Eining-Iðja og Nice Air hafa gert með sér samkomulag um tímabundin afsláttarkjör á gjafabréfum hjá Nice Air til félagsmanna Einingar-Iðju. Sala á gjafabréfum til félagsmanna er hafin og verða þau til að byrja með í sölu út árið 2022.

Gjafabréfin eru seld í gegnum orlofsvef Einingar-Iðju. Hver félagsmaður mun geta keypt eitt gjafabréf á ári og greiðir fyrir það kr. 22.000. Virði hvers gjafabréfs verður kr. 32.000 og er því afslátturinn kr. 10.000.

Hægt verður að nýta gjafabréfið til kaupa á flugfargjaldi og annarri bókunarþjónustu hjá Nice Air í gegnum bókunarsíðu félagsins www.niceair.is 

Gleðilegt

Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, segir það gleðilegt að gera þennan samning við Nice Air. „Það er gott að stuðla að því að fyrirtæki í heimabyggð, eins og þetta, gefi okkar félagsmönnum tækifæri til að fá aðeins ódýrara flug. Við teljum þennan samning stóran áfanga og vonum að félagsmenn nýti sér þetta tækifæri. Þetta er auðvitað kostnaður fyrir félagið en við fáum líka góðan afslátt frá Nice Air á móti. Þeir eru að gera þarna góða hluti og bara vonandi gengur þetta vel og að okkar félagsmenn nýti sér þessi bættu kjör.“

Björn bætir við og segir að hann hafi fulla trú að á Nice Air sé komið til að vera og að það muni vaxa og dafna á komandi árum. „Þetta er eitthvað sem við erum búin að bíða lengi eftir, að menn stofni flugfélag og fljúgi héðan frá Eyjafjarðarsvæðinu. Þetta mun auka orlofstöku okkar fólks sem mun geta notið þess að fljúga úr heimabyggð á lægri fargjöldum. Til að byrja með nær samningurinn til næstu áramóta en við munum endurskoða dæmið er líður á, þannig að vonandi eigum við eftir að framlengja þennan samning fljótlega. Aðalmálið er að ég vona að félagsmenn eigi eftir að nota vel þessa góðu kjarabót sem samningurinn er að tryggja þeim.“

Myndir/ Nice Air