkt:

  • Svarfaðardalur: 84 já (76,3%), 26 nei (23,6%), kjörsókn 65,4%
  • Árskógsströnd: 98 já (69,5%), 40 nei (28,4), kjörsókn 63%
  • Dalvík: 343 já (57,6%), 236 nei (49,6%), kjörsókn 59%

29. október 1997 er haldinn fyrsti samráðsfundur sveitarstjórnanna þriggja eftir að sameiningin var samþykkt og var fundarefnið aðallega fyrirliggjandi samvinnuferli og hvaða verkefni eigi að vera í forgangi. Samþykkt er að stofna sérstaka framkvæmdanefnd til að undirbúa og fylgja eftir verkefnum.

Þann 23. maí 1998 eru fyrstu sveitarstjórnarkosningar fyrir nýtt sameinað sveitarfélag. Í framboði eru þrír listar, B-listi framsóknarflokksins, D-listi sjálfstæðismanna og óháðra og S-listi sameiningar.  Fyrstu sveitarstjórn sameinaðs sveitarfélags skipa, eins og áður hefur komið fram: Katrín Sigurjónsdóttir, Kristján Ólafsson, Sveinn Elías Jónsson og Gunnhildur Gylfadóttir fyrir B-lista, Kristján Hjartarson og Ingileif Ástvaldsdóttir fyrir S-lista, Svanhildur Árnadóttir, Kristján Snorrason og Jónas M. Pétursson fyrir D-lista.

Þann 7. júní 1998 er svo gildistaka sameiningarinnar endanlega staðfest af ráðuneyti og telst það því vera afmælisdagur sveitarfélagsins.

Samhliða sveitarstjórnarkosningunum fer fram kosning um nafn á hið nýja sveitarfélag en mikil umræða hafði farið fram um nafngiftina í sveitarfélaginu enda vandasamt verk að finna sameinuðu sveitarfélagi nýtt nafn.

Og hvað á barnið að heita

Samstarfsnefnd um sameiningu sveitarfélaganna ákveður að efna til nafnasamkeppni um nýtt nafn á sveitarfélagið og er öllum íbúum gefinn kostur á að taka þátt og senda inn tillögur fyrir 24. janúar 1998. Í fyrstu er leitað eftir hvaða hugmynd sem er og hvatt til þess að íbúar hafi í huga að hugmyndirnar séu sem mest lýsandi fyrir það svæði sem sveitarfélögin þrjú nái yfir og séu til þess fallnar að sem flestum íbúum á öllu svæðinu geti fallið nafnið í geð. Þær hugmyndir sem fram koma í þessari könnun fóru síðan fyrir sameiningarnefndina sem valdi þau nöfn sem hún taldi koma til greina sem nafn á hið nýja sveitarfélag. Alls bárust 147 tillögur að nafni á sveitarfélagið, þar af hlutu 42 nöfn tvö eða fleiri atkvæði.

Þær tilnefningar sem hlutu flest atkvæði voru: Dalvík, Dalvíkurbær, Víkurbyggð, Árdalsvík, Dalvíkurbyggð, Vallarbyggð, Norðurbyggð, Víkurbær, Dalabyggð, Víkurströnd, Svarfdælabyggð og Vallnabyggð. Við taka miklar viðræður um hvaða nöfn eigi að kjósa samhliða sveitarstjórnarkosningunum en snérist sú umræða helst um að nota ekki nöfn sem vísuðu of mikið á eitt sveitarfélag frekar en annað eins og Dalvík og Dalvíkurbær. Einnig er leitað álits félagsmálaráðuneytisins sem styður þessa niðurstöðu og segir að Dalvíkurbær geti ekki talist vera nýtt nafn þar sem það hafi verið notað hjá sveitarfélaginu Dalvík. Niðurstaðan er því sú að um eftirfarandi nöfn verði kosið: Árdalsvík, Víkurbyggð, Eyjafjarðarbær, Norðurslóð, Víkurströnd, Norðurbyggð og Vallarbyggð.

Í sveitarstjórnarkosningunum 23. maí 1998  varð svo niðurstaðan að hið nýja sveitarfélag skyldi bera nafnið Árdalsvík en atkvæði fóru þannig: Árdalsvík 232, Víkurbyggð 227, Norðurbyggð 186, Eyjafjarðarbær 142, Víkurströnd 100, Vallarbyggð 45, Norðurslóð 45.

Á fyrsta fundi bæjarstjórnar 9. júní 1998 er samþykkt að leita umsagnar örnefnanefndar um nafngift á sveitarfélagið. Örnefnanefnd lýkur loks umfjöllun um málið á fundi sínum í september 1998. Þar kemur fram að einungis sé hægt að fallast á tvö af þeim sjö nöfnum sem kosið var um, Vallarbyggð og Víkurbyggð. Hin fimm nöfnin samræmist ekki reglum.

Jafnframt bendir nefndin á að heitin Svarfdælabyggð og Dalvíkurbyggð hafi fyrri liði sem séu ákaflega sérkennandi fyrir hið nýja sveitarfélag í augum allra landsmanna. Nefndin mælist þó ekki til að annaðhvort þessara nafna sé notað heldur bendir einungis á að þau séu sérkennandi fyrir svæðið og sett fram sem nánari útlistun á vinnureglum nefndarinnar. Í greinargerð örnefnanefndarinnar kemur fram að nafnið Árdalsvík styðjist ekki við málhefð því þar sé ekki um að ræða örnefnið Árdal sem kenna mætti sveitarfélagið við. Á grundvelli þessa og í samræmi við önnur megin sjónarmið um heiti sveitarfélaga getur örnefnanefnd ekki mælt með nafninu Árdalsvík.

Í þessu ljós samþykkir bæjarstjórn sameinaðs sveitarfélags samhljóða á fundi sínum þriðjudaginn 29. september 1998 að sveitarfélagið fá nafnið Dalvíkurbyggð. ,, Með vísan til umsagnar örnefnanefndar og þess langa tíma sem nafnamálið hefur tekið, leggur bæjarráð til að nýtt nafn sameinaðs sveitarfélags Árskógsstrandar, Dalvíkur og Svarfaðardals verði Dalvíkurbyggð“

Merki sveitarfélagsins

Eitt af fyrstu verkefnum íþrótta-, æskulýðs- og menningarráðs hins nýja sveitarfélags Dalvíkurbyggðar var að láta útbúa byggðarmerki sveitarfélagsins og ákvað ráðið að efna til hugmyndasamkeppni meðal íbúa um nýtt merki. Alls bárust 11 tillögur að merki. Þann 1. febrúar 1999 samþykkir ráðið að mæla með tillögu að byggðarmerki eftir höfund sem kallar sig Molarnir. Merkið er einföld teikning af fjöllum, strönd og sjó. Táknrænt fyrir sveitarfélagið sögulega, landfræðilega og atvinnulega samkvæmt lýsingu höfunda og fannst nefndarmönnum það táknrænt fyrir hið nýja sveitarfélag. Á 11. fundi ráðsins samþykkir það að veita höfundi merkisins 50.000kr. sem viðurkenningu auk þess sem samþykkt er að sýna allar tillögurnar opinberlega. Höfundar merkisins eru þeir Marío Roberto Molina Lopez og Guðmundur Ingi Jónatansson.

 

Heimildir fengnar úr Bæjarpóstinum, Norðurslóð og fundargerðum bæjarstjórnar, bæjarráðs og íþrótta-, æskulýðs- og menningarráðs.